Daginn félagar.

Rafaello býður ykkur uppá stangveiðisögu frá síðasta sumri.

Föstudaginn 20.júlí um sumarið 2001 áskotnaðist mér og tveimur veiðifélögum mínum seinnipartur á fimmta svæði Eyjafjarðarár. Óhætt er að segja að mikill spenningur hafi verið í okkur enda ekki á hverjum degi sem svona dagur býðst.
Veður var sæmilegt, 12 stiga hiti, sunnanátt og sólskin á köflum. Um kl.4 vorum við klárir og byrjaðir að veiða. Við byrjuðum á stað sem kallast Torfufellsármót en einn okkar fór á stað sem að kallast Hesthólsbreiða.
Veiði var treg og eftir ca.klukkutíma höfðum ég og félagi minn ekki orðið varir en við skiptumst á með aðra stöngina. Skömmu síðar fórum við til fundar við félaga okkar og mættum við honum heldur pattaralegum með 6 punda stórglæsilega bleikju sem hann hafði fengið á Phesant Tail nr 10 á Hesthólsbreiðunni. Við prófuðum nokkura staði á neðri hluta fimmta svæðis en ekkert gekk. Strákarnir ákváðu að prufa á efrihluta svæðisins en ég þráaðist við og hélt aftur niður að Torfufellsármótum og sagði við sjálfan mig að nú skyldi reynt til þrautar. 1 og 1/2 tíma síðar var ég ekki búinn að fá högg og þó búinn að reyna ýmislegt.
Ég hef reynt að tileinka mér andstreymis veiðiaðferðina á undanförnum tveimur árum og oft gengið vel en stundum miður en þarna þegar klukkutími var eftir af vaktinni fannst mér eins og “upstream” væri það eina rétta. Ég skoðaði aðstæður gaumgæfilega. Talsverður straumur og mikið vatn en tært. Vindurinn örlítið að snúast og farinn að anda að norðan. Fyrir valinu varð kúpa með 5mm koparkúlu, rauðu vínilrib og brúnum twisted dubbing kraga upp við kúluna. Örlítið gyllt holographic tinsel í broddinum. M.ö.o. “Stína” hnýtt á Kamasan öngul, Grubber nr 10 frá Árna í Árvík.
Öfugt við mína fisléttu og tágrönnu unnustu sem kúpa þessi heitir eftir var þetta eintak alger hlussa sem að steinsökk eins og ætlast var til á þessum stað. Eftir 5 mínútur fékk ég svo fyrstu töku dagsins sem var 2 punda nýrunnin bleikja.

STÍNA FER ÚT AFTUR.

Við þetta óx mér ásmegin og ég snaraði “Stínu” út í aftur. Langt kast. S.A. Windmaster línan mín rann hratt til móts við mig en ég gætti þess þó að hún næði ekki að renna framhjá mér. Allt í einu spýttist tökuvarinn minn upp strauminn og hvarf. Eins og ósjálfrátt nelgdi ég stönginni uppí loftið og………hann var á!
Og fast var tekið.
Fyrstu mínúturnar liðu án þess að mikið væri um hreyfingar. Bleikjan virtist vera að kanna styrk andstæðingsins og það sama var uppá teningnum hjá veiðimanninum sem að helt fast við en vissi sem var að fiskurinn var stór og að taumurinn leyfði ekki hvað sem var enda grannur mjög, 7 punda Kamasan.
En svo fór að draga til tíðinda. Bleikjan tók þungt viðbragð og hentist af stað niður ánna. Og veiðimaðurinn á eftir, líkt og smástrákur með fullvaxta Sankti Bernharðs hund í bandi, ráðandi ekki neitt við neitt. Þarna hefðu hlaupaskór verið betri en vöðlur. 300 metrum, klettum, flúðum og einni gaddavírsgirðingu síðar stoppaði bleikjan og snéri við. Og þá hófust átökin að nýju. Var nú mjög dregið af báðum aðilum. Bleikjan fór smám saman að láta undan síga og þokaðist nær landi en tók allt í einu roku út í miðjan hylinn, lokatilraun þessarar drottningar til að öðlast frelsi… en hún var feig. Eftir 45 mínútna viðureign renndi Rafaello magnvana sjóbleikjunni upp á sandeyri og strandaði henni. Siguróp kvað við og bergmálaði fjallanna á milli, svo hátt að Konungur apanna hefði dauðskammast sín, gripið næsta stráreipi og látið sig hverfa. Fyrir framan mig lá stórkostlegt dýr. 73 sentimetra, 9,1 punda bleikja. Fiskur sem ég var búinn að bíða eftir að fá á stöngina alla ævi.
Ég settist niður á þúfu, dauðþreyttur en óumdeilanlega sæll og glaður.
Von bráðar komu félagar mínir og tóku þátt í fögnuðinum. 12 ára gamall vökvi vætti kverkarnar og gleðin var allsráðandi þetta fallega kvöld við Eyjafjarðará.

Kveðja,

Rafaello.