Mér hefur fundist að fólk viti upp til hópa sáralítið um það hvað sálfræðingar fást við. Þegar minnst er á sálfræðinga sjá margir eflaust fyrir sér gráhærðan miðaldra mann með gleraugu sofandi í stólnum sínum á meðan taugaveiklaður sjúklingur liggur á legubekk og talar um sárar æskuminningar. Þess vegna langar mig til þess að gera smá lýsingu á helstu sviðum sálfræðinnar, eftir bestu getu og vitund.

-Atferlisgreining-

Eins og nafnið gefur til kynna leitast atferlisgreining við það að rannsaka atferli, hvaða þættir í umhverfinu hafi áhrif á það og hvernig atferli hafi aftur áhrif á umhverfið.

Flestir fylgismenn atferlisstefnunnar viðurkenna að til séu ákveðin hugarferli sem komi á milli áreitis sem verkar á lífveru og atferlis hennar en skilgreina þau annað hvort einnig sem atferli (sem ekki sést) eða sem fylgifiska atferlis sem ekki geti verið orsakir atferlis.

Líta má á nám sem breytingu á atferli manna og dýra og því snúast margar rannsóknir í atferlisfræði um það. Nýverið hafa atferlisfræðingar snúið sér að ýmsum flóknum tegundum náms, svo sem tungumálanáms

-Hugfræði-

Hugfræði rannsakar allt sem viðkemur hugarstarfi lífvera og jafnvel véla eins og tölva. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna minni, athygli, hugsun, skilning og tungumál. Það mætti líka segja að gervigreind tilheyri viðfangsefni hugfræði. Hugfræði leggur áherslu á að rannsaka “hugbúnað” heilans, en síður “vélbúnað”.

-Klínísk sálfræði-

Klínísk sálfræði er þessi dæmigerða sálfræði í augum flestra. Klínískir sálfræðingar fást við geðræn vandamál fólks. Þó er mismunandi hvernig þeir kjósa að gera það og því eru ýmsar stefnur í gangi innan klínískrar sálfræði. Klínískir sálfræðingar læra heilmikið um geðlyf en mega þó ekki skrifa upp á lyfseðil, það fellur í skaut geðlækna.

-Lífeðlisleg sálfræði-

Fræðimenn innan þessa svið rannsaka allt það sem viðkemur miðtaugakerfinu og þá aðallega heilann. Þeir rannsaka verkan lyfja á það, samskipti taugakerfisins við aðra hluta líkamans, svefn og vöku, nám, minni, skynjun, tilfinningar og atferlisvaka eins og mat, drykk og fleira. Þetta er að sjálfsögðu flestallt viðfangsefni annarra sviða einnig, en lífeðlisfræði gengur e.t.v. mikið út á það að skoða “vélbúnað” heilans og virkni hans.

-Skynjunarsálfræði-

Þetta svið sálfræði fjallar að sjálfsögðu um alla þætti skynjunar, en ef til vill einkum um sjón-, heyrnar- og talskynjun. Hvernig greinum við skynáreiti í umhverfinu, hvar er unnið úr þeim og hvernig?

-Þroskasálfræði-

Þroskasálfræðingar skoða þróun mannsins frá fæðingu til elliára en einnig þróun mannsins, og heilans, í gegnum árþúsundin. Dæmi um viðfangsefni þroskasálfræðinga er til dæmis hvernig persónuleiki manna þroskast, hvernig máltaka barna fer fram, hvað hefur áhrif á kynvitund og kynjahlutverk og svo framvegis.

Calliope