1. Inngangur

Nafnið Katla á sér uppruna í gömlum munnmælum sem herma að fjölkunnug kerling valdi þar hamförum. Svo segir Jónas Hallgrímsson frá:

„Það bar til eitt sinn í Þykkvabæ er þar var munkasetur að ábóti hélt matselju er Katla hét. Hún var forn í skapi; hún átti þá brók að hvur sem í hana fór þreyttist eigi á hlaupum. Sauðamaður ábóta hét Barði; hann sætti þungum ákúrum af Kötlu þegar vantaði af fénu. Eitt haust fór Katla í veislu; þá fann sauðamaður ekki féð, tekur hann þá brók Kötlu og fer í og hleypur sem af tekur og finnur allt fáð, Þegar Katla kom heim verður hún vör við að drengurinn hefir brúkað brók hennar, tekur hann með leynd og kæfir í sýrukeri sem þar stóð í karldyrum að fornum sið. Þegar leið á vetur og ganga fór á sýruna, heyrðu menn Kötlu segja:“Senn bryddir á Barða.” Þá gat hún ekki lengur leynst og tekur brók sína og hleypur út úr klaustrinu norðvestur til jökulsins og steypis sér þar í gjána að menn héldu, því aldrei sást hún síðan. Brá þá svo við að hlaup kom úr jöklinum og stefndi á klaustrið og Álftaverið, var það eignað fjölkynngi Kötlu og er gjáin síðan nefnd Kötlugjá.“ [5]

Íslendingar eiga mörg eldfjöll og er Katla hvað virkast þeirra. Lýsir það sér best í því að Katla sjálf hefur gosið 17 sinnum frá landnámsöld og hefur í hvert sinn hlaup fylgt fast á hæla gossins og hvorttveggja valdið óbætanlegum skaða. Oft er sagt að öllu illu fylgi eitthvað gott og á það einnig við um gos Kötlu því í hlaupum sínum hefur Katla bætt við strandlengjuna hinum gríðarmiklu söndum sem nefnast Mýrdalssandur og Sólheimasandur. Í þessari ritgerð mun ég reyna að segja frá Kötlu í heild sinni, gosum og hlaupum á sögulegum tíma og þeim atburðum síðasta sumars sem gætu verið aðdragandi að gosi. Einnig mun ég leitast við að skýra ástæður fyrir þessum hamförum og þeim skaða sem þeim fylgir.

2. Katla og nágrenni

Katla er megineldstöð með öskju, undir jökli. Megineldstöðvar gjósa oft og eru virkar í mjög langan tíma, eða þar til þær rekur út af virka eldgosabeltinu. Undir öllum megineldstöðvum er kvikuþró sem er nokkurskonar risastór kvikugeymir á nokkurra km dýpi í jarðskorpunni sem fyllist af kviku milli gosa. Í þróna streymir basaltkvika úr lághraðalaginu. Á milli goshrina er kvikan í þrónni og getur á löngum tíma þróast þannig að úr basaltkvikunni myndist einnig andesít og líparítkvika. Askjan hefur líklegast myndast þegar þak kvikuþróarinnar hrundi í kjölfar stórs sprengigoss. Til eru upplýsingar byggðar á öskulagarannsóknum um þetta ofurgos. Talið er að eðjustraumarnir hafi náð allt til Azoreyja og aska hafi dreifst um allt norðanvert Atlantshaf. Hún er um 80 ferkílómetrar að stærð, um 10 kílómetrar að breidd, og 500-600 metra djúp, umkringd fjöllum, allt að 1300 metra háum. Í gegnum skörðin milli fjallanna falla svo skriðjöklar eins og Kötlujökull og Sólheimajökull. Katla er talin vera miðja í um 80 kílómetra löngu hóflaga eldstöðvakerfi sem nær frá Eldgjá að Kötlu og eru Vestmannaeyjar jafnvel taldar tengjast kerfinu.
Eyjafjallajökull er talinn hluti af þessu sama eldstöðvakerfi og hann hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma og hófst síðasta gos árið 1821 og skömmu síðar eða árið 1823 varð eldgos í Kötlu. Það sama átti sér stað á 17. öld. Þannig að virkni var í báðum eldstöðvunum á svipuðum tíma. Talsvert gjóskufall var í næsta nágrenni Eyjafjallajökuls árið 1821 en auk gjóskunnar kom hlaup undan Gígjökli í Markarfljót.

3. Kötlugos

Kötlugos eru öflug þeytigos og þeim getur fylgt mikið gjóskufall, jökulhlaup og eldingar. Þeytigos verða þegar mikið vatn kemst að goskvikunni í gosrásinni, við gos í sjó eða undir jökli eins og í Kötlu. Tætist þá kvikan í sundur þegar vatnið sýður. Helstu gosefni í þeytigosum eru aska, vikur, hraunkúlur og gjall. Mest af gosefnunum hrúgast í kringum gosopið en þegar gosið brýst í gegnum íshelluna tætist bæði aska og önnur gosefni upp með gosmekkinum sem samanstendur af vatnsgufu og gosgufum. Gosmökkur getur orðið 20 km hár en í flestum tilvikum dregur kraftinn fljótt úr gosinu og er því oft um 10 km hár í stórgosum. Það er hins vegar háð vindátt hvert og hversu langt gjóskan berst. Gjóskufalls má vænta allt til fjærstu hluta landsins ef gos verður ákaft og sterkir vindar ríkja en þyngst kemur gjóskufallið niður á nágrannasvæðum Kötlu sjálfrar.
Á sögulegum tíma er vitað um ein 17 gos í jöklinum og vísbendingar um fáein gos á hinum íslausa hluta kerfisins. [1] Fyrsta gosið sem vitað er um er talið hafa verið árið 934 og það síðasta var árið 1918. Mögulegt er talið að smágos hafi verið árið 1955 en þá kom lítið hlaup undan jöklinum. Upplýsingar um gos í Kötlu eru byggðar á hinum ýmsu annálagreinum og öðrum rituðum heimildum en aðallega er stuðst við rannsóknir á gjóskulögum. Einnig safnaði Jónas Hallgrímsson heimildum saman á sínum tíma og talaði þá við sjónarvotta að Kötlugosum sem enn voru á lífi. Svo er ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar einnig mikilvæg heimild því þeir fylgdust með gosinu árið 1755 og skráðu niður það sem þeir sáu. Byggt á þessum heimildum hefur verið gerður annáll um Kötlugos.

3.1 Annáll Kötlugosa á sögulegum tíma

934?: Eldgjárgos um svipað leyti.
1000?: Gjóskulag frá þessum tíma.
1179?: Óljósar heimildir.Ummerki í Grænlandsjökli.
1245: Ofan Sólheimajökuls?
1262: Austarlega í jöklinum.
1311: Gjóskulag fellur að þessum tíma.
1357: Mikið gos, og tjón. Gjóskulag fellur að þessum tíma.
1416?: Ein heimild.
1490: Gjóskulag fellur að þessum tíma.
1580: Allöruggar heimildir.
1612: Örugg heimild um hlaup.
1625: Örugg heimild, allmikið gos.
1660: Samtímaheimild, stórt hlaup.
1721: Mikið gjóskugos (1 km3 af gjósku) og stórt hlaup.
1755: Stórgos (1,5 km3 af gjósku) og Gífurlegt hlaup.
1823: Traustar heimildir.
1860: Lítið gos, traust heimild.
1918: Stórt hlaup, 0,7 km3 af gjósku. Fyrstu ljósmyndir af Kötlugosi.
1955?: Smágos? Lítið hlaup. [1]

Tíminn sem líður milli Kötlugosa er mislangur, stysti tíminn sem liðið hefur er um 13 ár, meðan sá lengsti er um 80 ár. Gosin hafa varað frá hálfum mánuði upp í 5 mánuði. Katla hefur frá landnámi alltaf gosið tvisvar á öld.
Eldinga og annarra raffyrirbæra má vænta allt umhverfis gosstöðvarnar en einkum er þeirra þó von í þeirri átt sem gosmökkinn leggur. Eldingarnar geta haft truflandi áhrif á fjarskipti og orkuflutning og valdið tjóni á línulögnum og byggingum. Dæmi er um að menn og dýr hafi orðið fyrir eldingum og látist í allt að 35 km fjarlægð frá gosstöðvunum. Svo segir Eggert Ólafsson frá gosinu 1755 í ferðabók sinni:

„Áhrif eldinganna, sem stöfuðu frá Kötlugjá, voru alleinkennileg. Ellefu hestar í sveitinni drápust af reiðarslögum. Stóðu þrír þeirra við stall, er eldingum laust niður, og lágu þeir allir dauðir hver hjá öðrum. Dauða þeirra tveggja manna, sem fórust í eldi þessum, bar að með þeim hætti, að annar þeirra, sem var heiðvirður bóndi, datt niður dauður, um leið og hann kom út úr bæjardyrum sínum, samtímis og eitt eldleiftrið gekk yfir. Engin verksummerki sáust á fötum hans, en þegar hann var færður úr fötum, var húð hans og hold brennt inn að beini á hægri hlið hans og einnig skyrta hans og brjóstdúkur, sem sennilega hefir verið úr líni, en ytri fötin sem voru úr ull voru ósnert af eldinum. Hin persónan, sem fórst, var vinnustúlka hans, sem ætlaði að hjálpa honum að bjarga einhverju af skepnunum. Eldinum sló niður í hana á sömu stund og stað. Hún dó þó ekki samstundis, heldur lifði hún nokkra daga við ægileg harmkvæli.“ [2]

Aðrar hættur sem eiga má von á í sambandi við Kötlugos eru einkum af völdum gastegunda sem losna úr gjóskunni og úr gosmekkinum. Sum þeirra geta haft eituráhrif á menn og dýr við beina innöndun og í gegn um gróður og vatn

4. Kötluhlaup

Það sem er hættulegast við Kötlugos eru jökulhlaupin, sem verða þegar jökullinn bráðnar í gosi. Vatn safnast fyrir undir jöklinum og þegar vatnsmagnið er orðið nægilegt lyftist jökullinn upp og vatnið brýst fram með ægilegum krafti. Gífurlegur vatnsflaumurinn rífur með sér jaka allt að 200 metra langa og 18 metra háa. Einnig bera hlaupin með sér kletta eins og Kötluklett sem stendur upp úr Mýrdalssandi, hann er um 1400 tonn að þyngd og barst með hlaupinu þann 12. október 1918 um 15 kílómetra leið. Þessi gríðarlegi kraftur hlaupsins stafar eflaust af því að hlaupmassinn er í raun ekki vatn heldur leðja sem samanstendur af sandi, vatnssósa ösku og vatni. Slík blanda hefur allt aðra eiginleika en vatn. Eðlismassi hlaupmassans er mun hærri en eðlismassi vatns (2,6 g/cm3 a móti 1,0 g/cm3). [4] Það hefur þau áhrif að flaumurinn nær mun meiri hraða en ef einungis vatn rynni niður sandinn. Ís og annað sem flyst með hlaupinu flýtur betur og hvorttveggja hefur þau áhrif að auðveldara reynist að bera stóra jaka og kletta niður sandinn og langt út á haf. Þetta gæti verið skýring á því hvers vegna jökulker myndast ekki í sama mæli og t.d. á Skeiðarársandi þar sem þau haldast jafnvel milli hlaupa. Sumir telja [4] að aurblandan í upphafi hlaups nálgist það að vera eðjustraumur (Lahar)* Það sem greinir Kötluhlaup frá öðrum jökulhlaupum er það að þau standa yfirleitt mjög stutt og hraði þeirra og vatnsmagn getur orðið gríðarlega mikið.
Hlaup hafa fallið niður á Mýrdalssand og hefur þá vatn dreifst yfir allan sandinn og runnið í Múlakvísl, Leirá og Hólmsá, eins og gerðist árið. Hlaup hafa einnig fallið niður Markarfljótsaura, að öllum líkindum frá Entujökli. Einnig er þekkt að hlaup falli niður á Sólheima- og Skógasand en það hefur ekki gerst síðan árið 1357. [3] Ekki er vitað hvort það er vegna breytinga á eldvirkni eða breytinga á jöklinum. Af þeim 17 hlaupum sem komið hafa á sögulegum tíma virðast 15 hafa fallið niður á Mýrdalssand og 2 á Sólheima- og Skógasand. Fyrir um 1800 árum féll svo mikið hlaup niður Markarfljótsaura. Ferðamenn á leið um Emstrur sjá greinileg ummerki eftir hlaupið, því leiðin liggur í gegnum Tröllagjá sem hlaupið hefur myndað með sínum gríðarlega krafti á örskömmum tíma.
Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á landslagi jökulbotnsins sem gefa vísindamönnum mynd af legu öskjunnar og vatnasvæðum Mýrdalsjökuls. Út frá skiptingu vatnasvæða öskjunnar og eldvirkni, hefur verið reiknað út að langmestar líkur séu á því hlaup falli niður á Mýrdalssand. Heldur minni líkur eru taldar á að hlaup falli niður Markarfljótsaura og einnig litlar líkur á því að hlaup falli niður á Skóga- og Sólheimasand.


4.1 Hlaupið 1918

Kötluhlaupið 1918 er stórkostlegasti jarðfræðilegi atburður þessarar aldar. Nokkrir rúmkílómetrar af vatni og ís hlupu í sjó fram og yfir 0,5 rúmkílómetri af kviku barst frá Kötlugjá, bæði með lofti og vatni, og hluti kvikunnar myndaði eflaust bólstraberg við gosupptökin. Vatnsborna gjóskan lagðist að mestu yfir Mýrdalssand eða barst út í sjó og settist við ströndina. Atburðarásinni er lýst svo af sjónarvottum:

Stór jarðskjálfti átti sér stað klukkan eitt og svo fylgdu 30 mínútur af stanslausum skjálftum. Á austurhlauta Mýrdalssands, við Meðalland, um 30-35 km frá eldstöðinni, eru drunurnar sagðar hafa hafist skömmu eftir jarðskjálftann eða skjálftaröðina. Þessar drunur merkja upphaf hlaupsins sem hófst hátt uppi í jöklinum. Eldgosið braust upp í gegnum ísinn um klukkan þrjú. Athuganir frá Vík og Hjörleifshöfða eru sammála um þetta. Á sama tíma og gosmökkurinn sást eða aðeins seinna, sást hlaupið ryðjast niður Múlakvísl alla leið niður að sjó. Á Hjörleifshöfða, stuttu eftir að hann sá gosmökkinn, heyrði Kjartan Loftur Markússon, vatn renna að austanverðum Hjörleifshöfða. Hann flýtti sér upp á fjallið og lýsir því sem hann sá:„Hraði hlaupsins var það mikill að ekki mundi léttur maður hafa haft að forða sér undan því þótt um skamma leið væri að ræða.“ Flóðið rann frá jökulröndinni að sjónum, innan 45 mínútna og virtist haldast stöðugt um tvær klukkustundir. Þá jók hlaupið rennsli sitt um klukkan fimm. „Kom þá fram á milli Hafurseyjar og Selfjalls svo mikið íshrúgalda, að líkast var sem þar brunuðu fram heilar heiðar snævi þaktar.“ Þessi ótrúlegi massi af ís rann fram, austur fyrir Hafursey og vestur fyrir Selfjall, og þá yfir allan sandinn.“[3,4]

Ísinn rann þessa leið á um klukkustund, Það samsvarar því að flóðbylgjan færi með 6 metra hraða á sekúndu. Samkvæmt grein Hauks Tómassonar var dýpi hlaupsins um 180 m þegar mest var, við norðurhenda Hafurseyjar og um 150 m við Selfjall. Samkvæmt þessum upplýsingum hefur hann reiknað út að hæsti rennslistoppur hlaupsins hafi áreiðanlega verið yfir 300.000 m3/s af vatni með 25.000 tonnum af ís og öðrum 25.000 tonnum af seti.
Breytingarnar á Mýrdalssandi gefa líklegast bestu upplýsingarnar um magn þess efnis sem hlaupið bar fram. Þessar upplýsingar hafa verið kortlagðar með þeim uppýsingum sem fengust þegar dönsk landmælinganefnd kortlagði svæðið árið 1904 og svo þegar bandaríski herinn kortlagði það aftur árið 1946. Askan sem hlaupið bar fram dreifðist um Mýrdalssand og framlengdi Kötlutanga um 4 kílómetra í sjó fram. [3]

4.2 Saga af hlaupi

Til eru margar sögur frá fyrri öldum af Kötluhlaupum og margar hverjar næsta ævintýralegar. Svo segir Markús Loftsson frá atburðum er gerðust árið 1311:

„Þetta Kötlugos er kallað Sturluhlaup. Þak kom upp sunnudaginn næstan eftir jól. Annaðhvort hefir það verið um nótt, að hlaupið kom, eða það hefir komið með óvanalegum hraða, því bóndinn, Sturla Arngrímsson, sem þá bjó að Láguey, kom út úr bænum og gekk upp up húsagarðinn. Sá hann þá vatnið koma flóandi yfir byggðina og stefna á bæinn. Hljóp hann þá inn aftur og greip ungbarn ú vöggu, sem stóð við rúm þeirra hjóna. Aðrir segja, að hann hafi gripið vögguna með barninu, og beðið fólkið að fela sig miskunn Drottins, hlaupið síðan út og upp á garð, sem hlaðinn var kringum bæinn; vildi þá svo til, að vatnsflóðið bar stóran jaka að garðinum, en Sturla hljóp upp á jakann með barnið; flaut jakinn út á sjó, og rak eftir nokkra daga upp á Meðallandsfjörur. Hafði jakann þá rekið fullar fimm mílur á sjó austur með landi, frá því að hann kom fyrst á hann. Engum mat náði Sturla með sér þegar hann fór út á jakann, því svo bar brátt að. Tók Sturla því það til ráðs, að hann skar geirvörtur af brjósti sínu og lét barnið sjúga blóð sinn, og fyrir það hélt barnið lífi.“ [6]



5. Jarðhræringar í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli 1999

Mýrdalsjökull var settur í gjörgæslu Orkustofnunar, Raunvísindastofnunar og Veðurstofunnar síðastliðið haust í kjölfar umbrota og breytinga í jöklinum. Breytingarnar fólust í því að risastórir sigkatlar mynduðust í öskju Kötlu, Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi. Þessir katlar mynduðust líklegast vegna aukins jarðhita í jöklunum. Munur er þó á sigkötlunum í Eyjafjallajökli og sigkötlunum í Mýrdalsjökli sem felst í því að katlarnir í Eyjafjallajökli eru mun grynnri en katlarnir í Mýrdalsjökli (um 20 m djúpir í Eyjafjallajökli og 40-50 m djúpir í Mýrdalsjökli).
Gjörgæslan fólst í því að settir voru upp landmælingamælar og síritandi jarðskjálftamælir við Láguhvola rétt sunnan við Vatnsrásarhöfuð skammt frá Höfðabrekkujökli á Mýrdalsjökulssvæðinu. Var mælinum komið fyrir eins nálægt Kötlu og mögulegt er á láglendi, en tilgangurinn með uppsetningunni var að auka líkurnar á að geta varað við gosi úr Kötlu á grundvelli jarðskjálfta og óróa sem líklegt er að verði nokkrum klukkustundum fyrir gos úr jöklinum. Einnig voru settir mælar í þau vatnsföll sem líklegast er að hlaup falli í ef til goss kæmi. Tilgangurinn með vatnsmælunum er þríþættur. Fylgst er með vatnsrennsli frá Mýrdalsjökli og kannað hvort það vatn sem talið er að hafi bráðnað vegna jarðhitavirkni í jöklinum í sumar renni jafnóðum fram eða safnist saman. Einnig er fylgst með vatnsföllunum til að geta varað við atburðum áþekkum þeim sem áttu sér stað í Jökulsá á Sólheimasandi í sumar en þá kom stórt hlaup sem hefði hæglega getað valdið skaða. Síðast en ekki síst er fylgst með vatnsföllunum til að geta varað við Kötluhlaupi ef til þess kemur. Mælarnir, sem eru sex talsins, eru allir í farsímasambandi við Orkustofnun og fer eftirlitið þannig fram að hringt er sjálfvirkt í mælana að morgni sérhvers dags þar sem upplýsingar um vatnsleiðni, hitastig og vatnshæð eru lesin af þeim, en að auki hefur ákveðið viðvörunargildi verið forritað inn í mælana með þeim hætti að þeir hringja sjálfkrafa í síma vaktmanns Orkustofnunar, ef leiðnin, hitastigið eða vatnshæðin fara yfir ákveðin mörk. Einn mælanna er til þess eins gerður að láta vita um leið og hann fer í kaf sem gerist líklegast ekki nema í Kötluhlaupi. Hann er staðsettur sunnan Kötlujökuls við Léreftshöfða, þar sem mestar líkur eru á að hlaupið falli niður, ef til þess kemur.[7]
Vatnamælingar Orkustofnunnar hafa um langt skeið stundað mælingar í Múlakvísl (stakar mælingar frá 1969) og Jökulsá á Sólheimasandi (stakar mælingar frá 1973) og mælt bæði rennsli (í m3/sek) og heildarefnastyrk (í mg/l). Þessar mælingar, ásamt jarðskjálftamælingum veðurstofunnar, geta sýnt hvort aukin virkni sé í jöklinum eins og sýndi sig sumarið 1999 þegar allt í einu mynduðust sigkatlar á Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli og skjálftavirkni jókst.

6. Lokaorð

Katla er eitt virkasta eldfjall landsins og lýsir það sér best í því að hún hefur að meðaltali gosið tvisvar á öld frá landnámsöld. Katla tengist bæði Eldgjá og Eyjafjallajökli. Hún er hulin jökli og það er ástæðan fyrir því hvers vegna hlaupin eru svo stór og öskufallið svo mikið.
Hætta af völdum Kötlugosa er fyrst og fremst tengd hlaupunum þó svo að gjóska gæti einnig haft slæmar afleiðingar fyrir byggð. Eldingar eru einnig hættulegar en þó ekki nærri eins hættuleg og hlaupin.
Gos og hlaup á sögulegum tíma hafa nánast eytt byggð í nágrenni Mýrdalsjökuls. Til dæmis um þetta má nefna það að í kjölfar Kötluhlaupsins 1755 lögðust um 50 jarðir í eyði um skeið í Skaftártungu, Álftaveri og vesturhluta Síðu.
Til tíðinda dró sumarið 1999 þegar atburðir áttu sér stað í Mýrdalsjökli sem gætu verið aðdragandi að gosi. Þá mynduðust sigkatlar í jöklinum sem eru líklegast vegna aukinnar jarðhitavirkni undir jöklinum.
Þó að byggð hafi dregist saman vegna gosa og hlaupa er eitt víst að ef ekki kemur til gos bráðlega, með tilheyrandi hlaupi og sand- og aurframburði, mun sjór í nálægri framtíð skerða strandlengjuna á söndunum á suðurlandi. Og þar með skerða landhelgina umtalsvert. Og þá mun byggð enn dragast saman. Þannig að við erum komin í einskonar vítahring. Það er, okkur stafar hætta af gosum og hlaupum en við erum einnig háð þeim, til að landhelgi og land okkar skerðist ekki það mikið að við bíðum varanlegan, efnahagslegan skaða af því.







Heimildaskrá:


Ari Trausti Guðmundsson 1986. „Vatnsflóð og hraunflæmi“. Íslandseldar, eldvirkni í 10.000 ár. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 108-115.
[1].

Eggert Ólafsson 1978. „Ferð til eldjöklanna“. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, 2. bindi. Örn og Örlygur, Reykjavík, bls. 88-94.
[2]

Haukur Tómasson 1996. „The jökulhlaup from Katla in 1918“. Annals of Glaciology 22. International Glaciological Society, bls. 249-254.
[3]

Jónas Hallgrímsson 1989. „Kötlugjá, Katla“. Náttúran og Landið, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, 3. bindi. Svart á Hvítu, Reykjavík, bls. 54-83.
[4]

Jón Jónsson 1980. „Um Kötluhlaup“. Náttúrufræðingurinn 50 (2), bls. 81-86.
[5]

Markús Loftsson 1930. Rit um Jarðelda á Íslandi. Skúli Markússon gefur út, Reykjavík, bls. 14-15.
[6]

Morgunblaðið 6. október 1999, bls. 2.
[7]

Sigurður Líndal 1974. „Katla og Kötluhlaup“. Saga Íslands I. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, bls. 72-79. [8]

www.os.is

www.islandia.is/hamfarir/jardfraedileg t/eldgos/

www.vedur.is