Gos í Fimmvörðuhálsi Rétt fyrir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 21. mars rofnaði jörð í Fimmvörðuhálsi milli Eyjafjalla- og Mýrdalsjökuls. Tíðir smáskjálftar höfðu verið fyrir miðju Eyjafjallajökuls, flestir á um sjö kílómetra dýpi, sem gaf til kynna tilfærslu kviku þar. Einnig mátti með GPS mælingum sjá að yfirborð jökulsins hafði hækkað og færst vegna þessara kvikuinnskota. Dagana áður hafði stöku alda skjálftavirkni teygt sig út frá miðju jökulsins, og laugardagskvöldið 20. mars varð vart við skjálfta á öllu minna dýpi en áður. Stuttu seinna ruddist kvikutungan upp á yfirborðið.
Klukkan eitt eftir miðnætti var gangsett rýmingaráætlun, vegna hugsanlegrar flóðahættu, skyldi gosið bræða jökulinn.

Vindátt lá í norðvestur og var flugi til og frá Keflavíkur-, Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli því aflýst, en Egilsstaðaflugvöllur tók við sem meginflugvöllur landsins.

Skjálftavirkni frá því gosið hófst hefur verið væg en stöðug, og flestir skjálftanna hafa verið í austurhlið Eyjafjallajökuls - vestan við núverandi gos - sem fyrr. Ekki hefur dregið úr útþenslu Eyjafjallajökuls, sem bendir til enn frekari kvikuuppsöfnunar þar. Gosið hefur hingað til valdið lítilli öskumyndun, en nokkuð hraun hefur runnið fram. Í nótt eða í morgun, mánudaginn 22. mars, fór hraunið að renna niður í Hrunaárgil, sem var fyllt snjó. Reis þá nokkurra kílómetra hár gufustrókur úr því og jókst rennsli í Krossá (sem rennur til vesturs meðfram Eyjafjallajökli norðanverðum) stuttu síðar, auk þess sem hitastig árinnar jókst um tæplega tíu gráður.

Öllum gosum sem þekkt er til í Eyjafjallajökli hefur verið fylgt eftir með Kötlugosi. Katla er gríðarstór eldstöð undir Mýrdalsjökli, en hann rétt þekur sigketil hennar. Sigkatlar þessir myndast þegar þak kvikuhólfs eldstöðvar fellur inn í hólfið undir eigin þyngd í stóreflis gosi. Undir Mýrdalsjökli hafa nú safnast upp tveir súrgúlar, sem eru stórar klessur þykkfljótandi kviku. Súrgúlar þessir geta gosið heiftarlega, jafnvel sprungið, sé þrýstingi létt af þeim skyndilega eða þeir hitaðir með kvikuinnskoti. Nokkur skjálftavirkni hefur verið þar að undanförnu og því ekki ólíklegt að kvika sé á hreyfingu.

Gos í Eyjafjallajökli hafa yfirleitt hafist rólega en sótt í sig veðrið, og sem fyrr segir hefur kvikusöfnun undir jöklinum haldið áfram eftir að gosið hófst, og því öll ástæða til að hafa varann á. Ekki er loku fyrir það skotið að ný sprunga opnist fyrirvaralítið undir jökulhellunni, og má þá búast við flóði með stuttum fyrirvara. Þetta er sérstaklega varhugavert í ljósi þess að gossins nú varð ekki vart fyrr en eftir að það hófst, og það einungis vegna bænda sem sáu til ljósa á fjöllum. Það er ekki að sökum að spyrja ef gosið hefði hafist undir jökli.

Ítarefni
Grein frá 2001 um skjálfta undir Goðabungu
Enskyfirlitsgrein jarðvísindastofnunar HÍ um eldvirkni Kötlu
Sjálfvirkar skjálftamælingar Veðurstofu við Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul
Grein Morgunblaðsins um hugsanlegt kvikuinnskot í Kötlu
Yfirlitssíða RÚV um gostengdar fréttir
Umræðuþráður Málefnin.com um gosið
Vatnamælingagögn Veðurstofu
Yfirlitssíða Veðurstofu um skjálftavirkni síðustu vikna
Óróagröf Veðurstofu