Prentarar Ég er nú á mínum öðrum bleksprautuprentara sem sumum þykir líklega ekki mikið. Hins vegar var ég að komast að öðru í gær sem ég get ómögulega þagað yfir og það er að bleksprautuprentarar henta mér og minni notkun bara mjög illa og gæti það svo sem passað við fleiri Huga-notendur.

Ég er svona heimilisnotandi með litla notkun, prenta út eitt eyðublað hér og þar, eitt email, kökuuppskrift fyrir mömmu eða eitthvað og svo situr prentarinn ónotaður þess á milli.

Þegar ég keypti mér fyrsta prentarann, þá pældi ég mikið í því hver nýtingin væri á mismunandi prenturum og hvað hvert blað myndi kosta úr prentun. Svo komst ég bara að því þegar hann var kominn heim á borð að raunveruleikinn var einhver allt annar. Hylkin entust illa en þessi prentari hafði reyndar þann kost að prenthausinn, sem er dýrasti hlutinn af hylkinu, var aðskilinn og þar sem hann dugði í nokkur hylki, þá var kostnaðurinn ekki svo mikill. Ekki eins og einn fyrrum vinnufélagi minn sem keypti sér prentara á tilboði og fann svo út þegar hann vantaði fyrsta hylkið að það kostaði hátt í það sem hann hafði borgað fyrir prentarann.

Núna er ég hins vegar á prentara nr. 2 og er á leiðinni að fara að kaupa 3ja hylkið á einu ári. Ekki vegna þess að ég prenta svo mikið heldur vegna þess að þau eru orðin ónýt og farin að strika þó þau séu ennþá 75-80% full. Ekki einu sinni svo gott með þennan að prenthausinn sé aðskilinn þannig að þau eru dýr. Alla vega ferlega pirrandi.

Hins vegar skrapp ég í leiðangur í gær og talaði við tvo sölumenn. Ég þurfti ekki að segja meira en “Sko, ég á bleksprautuprentara en nota hann ekki mjög mikið..” og þá glottu þeir og sögðu “Já, þú meinar að blekið þornar upp”. Ég tek það fram að þeir voru ekki í sömu búðinni þannig að þetta er greinilega þekkt vandamál. Ég spurði þá hvort ég hefði einhverja kosti í stöðunni og þeir sögðu að laser væri betri uppá þetta að gera þar sem hann notar duft sem ekki getur þornað upp.

Ég er þess vegna að spá í því núna hvort það sé ekki skárra að kaupa bara ódýran laser prentara frekar en að endurnýja blessað hylkið einu sinni enn. Ekki eins og ég sé að prenta myndir þannig að ég þarf ekki nauðsynlega lit en alla vega á ég hinn áfram ef ég skyldi þurfa þess. Alla vega skárra að hafa hylki sem endist í 3-4000 blöð (líklega næstu 20 árin fyrir mig) frekar en að þurfa að kaupa nýtt hylki fyrir hver ca. 20-30 blöð sem ég prenta út :)