Eftir að blessaður Plextorinn minn fór að gefa upp öndina (sjá fyrri grein) fór ég út í “rannsóknir” á því hvað væri að valda þessu.

Ég reif hann úr sambandi og setti hann á sama stað og DVD drifið var (primary slave). Og viti menn…dótið virkaði! Ég hoppaði hæð mína í loft upp (ekki mikil hæð) og náði að brenna Redhat 7.2 og nokkra diska í viðbót….en svo gerðist þetta aftur.

Upphófst því mikið klór í haus með fylgjandi hárlosi. Ég fattaði að ég hafði gleymt disk í drifinu eftir að ég hafði tekið það úr vélinni og stakk því í samband við rafmagn til að ná því út. Tók ég þá eftir því að með því að velta honum örlítið til hliðana (ekki hrista…velta rólega) þá tókst honum að grípa diskinn og lesa. Mjög undarlegt.

Núna liggur hann hérna á borðinu hjá mér, í sambandi og meðan ég er að reyna að brenna nokkra diska sem ég þarf nauðsynlega að brenna þá neyðist ég til að nota “veltuaðferðina” af og til.

Þetta virðist því vera eitthvert sambandsleysi í honum, jafnvel viðgerðarhæft. En ekki gengur að hafa greyið liggjandi á borðinu það sem eftir er þannig að ég verð nú að trítla í BT og leyfa þeim að krukka í honum.

Bölvuð synd og skömm…því ég hreinlega elska þetta drif.
JReykdal