Þjóðfélagsfræðiritgerð sem ég gerði fyrir skólann.



1. Hvað felst í hugtökunum persónuleiki, sjálfsmynd og hvað eru sérkenni?


Persónuleiki okkar er einkenni okkar. Það eru ýmsir hlutir sem móta okkur, svo sem félagslegur bakgrunnur, uppeldi okkar og hverja við umgöngust hvern dag, og persónuleiki er allt sem mótar okkur raðað í heild. Semsagt, persónuleiki er heildarmyndin yfir okkur sjálf.

Sjálfsmynd okkar eru þær hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf. Sjálfsmyndin getur bæði verið meðvituð, maður er til dæmis ákveðinn og veit af því, og ómeðvituð, maður er kannski hrokafullur en veit ekki af því.
Sjálfsmyndin er það sem við sjáum þegar við horfum í spegil, bæði það sem er (við sjáum t.d. háralit okkar eins og hann er) og það sem við höldum að sé, en er kannski ekki (við teljum okkur feit, ljót og þess háttar)
Maður getur líka litið dýpra í spegillinn og horft á sjálfan sig frá annara sjónarhorni, reynt að sjá persónuleika sinn.

Sérkenni, samkvæmt skilgreiningu bókarinnar eru sérkenni það að vera maður sjálfur, og þetta hugtak er notað til að útskýra hver við erum sem persónur. Sérkenni eru, eins og orðið gefur til kynna, það sem er sérstakt við okkur, hlutur sem ég hef en ekki endilega þú.

- Persónuleg sérkenni
gera okkur einstök, ólík hvert öðru. Sérkenni eru svo dæmi má nefna, Skapgerð, útlit, málfar og þess háttar.
- Hópsérkenni eru sérkenni sem gera ákveðna einstaklinga líka hverjir öðrum en aðra frábrugðna. Hópsérkenni einkenna til dæmis vinahóp (sérstaklega unglinga) manneskjur innan hópsins klæða sig á svipaðan hátt og hlusta á svipaða tónlist. Hópsérkenni veldur því að fólk finnur til samstöðu innan hópsins og halda um leið utanaðkomandi aðilum frá.
Til dæmis finna aðdáendur sömu hljómsveitar fyrir svipaðri sorg ef meðlimur hljómsveitarinnar dæi, saman hvaðan þeir eru og hvernig þeir líta út.

2. Hvers vegna er sagt að engir tveir einstaklingar búi við sama bakgrunn og aðstæður? Hvaða áhrif hafa erfðir vs. Umhverfi? Rökstyddu og gefðu dæmi.

Það er sagt vegna þess að engir tveir einstaklingar búa í nákvæmlega sama umhverfi, við búum ef til vill öll á Íslandi, en við skynjum umhverfi okkar á mismunandi hátt, við upplifum misjafna hluti og á misjafnan hátt.
Jafnvel þó ég og systkini mín höfum búið í sama húsi, sótt sama skóla og upplifað margt saman, er ég yngst, og hef þar af leiðandi ekki reynslu af að eiga yngra systkini. Systir mín, sem er elst, hefur ekki reynslu af að eiga eldra systkini, því höfum við mismunandi bakgrunn að þessu leiti.
Mismunandi bakgrunnur fer líka eftir löndum, og jafnvel landshlutum. Unglingar á Íslandi haga sér öðruvísi en til dæmis unglingar í Noregi, af því að við búum hér, og lærum “leikreglur” okkar samfélags en ekki samfélagsins í Noregi, því kæmum við þangað og fyndumst við ef til vill svolítið utanveltu þar sem við spilum eftir ólíkum leikreglum en fólk í Noregi.
Mér finnst líka vera mismunandi bakgrunnur á milli landshluta, eða jafnvel bæja. Þegar stelpurnar úr Reykjavík komu nýjar í bekkinn okkar í haust sá ég strax mun, þær tala ekki endilega öðruvísi en við en það er eitthvað. Allavega ég skynja að þær eru af höfuðborgarsvæðinu. Þar á kannski fataval hlut að máli, en án efa fleira en það.

Erfðir og umhverfi finnst mér vega nokkurn veginn jafn þungt.
Samspil milli erfða og umhverfis gerir okkur að því sem við erum.
Erfðir ná yfir gen sem hafa ekki bein áhrif á hegðun okkar en þau skapa grunninn að því sem gerist síðar. Þau stýra til dæmis þróun vöðvafruma og þannig hafa þau úrslitaáhrif sem gera okkur að því sem við erum.
Mörg litningapör koma við sögu þegar við þroskumst og myndumst. Hæð okkar ræðst til dæmis af flóknu samspili þar sem mörg gen koma við sögu, en þó hefur umhverfið og uppeldisskilyrði mikið um það að segja. Næringarskortur hefur áhrif á vöxt fólks og þar af leiðandi hæð þess.
Allir þættirnir sem móta okkur og erfast ekki teljast til umhverfisins, og það hefur líka áhrif á það hver við erum.
Umhverfisþættir eru til dæmis : Matur, hiti, samskipti við aðra., vonir, vonbrigði, skólinn og frítími.
Umhverfisþættir hafa áhrif á manneskju og móta hana sem einstakling.
Ég er sammála því að áhugasvið, viðhorf, skilningur og venjur séu þættir sem við lærum í gegnum reynslu okkar. Þeir tengjast áhrifum frá umhverfinu og skýra af hverju fólk er ólíkt. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að aðeins umhverfi móti manneskju, því erfðir spila líka inn í áhugamál okkar.
Ef ég gæti hlaupið mjög hratt og hefði gott þol hefði ég sjálfsagt áhuga á einhverri íþrótt sem krefst snerpu og þols, svo sem fótbolti eða körfubolti.
Ef ég væri hinsvegar rosalega góð í líffræði og stærðfræði gæti ég haft áhuga á ýmsum fróðleik tengdan því efni. Lesið Lifandi Vísindi og þess háttar.
Ég held að erfðir og umhverfi spili saman að því leytinu að erfðir stjórna grunnmynd skaps okkar, semsagt, sumir fæðast frekir en aðrir feimnir, en með hjálp umhverfisins (og því fólki sem við umgöngumst) lærum við að breyta hegðuninni, til dæmis, barn sem var feimið í æsku lærir smátt og smátt að láta af feimninni ef það umgengst traust fólk. Þó er það feimið þegar það tekst á við aðstæður sem það þekkir ekki.
Hegðun okkar er lærð, okkur er kennt að vera kurteis við aðra og að tala ekki við ókunnuga og þannig lagað. Á sumum heimilum eru einkabörn og þau læra ekki að hafa jafn mikið umburðarlyndi gagnvart öðrum börnum eins og þau sem alast upp með systkinahópi. Þau eru þá kannski frekari en börn sem eiga systkini.

3. Hvaða merkingu hafa hugtökin staða og hlutverk? Hvað er hlutverkaspenna? Hvað eru félagslegir rammar? Rökstyddu og gefðu dæmi.


Hugtakið “félagslegt hlutverk” er fengið að láni úr leikhúsmáli, það þýðir einfaldlega að við höfum ýmis hlutverk og stöður í lífinu sem við leikum eftir því hvar við erum, við hvern við erum að tala og hvað er að gerast. Allir hafa stöður og hlutverk, þessi hugtök eru nátengd. Við sumar stöður líkar okkur betur en aðrar.

Hugtakið staða felst í því hvar ég stend í samfélaginu. Hún segir mér til um hver ég er og hvaða hópum ég tilheyri. Hún segir mér hvernig tengsl mín við aðra eru/ættu að vera. Í augnablikinu er staða mín í samfélaginu til dæmis : dóttir, unglingur, nemandi í grunnskóla, og ber mér að haga mér eftir því.

Hugtakið hlutverk er þá hvernig ég vinn úr stöðu minni, þar sem öllum stöðum fylgja hlutverk, við verðum að leika stöðu okkar. Semsagt, ef staða mín er barn foreldra minna á heimilinu, þá á ég að haga mér eftir því, koma vel fram við foreldra mína og systkin og hlýða reglum sem foreldrar mínir setja mér. Staða mín sem unglings í samfélaginu er sú sama og allra hinna unglinganna, við ráðum ekki rosalega miklu (en erum stærsti markhópurinn fyrir því) við eigum að halda okkur frá öllu vondu sem getur leitt mann á glapstigu, svosem að reykja og drekka og jafnvel eitthvað meira. Sem nemandi í grunnskóla ber mér að haga mér vel, fylgjast vel með í tímum, hlusta á kennarann og læra heima (er að uppfylla það!).
Þó er hægt að leika hlutverkin á ólíka vegu, það sést vel til dæmis á kennurunum okkar, þeir eru allir mjög ólíkir.
Persónuleiki og okkar eigið val stýrir því hvernig við leikum hlutverk okkar. Það er engin ein rétt leið (semsagt er það ekki skráð í lög) hvernig við eigum að leika þessa eða hina stöðuna. Við fikrum okkur sjálf fram úr því. Þannig að þótt samfélagið sé búið að búa til og skilgreina stöðu höfum við samt töluvert svigrúm til að leika hana.
Svo eru til svolítið sem kallast “óskráð lög”, semsagt, það stendur ekki í neinum reglugerðum að þó þú sért barn foreldra eigir þú ekki að skamma foreldrana, en þú veist (vegna óskráðu laganna) að svoleiðis gerir þú bara ekki. Óskráð lög eru einskonar reglur sem allir vita af og fylgja, en eru ekki skráðar neinsstaðar. Ef við förum út fyrir þau mörk sem teljast eðlileg fyrir stöðu sem við erum að leika (ofleikum hana þá) eru aðrir fljótir að senda okkur skilaboð með ýmsum hætti um að svona gerir maður ekki.

Hlutverkaspenna skapast þegar tvö ólík hlutverk skarast. Þú þarft að leika bæði hlutverkin í einu og veist ekki hvernig skal bregðast við.
Dæmi um það er þegar þú ferð niður í bæ að hitta vini þína. Vinahópurinn (ég miða við 4 stelpur í þessu dæmi) hittir nokkra sæta, eldri stráka. Þú ert orðin rosalega töff að þínu mati og finnst ekkert geta stoppað þig – þangað til mamma þín sést við enda götunnar. Auðvitað langar þig ekkert að æpa “HÆ MAMMA!” því þá myndu strákarnir telja þig smákrakka sem ekkert er varið í, en samt langar þig ekki að snúa við og hunsa hana því þú sérð að hún hefur tekið eftir þér.
Hlutverkaspenna er því eitthvað sem er mjög algengt (sérstaklega á meðal unglinga á mestu gelgjunni) tel ég, og við lendum oft í ýmsum aðstæðum sem okkur þykja óþægilegar.

Einstaklingar sem hafa samskipti á milli sín mynda hóp. Sumir hópar endast lengi en aðrir stutt. Stöðugt eru nýjir hópar að myndast og þeir gömlu að breytast. Samskipti innan hópa fara eftir því hvaða væntingar meðlimir hópsins gera hverjir til annars. Einstaklingar hafa áhrif hverjir á aðra vegna þess að stöður og hlutverk eru samfléttuð.

Þyrping telst til dæmis fólk í verslun, eða í strætó.

Hópar eru vanalega flokkaðir í tvennt : frumhópa og fjarhópa, eftir því hvernig samskipti innan hópanna fara fram.

Frumhópar eru yfirleitt litlir og samskiptin í þeim persónuleg, óformleg, náin og vara lengi. Fjölskyldan mín og vinir eru dæmi um frumhóp hjá mér. Frumhópar eru mikilvægir í öllum samfélögum.
Fjarhópar eru yfirleitt myndaðir til að ná ákveðnu markimiði og eru þá samskiptin innan þeirra mótuð af því. Fólk á fremur stutt og ópersónuleg samskipti sín á milli og veit lítil sem engin deili hvert á öðru. Fólk á stórum vinnustöðum eða krakkar í öðrum árgöngum í mínum skóla eru dæmi um fjarhópa.

Félagslegir rammar : Við tilheyrum hvert fyrir sig mörgum misstórum hópum, sumir raðast hvor utan á annan en aðrir skarast. Minnsti hópur í lífi einstaklings er fjölskylda hans. Svo kemur bekkurinn, þá skólinn, sveitarfélagið og landshluti á eftir því. Ysti hópurinn er alheimssamfélagið, allt mannkynið. Hópar sem við tilheyrum eru mikilvægir því þeir einkenna okkur og hafa áhrif á það hver við erum og hvernig við högum okkur. Þeir hópar sem eru næstir okkur hafa mest áhrif á okkur en síðan minnka áhrifin eftir því sem fjær dregur.

Ef ég ætti að raða hópum utan um mig myndi það vera svona :
Sveindís(ég), Fjölskyldan,10 ISÁ, Holtaskóli, Keflavík, Suðurnes, Ísland, Evrópa,Heimurinn.

Þetta er reyndar bara grunnskilgreining, og það er ekki hægt að koma öllu inn, til dæmis þeirri staðreynd að ég sæki tónleika næstum hverja helgi. Þessi skilgreining nær því ekki yfir mjög nákvæma hluti, en það gerir skilgreiningin sem sýnir hópa skarast.

Ef ég tilheyri hópi sem skarast gæti það verið svona :
Ég og Heba besta vinkona mín, erum í sama skóla (þá erum við í einum hóp) en við erum ekki í sama bekk (tveir hópar) við eigum sameiginlega vini (einn hópur) en búum í sitthvoru lagi (tveir hópar) og áfram.

Sumir hópar sem við tilheyrum liggja þá hverjir utan á öðrum, ytri hóparnir umlykja innri hópana (hópar sem raðast hverjir utan á aðra). Til dæmis “fjölskyldan” telur alla meðlimi fjölskyldu minnar.
Aðrir hópar sem við tilheyrum skarast og eru hlutmengi hverjir í öðrum (hópar sem skarast) til dæims, ég bý á Íslandi en á margt sameiginlegt með krökkum erlendis (fatasmekkur og tónlistarsmekkur).

4. Kossinn – ásköpuð aðferð eða menningarlegt fyrirbæri? Útskýrðu merkingu kossins í þínu samfélagi. Rökstyddu og gefðu dæmi.

Kossar, sem eru mjög vinsælir hjá mannkyninu, gegna ekki neinu líffræðilegu hlutverki (þeir hjálpa okkur semsagt ekki að fjölga okkur og bera ekki í sér ótrúlegan lækningarmátt) og, þótt ótrúlegt megi virðast, kyssist fólk ekki á mörgum menningarsvæðum.

En, þrátt fyrir það eru í vörunum fjölmargir virkilega næmir taugaendar. Kossar hafa vegna þessa kynferðisleg áhrif, þeir örva manneskjur sem kyssast kynferðislega.

Kossar gegna félagslegu hlutverki hjá mannkyninu, og mikilvægu mjög. Við kyssum fólk til að sýna væntumþykju, og um leið styrkir það tengsl á milli okkar. Ég kyssi móður mína á kinnina til að sýna henni að mér þykir mjög vænt um hana. Móðir mín og faðir kyssast til að sýna ást sín á milli og þar fram eftir götunum.

Simpansar virðast líka kyssast, þegar þeir leita eftir vinsemd setja þeir totu á munninn og þrýsta vörum sínum að því sem þeir eru að kyssa (til dæmis handarbak þitt)
Vegna þessa telur atferlisfræðingurinn Desmond Morris eins konar eftirkeim af atferli manna og apa á ungviðisstigi þegar tota er sett á munninn til að sjúga móðurmjólkina.

Mér þykir þetta frekar óheillandi kenning, og er ekki á sama máli, þó það gæti vel staðist. Ég tel kossinn einfaldlega vera þetta menningarlega fyrirbrigði, fólki finnst gott að kyssast og í áranna rás hefur hann verið ávísun á væntumþykju á milli þeirra sem kyssast, svo kossinn er fallegt fyrirbrigði sem við höfum skapað okkur.

5. Hvað er jafnrétti? Rökstyddu og gefðu dæmi.

Kynhlutverk eru allar þær væntingar sem eru gerðar til einstaklinga út frá kynferði þeirra. Strákar og stelpur haga sér mismunandi.
Ef ég bæði þig að lýsa fyrir mér strák gæti komið upp í huga þinn eitthvað í líkingu við : Háværir, skapstórir, spili fótbolta, óhreinki fötin sín og þar fram eftir götunum.
Ef ég bæði þig að lýsa fyrir mér stelpu gæti komið upp í huga þinn : Stilltar, feimnar, flissandi, leika sér í dúkkó og þess háttar.

Að sjálfsögðu á að ríkja jafnrétti á milli kynjanna, en jafnrétti þýðir, eins og orðið gefur til kynna, jafn réttur á milli kynjanna. Bæði kyn hafa sama rétt, sömu tækifæri og þannig lagað.

En því miður er það ekki algjörlega þannig. Fyrr á öldum máttu stúlkur ekki fara í skóla, heldur voru þær látnar sitja heima og taka til, þvo þvott og vera fallegar. Þegar þær voru svo giftar (svona 15 ára) hvort sem þær vildu eður ei, fluttust þær inn með eiginmanni sínum og héldu áfram að taka til þar og að unga út börnum.
Drengir fengu að fara í skóla, og þurftu oft ekki að vinna á heimilinu (ef þeir þurftu það byrjuðu þeir jafnan um 3 árum á eftir stelpunum) og var hugsunin á bakvið það að láta þá “spara sig” því strákarnir þurftu að sjá fyrir foreldrum sínum í ellinni.
Nú hefur þetta skánað heilmikið, stelpur og strákar sækja skóla saman, hafa sömu réttindi til náms og mega sækja um sömu vinnur.
En, samt er ekki algjört jafnrétti í skólanum (og verður líklegast aldrei, svona eru hlutirnir bara) samkvæmt rannsóknum sérfræðinga rétta stelpur upp hönd helmingi oftar en strákar, og rannsóknir sýna að strákar fá oftar aðstoð en stelpur við að finna rétt svar ef þeir geta ekki svarað spurningunni strax.
Og á vinnustöðum. Setjum sem svo að kona og maður séu að vinna á sama stað, þau eru jafngömul, fóru í sama skóla og hafa sömu menntun og starfsreynslu, og eru bæði jafn áhugasöm um starf sitt. En af einhverjum óútskýrðum ástæðum fær maðurinn 15% hærri laun en konan.
Ekki er vitað hvers vegna, og þess vegna kallast þetta óútskýrður launamunur. Þetta þykir mér gjörsamlega út í hött og ætti að vinna að því að fá þessu breytt. Þessi launamismunur á milli kvenna og karla er ekki dæmi um jafnrétti, þó jafnrétti sé að mestu leyti í okkar samfélagi.



Ef einhver áhugi er fyrir hendi sendi ég inn restina.