Í vélbúnaðarheiminum nú í dag eru að fara fram mestu tæknibreytingar í áratug. Ekki eru allir mjög hliðhollir þessum tæknibreytingum, vegna þess að þeim fylgja nýjir staðlar sem gera það að verkum að gamla tæknin verður ónothæf.

Þær tækninýjungar sem standa mest upp úr eru tvær:

1. Nýtt viðmótskerfi fyrir skjákort og ýmsan annan viðtengibúnað(*1), svo sem mótöld og hljóðkort, sem kallast PCI-Express.

2. Ný og betri tækni fyrir Double Data Rate(DDR) vinnsluminni, sem kallast DDR2.

Aðalfyrirtækið í vélbúnaðarbransanum, Intel, er að ýta þessum tækninýjungum inn á markaðinn með nýju kubbasettunum sínum, 915 og 925.

Menn hafa mjög misjafnar skoðanir á þessum tækninýjungum, en staðreyndin er sú að gamla tæknin er að ná sínu hámarki.

Nýja viðmótskerfið fyrir skjákortin, PCI-Express x16 býður upp á helmingi meiri bandvídd en gamli AGP 8x staðalinn. Skjákort þurfa í rauninni ekki á allri þessari bandvídd að halda núna í dag, en það mun breytast fljótt, enda eru skjákortin að þróast mjög hratt núna. Til dæmis um það vill ég benda á hina “nýju kynslóð” af skjákortum, GeForce 6*** og Radeon X***.

DDR tæknin er talin vera búin að ná nokkurn veginn sínu hámarki í dag, þar sem hæsti klukkuhraði sem DDR minniskubbar eru að ná er um 600MHz. DDR2 býður upp á mikið meiri klukkuhraða en DDR. DDR2 staðalinn mun byrja á DDR2-533 og fara svo upp í DDR2-667 og DDR2-800. Voða lítið gagn er að þessu nú í dag, enda ekki til örgjörvar sem bjóða uppá meira en 800MHz Front Side Bus.

En það mun fljótt breytast. Á þessu ári, nánar tiltekið í “þriðja fjórðungi” ársins(Q3), mun koma nýr örgjörvi frá Intel sem styður 1066MHz Front Side Bus. Þetta mun að vísu vera “Expensive Edition” örgjörvi, sem er að kosta í kringum 100þús kallinn, en innan skamms munu venjulegir örgjörvar sem miðaðir eru á hinn almenna notanda fara að nýta FSB1066. Þar kemur DDR2 til sögunnar. DDR2 getur mjög auðveldlega náð 533MHz klukkuhraða, sem þá fullnýtir 1066MHz Front Side Bus þegar keyrt er í “Dual Channel”.

Lítið framboð er af PCI-Express skjákortum og DDR2 minniskubbum, en það mun breytast á næstu mánuðum þegar þetta verður orðið útbreitt, og þá munu AGP og DDR staðalarnir deyja fljótt út.