Flokkun félagsskordýra:
Félagsskordýr eru þau skordýr sem myndað hafa samfélag. Þær tegundir sem náð hafa þessum árangri eru maurar, termítar og margar tegundir býflugna og vespa. Samfélögin eru af ýmsum stigum sem fela í sér mismunandi þróun samfélagsins. Stigin eru fjögur:

a. Kommúnusamfélag. Sameiginlegt bú - hvert kvendýr elur eigin afkvæmi.
b. Ófullkomið samfélag. Sameiginleg afkvæmi (hjálpast er að við að ala afkvæmi) – hvert kvendýr verpir enn eggjum á einhverjum tímapunkti.
c. Hálfsamfélag. Sönn vinnudýr bætast við samfélagið – sumir meðlimir nýlendunnar reyna alrei að makast.
d. Fullkomið samfélag. Fullkomnar nýlendur eru til nógu lengi til að tvær eða fleiri kynslóðir skarist og vinni saman

Býflugur og maurar geta myndað samfélög á hvaða stigi sem er, oftast mynda þessar tegundir þó fullkomin samfélög. Allar tegundir termíta mynda hins vegar fullkomið samfélag, annað er ekki að finna hjá þeim.


Samskipti félagsskordýra:
Félagsskordýr hafa samskipti á margan hátt. Aðallega er um að ræða efnafræðileg samskipti þar sem dýrin gefa frá sér efni sem kallast ferómón en einnig er um að ræða táknmál og hljóðmerki. Ferómónin eru langmikilvægust og er jafnvel talið að þau beri mesta ábyrgð á skipulagningu samfélaga félagsskordýra. Táknmálin er aðallega að finna hjá býflugum sem dansa á mjög sérstakan hátt en þau eru ekki til hjá maurum og termítum. Hljóðmerki eru partur af býflugnadansinum og berja herdýr termíta hausunum við veggi búsins og mynda þannig viðvörunarmerki ef ráðist er á búið.

Termítar:
Sums staðar í heiminum er að finna termítabú maragar mannhæðir á hæð. Í svona risabúum eru nokkrar milljónir einstaklinga. Þeir eru ekki bara dýr sem kosið hafa að búa saman heldur eru þeir alli meðlimir í sömu fjölskyldu. Þ.e.a.s. allir einstaklingar nýlendunnar eru afkvæmi eins pars, kóngs og drottningar. Auk þess er hver einstaklingur ófullkominn og ósjálfbjarga. Þ.e. ef hann væri einangraður frá búinu myndi hann deyja. Vinnumennirnir sem skríða um jörðina í fæðuleit, eru blindir og ófrjóir. Hermennirnir sem standa við innganga í búið og flýta sér til þess að verja op á veggjum þess, hafa svo stóra kjálka að þeir geta ekki aflað sér fæðu sjálfir.. Vinnumennirnir þurfa því að fæða þá. Í miðju búinu er svo drottningin. Hún er of stór fyrir göngin sem leiða að herbergi hennar og mun því aldrei fara úr búinu. Búkur hennar er eins og stór hvít pylsa, 12 cm að lengd. Hún spýtir út úr sér eggju á ótrúlegum hraða, 30000 á dag. Drottningin sjálf myndi einnig deyja er henni væri ekki sinnt. Hópar vinnudýra færa henni fæðu og taka eggin burt. Eina frjóa karldýrið, kóngurinn, fær einnig sérmeðferð og þarf því ekki að leita sér að mat sjálfur.

Það sem bindur svona risasamfélag saman er vel þróað samskiptakerfi sem byggist á ferómónum sem ég minntist lauslega á áður og lyktarefnum.
Vinnudýr skilja eftir sig slóð lyktarefna sem leiðir blinda félaga þeirra að fæðuuppsprettum.
Allir íbúar nýlendunnar skiptast á líkamsvessum og fæðu. Vinnudýr innbyrða saur og fæðu frá öðrum dýrum til þess að fullnýta næringarefnin og til þess að dreifa ferómónum. Þannig dreifast ferómónin og skipanir sem í þeim felast hratt og örugglega um búið. Vinnudýrin sleikja líka hliðar og endaþarm drottningarinnar og fá þannig ferómón sem hún myndar og seytir síðan í söfum.
Lirfur sem koma úr eggju drottningarinnar hafa þann hæfileika að geta verið af hvoru kyninu sem er en ferómón sem drottningin lætur vinnudýrunum í té stöðvar þroska þeirra og tryggir að drottningin situr ein að völdum. Lirfurnar verða því að vinnudýrum, blindum, vænglausum og ófrjóum.
Hermennirnir gefa einnig frá sér ferómón sem koma í veg fyrir að lirfurnar þroskist og verði að herdýrum. Ferómón endast samt ekki lengi og því er tryggt að ef herdýrin deyja lækkar magn “her-ferómóna” í þessari súpu efnafræðilegra skipana og því þroskast fleiri herdýr þar til réttu hlutfalli er náð á ný.
Drottningin breytir stundum ferómónseytingu sinni þannig að allar lirfurnar nái fullum þroska. Þ.e. fá vængi, sjá og eru frjóar. Þessi dýr fljúga í risastórum hópum út úr búinu en komast ekki langt vegna þess að ýmis dýr sitja fyrir þeim við útganga búsins. Um leið og dýrin lenda losa þau sig við vængina. Karl- og kvendýr finna sér holu eða sprungu í jörðinni þar sem þau makast og verpir kvendýrið fyrstu eggjum nýrrar nýlendu. Karlinn og kerlingin ala fyrstu afkvæmin upp saman og ná í mat handa þeim. Þegar þessi fyrsta kynslóð er komin á legg hætta nýju konungshjónin að gera nokkuð annað en að drita niður afkvæmum.

Termítar byggja stærri byggingar en nokkur önnur skordýr. Termítavirki getur vegið 10 tonn og verið 3-4 mannhæðir. Milljónir íbúa valda eitruðum, súrefnissnauðum og umfram allt geysilega heitum útblæstri sem termítarnir losna við á snilldarlegan hátt. Þeir byggja mjóa strompa þar sem heita loftið fer út en hreint, kalt loft kemur inn. Einnig grafa termítar sig stundum niður að grunnvatnsborði þar sem þeir bera vatn upp í búið og bleyta veggina til að auka hitatap.
Í Ástralíu byggja termítar bú sem eru einungis þunnar skífur sem vísa nákvæmlega eftir norður-suður ásnum. Þetta gera þeir til að minnka flötinn sem hin geigvænlega miðdegissól skín á búið þeirra og til þess að auka flötinn sem daufu kvöld- og morgungeislarnir skína á það.
Í Vestur-Afríku og annars staðar þar sem mikið er af regni byggja termítar hins vegar svepplaga bú til að skýla sér fyrir vatnsflaumnum.
Enn sem komið er hefur engum tekist að skýra hvernig milljónum blindra vinnutermíta tekst að byggja svona hagkvæm, stór og snilldarlega hönnuð híbýli.

Býflugur:
Býflugur búa saman þúsundum saman í búum með einni drottningu. Þessi eina drottning heldur sig í búinu þar sem hún verpir eggjum í þar til gerð hólf sem vinnuflugurnar hafa byggt.
Hjá býflugum, líkt og hjá termítum, byggist samfélagið á samskiptum með ferómónum. Ferómónin láta hvern einstakling vita af fjölda íbúa í búinu og hvort drottningin er til staðar eða ekki. Býflugur hafa einnig aðra aðferð til tjáskipta, dansinn. Þar sem býflugur geta ekki skilið eftir lyktarslóð sem leiðir til fæðu, þar sem þær fljúga, vísa þær leiðina með ofsalega skemmtilegum dansi. Flugan sýnir dansinn á lendingarpallinum við innganginn í búið. Þá geta félagar flugunnar séð hvar fæðan er útfrá stöðu dansarans. Svo fer flugan inn í búið og sýnir félögum sínum þar inni dansinn en þar dansar hún lárétt vegna þess að veggirnir inni í búinu liggja allir lárétt. Því lengra sem flugan fer inn í búið því lengra er í fæðuna. Allar býflugurnar sem sjá dansinn leggja leiðbeiningarnar á minnið og bráðum er stór hópur flugna farinn að safna hunangi á nýja staðnum.
Skemmtilegt er einnig að segja frá því að vísindamenn hafa nýlega uppgötvað að býflugur hafa háþróaða greind sem áður var haldið að einungis hryggdýr hefðu. Þ.e. þær hafa hæfileika til að hugsa í abstrakt hugtökum, eins og “eins” og “öðruvísi”.

Af þessu má svo sjá að félagsskordýr eru mjög fjölbreytt og koma mönnum sífellt á óvart. Til dæmis um það má nefna hátt greindarstig býflugna og þá staðreynd að stór hluti Suður Evrópu er undirlagður af risanýlendu argentískra maura. Það er reyndar svo óskiljanlegt að menn hafa ekki enn hugmynd hvers vegna maurar sem berjast til dauða á heimaslóðum sínum í Argentínu vinna saman í Evrópu.
Það er því ljóst að mikið á eftir að rannsaka þessi kvikindi sem til samans vega meira en allir menn á jörðinni til samans.


Heimildir:

http://web.mit.edu/pkamvyss/ www/weird.html

http://www.humboldt.edu/~njs12/

ht tp://www.hunnybee.com.au/ hunny44.html

http://www.thedickmans.net/images/Disk_ B8/ Termite%20Mound.jpg

http://news.nationalgeographic.c om/news/2002/04/0418_020418_TVantcolony.html

http:// faculty.nl.edu/jste/Animal%20Behavior/bees.htm

http: //www.insecta-inspecta.com/

http://faculty.nl.edu/js te/Animal%20Behavior/social_insects.htm