Kosningaaldur - ber að hækka hann? Ég gerði þessa ritgerð í fél 103, man hreint ekki hvað ég fékk fyrir hana. ATH þetta er ekki leiðrétt útgáfa.

Inngangur
Kosningar hafa lengi verið umdeilt mál svo vægt sé tekið til orða. Ekki eru meira en 100 ár síðan á Íslandi máttu einungis efnamiklir karlar kjósa en smátt og smátt hefur þetta breyst. Þetta gerðist tiltölulega friðsamlega hér á landi en misvel úti í heimi. Nú er það svo að í flestum löndum heims hafa allir, 18 ára og eldri, konur sem karlar, leyfi til að kjósa sér þing og eða þjóðarleiðtoga.
Í þessari ritgerð mun ég taka afstöðu til eftirfarandi fullyrðingar; „Hækka á kosningaaldur upp í 20 ár umsvifalaust. Ungt fólk á Íslandi er ábyrgðarlaust upp til hópa og hefur engar forsendur til að velja einn flokk fram yfir annan“. Ég mun greina frá minni afstöðu, koma með rök sem og mótrök og velta kosningaaldri almennt fyrir mér.

Kosningaaldur í heiminum
Þegar farið er að rannsaka hver kosningaaldur sé annarsstaðar í heiminum sést að 18 ára aldurinn er afar algengur, í 83,6% tilvika er hann reyndin. Þetta á jafnt við um lönd í Evrópu, Norður- og Suður Ameríku, Asíu sem og Afríku. Ef reiknað er prósentuhlutfall þeirra landa þar sem kosningaaldur er lægri en 18 fæst talan 5,8% en hærri en 18 eru 8,4% landa heims. Fjögur lönd á Balkanskaganum; Slóvenía, Serbía-Svartfjallaland, Króatía og Bosnía-Hersegóvína hafa þá reglu að unglingar megi kjósa 16 ára hafi þeir vinnu en annars 18 ára. Einungis sex lönd hafa kosningaaldurinn 20 ár, það eru: Kamerún, Japan, Suður-Kórea, Tævan, Túnis og Nárú.

Rök með og á móti
Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir því að hækka skuli kosningaaldur, halda honum eins og hann er eða jafnvel lækka hann. Þessar ástæður eru misgóðar og passa misvel við íslenskt samfélag. Mun ég í þessum kafla draga fram nokkur rök, bæði með og á móti eins og þau koma fram í hinum ýmsu heimildum.
Með hækkun:
• Ungt fólk hefur ekki nægilegan vitsmunalegan þroska til að taka svona stóra ákvörðun.
• Ungt fólk er of áhrifagjarnt, það fellur frekar fyrir óraunhæfum kosningaloforðum eða öfgafullum hægri- eða vinstriflokkum, t.d. nýnasistaflokkum.
• Í hverjum kosningum er ungt fólk sem nýkomið er með kosningarétt milli 7-12%, þessi atkvæði hafa gífurleg áhrif en unglingarnir átta sig ekki á því.
• Ungt fólk mun kjósa frekar út á útlit og frægð fremur en málefnin.
Á móti hækkun:
• Nú þegar er ungt fólk fullorðið í augum laganna við 18 ára aldurinn, það væri mannréttindabrot að banna þeim að kjósa.
• Ef engar takmarkanir eru á hversu mikil greind þeirra sem eru yfir tvítugt, af hverju þá að hafa þær fyrir yngra fólk. Í hverjum kosningum kýs fullt af fólki sem hefur ekki klárað grunnskóla, er haldið geðsjúkdómum eða er á lyfjum, á að banna því að kjósa?
• Ef einhver hefur áhrif á hvernig ungt fólk kýs þá eru það foreldrar og þeirra stjórnmálaskoðanir, það hefur sýnt sig og sannað að þær skoðanir ganga í arf.
• Þeir unglingar sem ekki hafa áhuga á kosningum munu sitja heima á kjördag eins og hinir eldri gera. Þeir munu ekki kjósa Mikka Mús sem forseta.
• Frá 16 ára aldri borgarðu skatta af launum þínum, frá því þú kaupir fyrsta brjóstsykurinn þinn úti í búð borgarðu virðisaukaskatt. Nú þegar eru tvö ár frá því þú byrjar að borga skatt þar til þú færð að kjósa um hver ráðstafar þeim peningum, það má alls ekki hafa þau fjögur.

Hvað vilja íslensk börn og unglingar?
Á heimasíðu Umboðsmanns Barna eru birtar niðurstöður úr skoðanakönnun sem var haldin þar frá 16. febrúar til 8. mars 2004. Spurt var; „Hvenær vilt þú byrja að kjósa til Alþingis?“, þrír möguleikar voru gefnir, það voru 16 ára, 18 ára og 20 ára. Engin afgerandi niðurstaða kom fram í þessari könnun, af 389 svarendum vildi naumur meirihluti, 143, byrja að kjósa 16 ára, á meðan 139 vildu halda aldrinum í 18 árum. Það sem kom á óvart var að tæp 30% svarenda, eða 107, vildu byrja að kjósa 20 ára. Þar sem þetta er könnun gerð á netinu er ekki hægt að segja til um aldurinn á svarendum, kynjahlutfall eða neitt slíkt og má því ekki taka hana of hátíðlega. Ef niðurstöðurnar eru settar upp í súluriti lítur það svona út.


Niðurstaða
Eftir að hafa farið yfir öll þau rök sem komið hafa fram hér hef ég komist að þeirri niðurstöðu að engu skuli breyta varðandi kosningaaldur. Ég tel að þótt margir unglingar séu tilbúnir til að taka þessa ábyrgð við 16 ára aldurinn sé of mikill hluti sem ekki er það. Ég tel miklar líkur á því að ungir kjósendur muni eiga meiri hættu á því að stjórnmálaskoðanir þeirra verði litaðar af hinum ýmsu áhrifavöldum. Einnig tel ég að stjórnmálaskoðanir þeirra sem og annar þroski hafi ekki verið tekinn nægilega út við 16 ára aldurinn.
Á hinn bóginn tel ég engar forsendur fyrir því að hækka aldurinn enn meira, þar sem við 18 ára aldurinn ertu fullorðinn í augum laganna. Það væri ekki nema sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður upp í 20 ár sem mætti fara að ræða um að hækka kosningaaldur. Ég er einnig sammála þeim rökum að fyrst fólk eldra en 20 ára sé ekki dæmt eftir greind og þroska skuli ekki gera það við aldurhópinn 18-20 ára.
Ef ég þyrfti að velja hvort ætti að hækka eða lækka aldurinn myndi ég frekar vilja að aldurinn væri lækkaður. Ég tel að hækkun á aldrinum væri brot á mannréttindum. Ef aldurinn yrði lækkaður myndu áhugalausir sitja heima en einhver aukning yrði á atkvæðum með öfgaflokkum, en framboð þeirra hefur enn ekki orðið vandamál hér á Íslandi. Ég tel að sterkustu rök fyrir því að lækka aldurinn séu þau að frá 16 ára aldri borgar þú skatta en í tvö ár hefur þú engin völd yfir því hvað peningarnir þínir eru notaðir í.

Lokaorð
Augljóst er á þeim fáu heimildum sem fundust að umræðan um kosningaaldur í dag snýst aðallega um að hann beri að lækka, mun færri heimildir fundust þar sem á skynsamlegan hátt var talað um af hverju ætti að hækka aldurinn. Ekki veit ég hvort þessi staðreynd hafi litað skoðanir mínar en eftir að hafa farið í gegnum rök beggja hliða hef ég tekið afstöðu, ég er ósammála staðhæfingunni, ég tel 18 ára og eldri reiðubúna til þess að mynda sér sína eigin skoðun og kjósa eftir sannfæringu sinni.

Heimildaskrá

Þórhildur Líndal. 08.03.2004. Skoðanakönnun um kosningaaldur. http://www.barn.is/frettir.asp?id=101&pid=10&frettid=173. Skoðað 22.07.2004.
NYRA. 03.06.2004. Top Ten Reasons to lower the voting age. http://www.youthrights.org/vote10.shtml. Skoðað 22.07.2004.
David Howes. 23.10.2003. Electoral matters. http://www.medway.gov.uk/f20031023r-3.pdf?file=18242. Skoðað 22.07.2004.
CIA. 01.05.2004. The world factbook. http://www.cia.gov/cia/publications/factbook/index.html. Skoðað 22.07.2004
David Bolt. 19.03.2004. Delete doofus from the rolls: Raise the voter age to at least 21. http://www.freerepublic.com/forum/a36f24b895d2a.htm. Skoðað 22.07.2004
Just ask yourself: WWCD!