Kenning Julian Jaynes með tilliti til mið-amerískra frumbyggja Kenning Julian Jaynes um geðklofa menningarheim fornaldar, birt í The origin of consciousness in the breakdown of the bicameral mind, setur fram róttækar kenningar um og afar óhefðbundnar skýringar á hugarheimi, trúarbrögðum og stéttakerfi mannkyns áður fyrr. Í bók hans er rakin saga fjölmargra þjóða og víðtæk rök færð fyrir kenningunni, sem ná til líffræða, sálfræða, sagnfræða, trúarbragðafræða og stjórnmálasögu. Að gefnum víðtækum fullyrðingum kenningarinnar, er hægt að finna votta hennar í viðurkenndum frásögnum af mönnum fornaldar?

Yfirlit yfir kenningu Jaynes
Við upphaf verkfærasmíðar smárra veiðihópa, áður en maðurinn öðlaðist fyrirhyggju, þurfti hann búnað til að halda sér við verk sem honum var skipað í. Kenningunni samkvæmt var sá búnaður stöð í hægra heilahvelinu sem endurtók skipunina fyrir vinstra heilahvelið, sem túlkaði hana í verk. Skipanirnar heyrðust með rödd leiðtogans sem gaf þær. Síðar meir þurfti ekki leiðtogans við til að ræsa skipanirnar, og hlýddi vinstra heilahvelið því hægra ávallt þegar ákvarðanatökur bar við. (Mögulega var röddin ræst með streitu, eins og gerist við öllu meira álag nú til dags; stress er þekkt orsök ofskynjana.) Þetta leiddi til menningar sem hlýddi einnig „skipunum“ látinna leiðtoga. Forfeðradýrkun átti þar uppruna sinn. Viðkvæmni fyrir þessum hrifum skýrir geðklofa nútímans. Þessi menning brotnaði niður í Evrópu eftir sprengigosið í Theru, þar sem samþættar samfélagslegar orsakir breyttu lífsskilyrðum skjótt og til mikilla muna, sem olli úreldingu þessa fyrirkomulags. Slíkar aðstæður voru þó ekki fyrir hendi í Ameríku, íbúar hverrar gætu hafa lifað við sama hugarfar til komu Evrópubúa.

Áhrif á mótun landbúnaðarmenningar og fasta búsetu í Mið-Ameríku
Skipulögð jarðrækt hófst í Ameríku um 6500 f.Kr. Fyrstu þorpin, byggð einu til tveimur árþúsundum f. Kr., voru smá, og töldu aðeins um tíu til tólf hús. Átta metra hár hraukur stóð í einu þorpi, sem líklega hefur borið byggingu. Þessir hraukar urðu síðar meir öllu tíðari og hærri, þróun sem endaði í þeim gríðarstóru píramídum sem bera menninganna vitni enn í dag. Vitað er að þeir hafi síðar gegnt hlutverki grafhýsa dauðra leiðtoga. Í ljósi undirgefni geðklofa manna gagnvart þeim, og ráðfærslu mannanna við líkin, þarf ekki að koma á óvart að þessi grafhýsi hafi verið staðsett í miðju þorpanna, og oft á háum stalli, svo þau sáust víða að.
Kenningunni samkvæmt voru bæði smáar og stærri styttur notaðar til að kalla fram „hjálp guðanna“ þegar þörf krafði, þær smærri voru þá eins konar farsímasamband við guð en þær stærri öllu áhrifameiri, ef guðirnir voru þögulir.
Steinarnir fyrir stærri stytturnar (sjá mynd af styttu úr San Lorenzo Tenochitlán hér til hliðar, frá um árþúsundi f. Kr.) voru dregnir langt að og voru gríðarþungir, og hefur það verk krafist gífurlegrar vinnu og strangs félagslegs stjórnkerfis. Draga þurfti steinana til fljóts sem þeir voru fleyttir eftir þangað sem þeir voru svo höggnir af natni. Geðklofa menn, sem hlýddu skilyrðislaust yfirboðurum sínum, og sem rök má færa fyrir að hafi síður fundið til sársauka en meðvitað fólk, hafa verið öllu færari um þetta en meðvitaðir menn. (Giza-píramídar Egyptalands voru einnig byggðir á þeim tíma sem kenningin tekur til.)

Trúarleg menning og stéttaskipting
Í eðli hinna frumstæðu „bergmálsguða“ lá möguleikinn að fjöldi mismunandi radda talaði til hvers einstaklings. Fjölgyðistrúr voru vissulega algengari áður fyrr en þær eru nú, en það var engu að síður nokkur leið til þeirra frá þeim aragrúa „guða“ sem áður áttu sér stað í hausum samfélagsins. Til að viðhalda reglu á samfélaginu og samheldni í trúhneigð þurfti stéttaskiptingu þar sem yfirleitt mátti finna goggunarröð presta með mann-guð eða mann í beinu sambandi við guð(i) á toppnum. Þannig samband leiðtogans við himneskan guð var viðvarandi í Tenochitilán, sem og í Egyptalandi faraóanna. Einnig fólst samrýmingin í opinberum styttum og ígreyptum súlum með sögum og trúarathöfnum, sem, til dæmis, hafa fundist í leifum Izapa-menningarinnar, sem var uppi um 600 f. Kr. til 100 e. Kr. Einnig hefur Cerro de las Mesas fornleifauppgröfturinn afhjúpað slíkar styttur frá um 800 e. Kr. Þessi goggunarröð, reglugerð og „þjóðtrú“ þýddi að allir gátu hlýtt sama guðinum eða leiðtoganum án þess að þurfa hans hjálp persónulega, sem gerði viðkomandi samfélagi kleyft að verða öllu stærra en annars væri hægt.
Um 300 f. Kr. til 100. e. Kr. viðgekkst að grafa fólk undir gólfum húsa sinna þegar það lést og yfirgefa húsið. Eftir því sem æðri stéttir aðskildust almúgann fóru þeirra grafhýsi að þróast í þá stalla sem síðar urðu píramídar. Þeir urðu miðpunktur viðhafnarlífs og byggðar í Mið-Ameríku. Látnir leiðtogar, guðir þeirra eða bæði voru tilbeðnir þar. Það er auðvelt að sjá hvernig þessi þróun frá greftri æðri meðlima samfélagsins í píramídann ætlaðan til tilbeiðslu æðsta meðlimsins gat leitt af sér prestastétt, sem svo tók að sér það hlutverk að miðla tilskipunum stjórnandans til almennings.
Teotihuacán-menningin, uppi frá stuttu f. Kr. þar til eftir hálfu árþúsundi e. Kr., reisti fjölmargar viðhafnarbyggingar eftir „stræti hinna dauðu“, ásamt íðilíbúðum fyrir æðri stéttina. Nafn borgarinnar kom frá Aztekum, og þýðir eitthvað á borð við „borgin þar sem menn urðu guðir“ eða „borg guðanna“, en Aztekar mátu borgina afar mikils (enda er mögulegt að þangað hafi þeir rakið ættir sínar) og kom konungshirð þeirra í árlegar pílagrímsferðir þangað. Vera má að þar hafi stjórnendur og guðir forðum daga lagt línurnar fyrir trúarbrögð Azteka.
Árið 400 e. Kr. réðust Teotihuacán-ar inn í Kaminaljuyú, smærra ríki í grenndinni, og plöntuðu þar smækkaðri útgáfu höfuðborgar sinnar. Erfitt er að finna ástæðu fyrir þessari hegðun, þótt ósveigjanlegur hugsunarháttur geðklofa manna væri haldbær skýring á þessum sjálfhverfu aðgerðum.
Meðal Inka má einnig sjá svipmyndir forfeðradýrkunar, auðskýranlegar með kenningu Jaynes. Við höfum frásagnir spænskra landvinningamanna af því hvernig fullklæddar múmíur voru helstu ráðgjafar konungsins í Cuzco, hvernig þeim var færður matur og drykkur og hvernig þær voru bornar um borgina, tilbeðnar af Inkum hvert sem þær fóru. (Ráðalausir Spánverjarnir tóku bara ofan.)

Endalok síðustu „geðklofamenningarinnar“
Þegar landvinningaspánverjarnir komu til þessara borgheima voru þeir 128 talsins gegn 80,000 manna her Inkakonungs. Herinn stóð þó utan borgarinnar, og þegar konungurinn, Atawallpa, kom til móts við Pizarro, leiðtoga Spánverjanna, kom hann með smáan lífvörð með sér. En þegar hegðun hans móðgaði prest Spánverja gerðu Spánverjar áhlaup og drápu fyrirhafnarlítið 7,000 Inka án manntaps af sinni hálfu. Þeir tóku svo Atawallpa til fanga, og var Inkaveldið því „guðlaust“. Eftir að hafa hengt Atawallpa reyndu þeir að halda stjórn á þjóðinni með leiksoppslandsstjóra, en það fór þó að lokum úrskeiðis. Þegar allt kom til alls náðu Spánverjar með miðlun mála að snúa Inkum til skurðgoðaslettrar Kristni.

Samanburður
Að öllu athuguðu virðast mið-amerískir frumbyggjar og menningar þeirra sannarlega hafa borið með sér einkenni þess geðklofa sem Jaynes fjallar um. Forfeðradýrkun, mann-guðir og skurðgoð voru öllu tíðari áður fyrr, en virðast þó hafa enst allt fram að hernámi Spánverja í Mið-Ameríku, sem var frumbyggjanna eigin „Thera eldgos“. Návist guðanna var ávallt mikil í geðklofa menningu, en hún mátti sín lítils gagnvart meðvituðum kristniboðum, skotvopnum og smitsóttum. Það má því vera að þar hafi síðasta geðklofa menningin liðið undir lok, og væri það þá að líkindum síðasta skiptið þar sem svo ljóst gátu sést skilin milli hennar og meðvitundar.

Meta-yfirferð
Þessa grein ber ekki að skilja sem svo að ég taki þessa kenningu fyllilega trúanlega. Engu að síður er hún geysilega vel rökstudd, og tengir saman sláandi ólíkar fræðigreinar og staðreyndir. Ég stiklaði hér aðeins á stóru í yfirferð um kenninguna, en hafi einhver spurningar um hana get ég dustað af bókinni og farið nánar í hana.

Heimildir
Ancient Civilizations: The Illustrated Guide to Belief, Mythology and Art. Greg Woolf ritstýrði. Duncan Baird Publishers Ltd., London 2005.
Julian Jaynes: The origin of consciousness in the breakdown of the bicameral mind. Houghton Mifflin Company, New York 1990.
The New Encyclopædia Britannica Macropædia. 8. bindi, „Pre-Columbian civilizations“. Philip W. Goetz ritstýrði. University of Chicago, Chicago 1990.