Í dag stendur Æskulýðs- og tómstundaráð Hafnarfjarðar fyrir dorgveiðikeppni við Flensborgarbryggju. Keppnin er ætluð börnum á aldrinum 6 til 12 ára og er keppnin opin öllum á þessum aldri.

Síðastliðin sumur hefur Æskulýðsráð haldið dorgveiðikeppni og í fyrra voru þátttakendur rúmlega 300 börn. Þessi keppni hefur þótt takast vel og verið ungum keppendum til mikils sóma. Þeir sem ekki eiga veiðarfæri geta fengið lánuð færi á keppnisstað. Einnig verður hægt að fá beitu og leiðbeiningar hjá starfsmönnum. Verðlaun eru veitt fyrir stærsta fiskinn og þau sem veiða flestu fiskanna fá einnig verðlaun. Styrktaraðili að keppninni er Veiðibúð Lalla Bæjarhrauni, sem gefur verðlaun, veiðarfæri og góð ráð.

Leiðbeinendur íþrótta- og leikjanámskeiðanna verða með öfluga gæslu auk þess sem Björgunarsveit Hafnarfjarðar verður með björgunarbát á sveimi. Keppnin hefst um kl. 13:30 og lýkur um kl. 15:00. Allir krakkar á aldrinum 6 - 12 ára eru velkomnir og hvattir til að taka þátt.
- Moose ltd. -