Bláfjöll gerð klár fyrir opnun Allt frá því síðasta fimmtudag hafa Bláfjöll verið opin fyrir æfingar og hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fara uppeftir flesta dagana. Mér fannst töluvert vanta uppá snjó til að hægt væri að opna fyrir almenning en lyfturnar í Suðurgili voru allar opnar nema barnalyftan. Þ.e. Bifröst (Mikki Refur), önnur tvíburalyftan (Jón Oddur) og stólalyftan (Gosinn). Það var bara hægt að skíða í þröngum afmörkuðum brautum og hafa þetta ekki verið neitt sérstakir dagar.

En alla vikuna hafa menn á troðurum unnið að því að ýta snjó í allar helstu brautir svæðisins. Núna í dag sýndist mér því loksins vera að ljúka. Búið er að troða Kóngsgilið. Í Norðurleiðina sem var nánast snjólaus hefur snjó verið ýtt á snjólausa staði og komin er fín leið þar. Við toglyftuna á milli stólalyftnanna og skálans hefur einnig verið ýtt til snjó og er allt tilbúið þar fyrir opnun. Eini staðurinn þar sem vantar snjó eru barnalyfturnar, en þar er mjög lítið af snjó.

Að enn betri fréttum. 10 mínútum áður en ég fór heim áðan byrjaði að snjóa af krafti og sá ég mun á fjallinu á þessum örfáu mínútum. Snjókomu sem þessari er spáð í alla nótt.

Þannig að möguleikar á opnun fyrir almenning á morgun verða að teljast nokkuð góðir. Fyrir utan það að veðurspáin er ekki nógu góð, eða kannski bara mjög góð. Suðaustan átt og él.

Sjáumst í Bláfjöllum á morgun.
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.