Í dag eru skjáir fartölvanna, LCD (Liquid Crystall Display), að verða almenningseign. Framleiðendur tölvuskjáa eru farnir að einbeita sér að því að hanna og smíða flataskjái fyrir venjulegar heimilistölvur. Þannig eru þessir kostagripir að verða eins almennir og geisladiskaskrifarar og DVD-spilarar.

Það vekur furðu mína að umræðan er ekki að fylgja þróuninni. Geri ég ráð fyrir að ástæðan liggi í því, að fáir séu með flatan skjá heima hjá sér. Getur verið að fólk sé eitthvað hrætt við þessa skjái, eru þeir of dýrir eða er fólk ekki að nýta sér nýjasta nýtt ?

Að þeir séu of dýrir hafna ég alveg. Á það er hægt að finna flata skjái á verði rétt yfir því sem sambærilegur túbuskjár kostar. Það er ekki á öllum stöðum en það er hægt. Ótti við flata skjái finnst mér einnig merkilegur. LCD var meðal þess er lagði grundvöll að framleiðslu fartölva og er því búið að vera í notkun til fjölda ára.

Ég vek athygli á þessu því mér þætti gaman að heyra ástæður þess að menn eru enn ekki farnir að kaupa flata skjái með nýjum heimilistölvum.