Ísbirnir á Íslandi hvaðan koma þeir? Það hefur sennilega ekki farið framhjá nokkrum Íslendingi að á síðustu dögum hafa fundist tveir ísbirnir í Skagafirði og grunur leikur á að sá þriðji sé á vappi á hálendinu. Ísbirnir lifa öllu jöfnu ekki á landinu og hljóta þeir að hafa komið hingað syndandi frá hafísnum við austurströnd Grænlands.

Heimildir eru fyrir því að ísbjörn hafi synt 100 km án hvíldar. Mjög ólíklegt hlýtur þó að teljast að margir ísbirnir leggi í slíkt langsund.

Eftir því sem ég best veit var hafís við austurströnd Grænlands með eðlilegasta móti þennan veturinn. Þar sem norð- og austlægar vindáttir voru ríkjandi hélt ísinn sig að mestu langt fyrir norðan land. Þó kom ísinn töluvert nálægt landi dagana 20. - 25. febrúar. Samkvæmt vef Veðurstofunnar (sjá hér) var ísinn styst frá landi þegar hann var 15 sjómílur (27km) frá Horni. Nokkrum dögum síðar hvarf sá ís aftur og 28.febrúar var ísinn kominn a.m.k. hundrað km í burtu.

Mín kenning er að þegar ísinn hörfaði svona skyndilega hafi einhverjir ísbirnir tveir eða fleiri orðið eftir á litlum jökum nálægt Hornströndum. Það er ekki svo langt fyrir birnina að synda beint á Skagann en ég efa að það hafi verið raunin þar sem þeir hefði þá sennilega fundist fyrr. Ég held að þeir hafi frekar synt til Hornstranda. Þar hafi þeir svo hafst við í vetur. Þar gætu þeir mögulega fundið sér eitthvað að borða, en ísbirnir geta lifað á gróðri og þara í nokkra mánuði.

Þegar snjóinn hefur tekið að bráðna í vor hafa birnirnir svo farið að hafa áhyggjur af snjóleysinu, þeir hafa séð snjó í fjöllum á Skaganum og stungið sér til sunds. Stuttu eftir að þeir tóku land á Skaga fundust þeir og voru skotnir.

Samkvæmt nýjasta ískorti Landhelgisgæslunnar frá 18.júní er ísinn langt í burtu (áætlaðir 200km með Google Earth) frá landinu og engar tilkynningar virðast hafa borist um borgarísjaka frá skipum sem leið hafa átt um þetta svæði.

Heimildir:
http://www.vedur.is/hafis/hafistilkynningar/2008
http://www.hi.is/~ij/hafis/index.php
http://www.dmi.dk/dmi/index/gronland/iskort/iskort_-_ostgronland.htm

Myndin er tekin af vef Veðurstofunnar og sýnir ísröndina 18.júní
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.