Það var í lok júlí sumarið ´00 að við félagarnir forum til veiða norður í Fljótaá. Við vorum ekki allt of bjartsýnir á velgengni eftir að hafa skoðað veiðibókina við komu okkar. Þar voru nokkrir laxar skráðir, og eitthvað af bleikju. Eðlilegt hefði verið að sjá svona 40 laxa og nokkur hundruð bleikjur. Ákváðum samt að hafa bjartsýnina og góða skapið með okkur og byrjuðum á því að grilla okkur dýrindis steikur og skola þeim niður með bjór. Því næst gerðum við flugustangirnar klárar, áður en við forum að sofa.

Þegar við vöknuðum daginn eftir var veðrið eins og best verður á kosið, sólskin og blankalogn. Veiðisvæðin eru fimm, en við höfðum keypt upp allar stangirnar í tvo daga, og skiptum þeim niður í 4 hluta, þannig að sá sem var á svæði 4 átti líka svæði 5 um leið. Þetta gerðum við vegna þess hversu svæði 4 og 5 eru slökustu svæðin í ánni. Ég og Grímur félagi minn áttum svæði 2 til að byrja með. Þar byrjuðum við í Lönguflúðum, vegna þess að þar er oft von á laxi. Eftir 10 mín. Hafði ég landað ágætri bleikju sem tók Black & Blue þríkrækju. Þá tók Grímur nokkur köst, en ekki varð hann var við fisk. Því næst færðum við okkur á næsta veiðistað, sem er um 100 metrum ofar. Þar fengum við Grímur sitthvora bleikjuna á Peter Ross og Heimasætu. Kl 10:30 höfðum við svæðaskipti og forum á svæði 3.. Á svæði 3 er fallegur hylur sem heitir Berghylur. Þar er hægt að kíkja varlega fram af smá kletti og þá sér maður ofan í neðsta hluta hylsins. Þar sáum við Nokkrar bleikjur. Við reyndum vel og lengi þarna, en náðum aðeins tveimur bleikjum. Ekki fengum við fleiri fiska fyrir hádegi.

Í hádeginu var hitinn orðinn óbærilegur, við vorum á stuttermabolunum og alveg að drepast úr hita. Við bárum saman bækur okkar. Það var kominn einn lax á land og nokkrar bleikjur til viðbótar. Laxinn hafði fengist á 1” túbu í Lönguflúðum. Við ákváðum að bruna til Siglufjarðar í mat. Þar kíktum við á hitamæli, og sáum að hitinn var kominn í 22 gráður.

Eftir hádegi tókum við því rólega, tókum nokkur köst á milli þess sem við lágum í sólbaði og röltum á milli staða. Ekki fengum við fisk á svæði 4 og 5, en síðasta fjórðung dagsins áttum við svæði 1, sem er skemmtilegasta svæði árinnar. Þar settum við í tvær bleikjur á breiðunni.

Daginn eftir vöknuðum við með von um að skýin myndu sýna sig aðeins, svo hitinn yrði ekki eins mikill og fyrri daginn. Það rættist. Við áttum nú að byrja á svæði 1. Ekki gerðist neitt merkilegt hjá okkur þar. Sömu sögu var að segja af svæði 2.

Þegar við komum svo saman í hádeginu var kominn annar lax á land.

Eftir hádegi seinni daginn áttum við að byrja á svæði 3. Við forum rakleiðis í Berfhylinn í von um að þar væri ennþá eitthvað af bleikju. Þegar við kíktum fram af klettinum sáum við að það var aðeins búið að bætast í bleikjuhópinn sem var þar daginn áður. Við prufuðum alls kyns flugur og aðferðir, en ekkert gekk. Þá setti ég undir Mobuto kúluhaus no12, og kastaði uppstreymis, lét fluguna reka beint á bleikjurnar. Í fyrsta kasti fékk ég granna töku, en náði ekki að bregða við henni tímanlega. Þennig gekk þetta nokkur köst, en bleikjan virtist bara rétt taka í fluguna og spýta henni strax út úr sér. Þá ákvað ég að setja tökuvara á línuna. Það gekk vel, og þá náði ég að bregða nógu fljótt við fisknum. Þetta var mjög skemmtilegt hjá okkur þennan tíma sem við áttum svæði 3, og við settum í margar bleikjur, en misstum líka margar.

Þegar þessu var lokið ákváðum við að þetta væri orðið gott hjá okkur félögunum. Við slepptum því að veiða síðasta hluta dagsins, þar sem við áttum þá svæði 4 og 5, og keyrðum í bæinn sáttir við lífið og tilveruna.

Þegar við síðan töluðum við hina sem voru með okkur þarna, þá sögðu þeir okkur að veiðin hefði gengið eins og í sögu hjá þeim þennan seinnipart, og allir voru ánægðir eftir þennan túr. Er það ekki tilgangurinn?

Því má svo bæta við að í Fljótatúrnum árið eftir, eða síðasta sumar fékk ég mjög eftirminnilegan lax. Þetta var smálax, 5 pund, en það sem var svo eftirminnilegt var það að ég fékk hann á silungaflugu (brúnan mola), uppstreymis, og þar að auki á Thomas & Thomas flugustöng fyrir línu #4. Þetta var minnsti, en jafnframt skemmtilegasti laxinn minn síðasta sumar.