Ég er að velta fyrir mér hvort það sé bara eðlilegur hlutur að láta ljúga að sér og svíkja sig þegar þarf að eiga samskipti við þá sem eru að selja manni tölvu eða gera við. Ég get ekki séð að munurinn á hreinskilni gagnvart kúnnanum breytist eftir því um hvaða fyrirtæki er rétt.

Félagi minn þurfti að láta skipta um móðurborð í tölvunni sinni um daginn. Hann hafði keypt tölvu hjá Hugveri og þeir lofuðu öllu fögru um að vera röskir að afgreiða hann og ganga frá hans málum. Á miðvikudegi er honum lofað tölvunni á fimmtudegi, á fimmtudegi er honum sagt að á föstudegi verði vélin pottþétt tilbúin og hann þurfi ekki ekki einu sinni að hringja á undan sér heldur bara mæta og sækja. Þetta stóðst auðvitað ekki. Loksins á mánudegi fékk hann tölvuna sína aftur og hafði hennar þá verið sárt saknað (bæði varðandi vinnu og skóla).

Þetta var Hugver. Sjálfur var pabbi minn að kaupa tölvu frá Aco-Tæknival í gegnum fyrirtækið sitt (eitthvað tilboð). Þegar tæpir 2 mánuðir voru liðnir frá því að hann skilaði inn gögnum og sinni pöntun að tölvunni var tilkynnt að hún væri tilbúin. Ég fer og sæki hana og set upp og sé þá að módemið vantar sem og hátalarana. Einhver gleymska þar á ferð hugsaði ég með mér og renndi með tölvuna á verkstæði þeirra og var lofað að hún kæmi tilbúin samkvæmt upphaflegu pöntunni daginn eftir. Daginn eftir er mér svo sagt að ferlið taki viku. Já sem sagt tæpum tveimur mánuðum eftir að tölvan var ‘tilbúin’ án módems og hátalara þá átti að kvelja mig um viku í viðbót eftir klukkutíma vinnu (í mesta lagi). Eftir samtöl við ýmsa aðila, misháttsetta, hjá Aco-Tæknival var loksins hægt að fá tölvuna á skikkanlegum tíma (einum degi).

Ég ætla ekki að fara rakka niður Hugver og Aco-Tæknival eitthvað sérstaklega heldur bara spurja hvort það sé bara sjálfsagt mál að láta þessi fyrirtæki og önnur í þessum bransa spila með sig og geta ekkert gert nema brosað og beðið?