Sælir og fyrirgefiði seinaganginn. Hef ekkert verið við í hálfan mánuð en ég veit, það er skömm að þessu að ég skuli ekki vera búinn að kíkja á Huga.
En, hér kemur mitt innlegg í Áskorunina….


Loksins, loksins. Ég skutlaðist upp á löggustöð í kaffitímanum og náði í skírteinið sem ég var búinn að bíða eftir í nokkur ár. Hætti fyrr í vinnunni þennan dag til að skreppa niður í Veiðihúsið til að ná í byssuna sem ég pantaði viku fyrr. Bankareikningur konunnar varð fyrir barðinu á kaupæðinu í þetta sinn, en ég spyr nú alltaf konuna leyfis hvort ég megi nota byssuna hennar svona endrum og eins… Kvöldinu var eytt í að munda, smyrja, skrúfa í sundur, setja saman, munda, og raða skotum í beltið. Veikindi voruð fyrirhuguð í vinnunni daginn eftir enda spáin mjög góð og rjúpnatímabilið byrjað. Spenningurinn hélt mér vakandi langt fram eftir nóttu og ég sá fyrir mér í huganum þvílíkar blaðagreinar og myndir um mesta rjúpnaveiðitúr sem hefði verið farinn í mörg ár í nágrenni höfuðborgarinnar. Ég þyrfti fljótlega að skipta út Subaro Justy jeppanum mínum fyrir eitthvað með meiri burðargetu. Einhversstaðar í þessum pælingum sofnaði ég þó.
5 sekúndum áður en vekjaraklukkan hringdi vaknaði ég og starði upp í loftið. Ætli ég hafi sofið yfir mig… nei, sem betur fer. Fötin lágu tilbúin og ekkert annað að gera en að vippa sér í þau, rífa út nestispakkann úr kæliskápnum, taka tilbúinn bakpokann og út í bíl. Ahhh, gleymdi að kyssa konuna bless. Það verk klárað í snarhasti og vonað að hún segði ekki góða veiði. Til þess að vera alveg hundrað prósent viss um að ekkert klikkaði þá hafði ég verið svo rosalega forsjáll að setja byssuna í bílinn kvöldið áður. Eins gott því að ég hafði ekið í 10 mín þegar mér datt byssan í hug…
Veiðisvæðið var marglabbað svæði fyrir ofan Hafnarfjörð. Ég þekkti þetta svæði frekar vel og vissi af nokkrum stöðum þar sem ég hef næstum alltaf rekist á rjúpur. Á leiðinni uppgötvaði ég að það var kannski alltof snemmt að vakna klukkan 6. Það yrði farið að birta eftir 8 og ekki var aksturinn langur. Jæja, ég myndi allavega ekki fara heim og þurfa kannski að svara einhverjum alveg fáránlegum athugasemdum frá eiganda byssunnar. Það var bara hlustað á útvarpið á meðan að beðið var eftir birtingu.
Ég ákvað ganga með hraunkanti það sem var nokkuð um kjarr. Alveg rosalega rjúpnalegt og ég ákvað að vera með tóman bakpoka til að bera þessa fimm fugla sem ég áætlaði mér að taka á þessum stað. Pokinn var allavega alveg rosalega léttur allan tímann. Sá ekki einn einasta fugl, ekki einu sinni spark. Gekk einu sinni fram á refaspor sem eru mjög algeng á þessum slóðum og velti því mikið fyrir mér hvort að rjúpan skynjaði hættuna af rebba. Hafði oft fundið staði þarna í hrauninu þar sem lágfótan hafði setið fyrir fuglum og étið allt nema stærstu fjaðrirnar.
Það þýðir ekki að vera að hangsa hérna lengur hugsaði ég og keyrði yfir á annað svæði. Þar komst ég í feitt. Eftir stutta göngu sá ég mikið spark. Spor í allar áttir í lynginu og ég fann strax að eitthvað adrenalín skot hafði farið af stað í mér. Ég hélt fastar um byssuna og augun skimuðu út um allt. Það voru litlir snjóskaflar hlémegin við steina og sumir þeirra alveg eins og rjúpur í laginu. Allt í einu stóð ég mig að verki við að hugsa um hvernig rjúpa liti nú eiginlega út… bíddu bíddu, hvað var ég að spá, allavega læddist að mér sú hugsun að ég hefði verið að labba allan morguninn og litið á þessa litlu skafla sem snjó. En hvað ef… Ok, þá ég óheppinn. Ég leit rannsakandi á alla hvíta díla hér eftir. En sparkið. Ég þræddi öll kjörr sem ég fann og nánast allstaðar var spark. Mér fannst það vera nýlegt, ekki eldra en eins dags. Það hlyti að vera 10 - 20 fugla hópur sem faldi sig þarna. Ég fór yfir stöðuna, var orðinn virkilega æstur því mér fannst alltaf að í næsta skrefi myndi hópurinn fælast og ég var ekki með neina reynslu í að skjóta á flugi. Eftir ægilega erfiðan klukkutíma andlega þá fór nú eitthvað að minnka spennan og sú staðreynd að verða sterkari að ekkert veiddist af rjúpu hérna á suðvesturhorninu. Hádegið var yfirstaðið og farið hitinn kominn vel yfir frostmarkið. Ég ákvað að halda í bílinn og koma mér heim. Ég var orðinn sáttur við túrinn. Var búinn að ganga heilmikið og skoða margt nýtt. Þegar næst yrði farið þá myndi ég fara með félaga mínum sem var reyndur veiðimaður og vissi um mörg mjög væn svæði. Svo ætlaði ég að reyna að komast yfir eitthvað lesefni og ræða við mér vitrari menn í þessum fræðum.

“Hey, sérðu, hann er aftur að koma þessi.”
“Blessuð vertu, hafðu ekki áhyggjur. Hann var hérna rétt áðan og sá okkur ekki. Hann stefnir nú reyndar alveg beint á okkur en ég skal veðja 4 berjum og 2 fræjum að hann sjái okkur ekki”.
“Það er nú ekkert svakalega langt á milli okkar núna”.
“Nei, kannski 30 metrar. Hann sér okkur ekki.”
“Eigum við ekki að fljúga núna og færa okkur aðeins lengra upp í fjall?”
“Nei, nei. Hann fer alveg að líta eitthvert annað”.
“Heyrðu Ronni, það eru ekki nema 10 metrar í okkur og og og… hann sá okkur!”
“Ætlar hann ekki að gera neitt?”
“Andsk. Fljúgum…”
“Ókei, lets gó”

Ég sá þær ekki fyrr en ég var næstum búinn að stíga á þær. Ég fraus. Mér fannst heil eilífð líða þangað til að þær flugu. Þær vorur tvær og um leið og þær lyftu sér þá fattaði ég hvað ég var að gera þarna. Ég lyfti upp byssunni, miðaði og skaut. Öryggið á og tafði mig um aðra eilífð. Skotið reið af og rjúpurnar breyttu stefnunni. Þær voru úr færi en ég skaut samt. Reyndi að fylgjast með hvert þær fóru og sá þær þræða hraunkant sem ég hafði fylgt. Á meðan að ég hlóð byssuna aftur þá varð ég var hvað ég var orðinn þvílíkt á nálum. Þetta er eitt af þeim fáu skiptum sem að maður heyrir ekkert annað en hjartsláttinn. Ég var mikið í fjallamennsku og klifri á þessum tíma og oft lent í mikilli spennu og adrenalínflæði, þetta toppaði allt. Ég hljóp af stað og fór eftir fuglunum. Ég sá ekki hvar þeir settust en ég gerði ráð fyrir því að þeir fylgdu hraunkantinum. Það var aðeins eitt sem komst að núna. Rjúpurnar áttu að enda í bakpokanum mínum. Eftir nokkurn tíma sá ég aðra rjúpuna sitja í hraunkantinum. Þetta var ekki eins og áður þegar að ég velti því fyrir mér hvernig rjúpa liti út. Hún stóð þarna reist og eins og hún biði eftir mér. Ég sá ekkert annað en þessa rjúpu. Allt annað fór úr fókus. Ég miðaði og færði mig nær. Þegar um 30 metrar voru á milli okkar þá fór hún að iða og tók stökk. Ég var búinn að taka öryggið af í þetta sinn og hleypti af. Á þessu sekúndubroti sá ég fuglinn detta niður, náði að fagna fyrsta fuglinum og fór strax að skima eftir hinum. Ég sá enga hreyfingu í nágrenninu og hljóp að rjúpunni sem að var enn á lífi. Nú þurfti að hafa hraðar hendur á að aflífa hana. Mér hafði verið sagt frá mörgum aðferðum hvernig best skuli drepa fuglinn fyrir utan það að skjóta hann náttúrulega með dauðaskoti. Einn merkur maður sem ég hlustaði mikið á braut hauskúpuna með þumalfingrinum. Annar slengir hausnum í skeftið, svo er það náttúrulega Árna Johnsen aðferðin sem ég sá í einhverjum lundaþættinum, snúa upp á hálsinn og rykkja. Ég gat ekki verið að hugsa mikið um það hvernig ég ætti að framkvæma þetta vandasama verk en ég valdi síðustu aðferðina. Allt gekk eins og í sögu, nema að ég rykkti of fast og þar með eyðilagði ég möguleikann á að eiga fyrstu rjúpuna uppstoppaða. Ég var svo forsjáll að hafa tekið með mér Moggann til að pakka inn fuglinum. Allavega komst fyrsta rjúpan mín á baksíðu Moggans…
Ég var orðinn veiðimaður og hélt heim á leið með hauslausan fugl.
Stuttu seinna fór ég á sama svæði og náði 9 fugla hóp. Og allir komust þeir fyrir í Súbarónum.


Var ekki búið að skora á Allasteina? Allisteina, það er komið að þér. ;-)