Tímaflakk getur sennilega ekki verið til í línulegum tíma af þeirri einföldu ástæðu að ef einhverjum tækist að finna það upp og fara aftur í tímann, þá myndi það eflaust rugla svo mikið upp mannkynssögunni að maðurinn sem uppgötvaði það myndi sennilega aldrei fæðast. En þar sem maðurinn sem fæddist ekki, gat ekki fundið upp tímaflakk gat hann ekki farið aftur í tímann til að eyðileggja mannkynssöguna og koma því í kring að hann fæddist ekki. Þar af leiðandi hlýtur hann samt að fæðast og finna tímaflakkið aftur upp en ef hann gerði það myndi hann aftur ekki fæðast. Ef þetta gerðist myndi myndast hringrás í tímanum sem myndi halda áfram þar til að eitthvað gerðist sem myndi leiða að því að tímaflakk yrði ekki fundið upp. Þannig að frá sjónarhorni allra þeirra sem ekki fundu upp tímaflakk getur tímaflakk aldrei orðið til, og hinir munu sennilega ekki taka eftir því að þeim tókst að finna upp tímaflakk.

En svo er önnur hlið á málinu sem hefur að gera með margvíddir og tímalínur. Segjum sem svo að tíminn eins og við þekkjum hann gangi eftir einhverri fastri línu, þ.e. ef við ætluðum að ferðast um tímann yrðum við fylgja þessari línu eftir. En segjum svo að út frá þessari línu komi ótal aðrar línur sem eru í raun aðrar fortíðir og framtíðir sem höfðu verið mögulegar en gerðust ekki t.d. Nasistar sigruðu í seinni heimstyrjöld, Kúbudeilan hafi brotist út í stríði, eða jafnvel svo smávægilegt að þú ákvaðst að fara til hægri í stað fyrir vinstri.
Þessar línur eru í raun tímalínur í öðrum víddum og myndu fylgja sömu reglum og okkar tímalína, þ.e. við breytingar myndu nýjar tímalínur og víddir myndast. Þetta myndi hafa það í för með sér að tímaflakk í vissum skilningi væri mögulegt án þess að hafa áhrif á þá vídd sem maður kom frá. Því að á þeim tímapunkti þar sem maður myndi birtast í fortíðindi myndi samstundis myndast ótal margar nýjar víddir, vegna breytinga á upphaflegu tímalínunni, sem myndu sjá til þess að tímaflakkið hefði engin áhrif á upphaflega tímann sem maður kom frá.

En þá er málið bara það að komast aftur á upprunalegu tímalínuna sem maður kom frá. En það væri vandkvæðum bundið því að um leið og maður birtist í fortíðinni myndi ný tímalína fara af stað og kasta manni af upprunalegu tímalínunni. En ef það er mögulegt að fara aftur í tímann án þess að hafa áhrif á hann eru þessi vandræði úr sögunni. En þá er eftir að komast aftur heim án þess að byrja nýja tímalínu í núinu. Þar sem minnsta breyting býr til nýjar tímalínur gæti allt breyst með einu atómi. Þannig að tímaflakkarar yrðu að hanna kerfi sem tæki eingöngu þau atóm tilbaka sem komu úr þeirra eigin tíma. Tímaflakkarinn yrði þá að vera í lokuðu kerfi t.d. geimbúning því annars myndi allt súrefni skyndilega hverfa úr líkamanum við komuna aftur í núið og er það örugglega vond tilfinning. Verði þetta allt mögulegt einhverntíman gerir það tímaflakk mögulegt.