Sælir félagar.

Ætli það sé ekki best að hespa þessari “þrílogíu” af enda vart seinna vænna þar sem að janúarmánuður er næstum búinn. Í þessum þriðja og síðasta hluta verður sagt frá svartfuglaveiðiferð Rafaello og félaga.

Fimmtudaginn 12.janúar var Rafaello snemma á fótum. Hann og þrír félagar hans voru búnir að plana að fara í svartfugl og það var alls ekki laust við að gikkfingurinn iðaði af spenningi og tilhlökkun. Rafaello reif sig sem sagt upp úr rúminu fyrir allar aldir og það fyrsta sem hann gerði var gá til veðurs. Hmm…ekkert sérstakt veður hugsaði hann með sér. Sunnan strekkingur og rigning. Örlítil vonbrigði en þetta hlaut að skána. Veiðimaðurinn tók hlutunum með stóískri ró og hitaði sér kakó og fékk sér morgunverð. Nú var kominn hellidemba. Andsk…veður er þetta. Félagarnir fóru að hringja einn af öðrum…heyrðu þetta er nú bara ekkert sérstakar aðstæður! Nei, svaraði Rafaello, en við förum nú samt. Og það varð úr. Um klukkan 10:30 voru þeir kumpánar staddir á Hauganesi við vestanverðan Eyjafjörðinn. Skipperinn þeirra búinn að ræsa bátinn og kveikja upp í káetukamínunni. Heldur voru aðstæður nú lélegar til veiða af þessu tagi, ennþá rigningarsuddi og talsverð gola en heldur á undanhaldi þó og Rafaello alveg sannfæður að það myndi rætast úr öllu saman. Veiðimennir hófu nú að flytja allt sitt hafurtask yfir í bátinn og þvílíkt magn af drasli. Byssur, töskur með nesti(sem hefði dugað mánuð í Smugunni) og aukafatnaður og skot, meiri skot og aftur skot. Hreinsisett og olíur á vopnin var ómissandi hluti af gírnum. Rafaello sleit hinn hundtrygga og gullfallega Benelli upp úr töskunni og strauk henni blíðlega og mundaði eins og hann gerði ávallt fyrir veiðiferð. Því næst setti hann öryggisband frá byssunni utanum úlnlið sinn því að allur er jú varinn góður og býsna sárgrætilegt að horfa á eftir byssunni sinni í hafið ef maður rynni til og missti hana úr höndum sér. Benelli fékk því næst gríðarlegt olíubað að innan sem utan til varnar seltunni.

Rafaello var klæddur í Gore-Tex buxur og jakka og utan yfir var hann í Skeet vestinu sínu sem var með stórum og góðum vösum sem rúmuðu fullt af skotum. Jæja, rétt áður en siglt var af stað kom skarfur syndandi inn á höfnina haldandi á stóru skilti sem að á stóð SKJÓTIÐI MIG!
Eins freistandi og það var að plaffa á hann þá létum við kauða eiga sig vegna nálægðar okkar við byggðina. Engin ástæða til að fara að styggja þorpsbúa með skothríð þarna í morgunsárið. En svo var siglt af stað. Um leið og Rafaello og félagar voru komnir út úr höfninni stytti nánast alveg upp. Rafaello brosti sínu blíðasta og var hinn ánægðasti. Svona á þetta að vera hugsaði hann með sér. Félagarnir skiptu nú með sér verkum og voru tveir settir frammá til að skjóta og hinir háfuðu og voru með kíkinn á lofti í eftirlitinu. Heldur byrjaði dagurinn rólega og lítið sást af fugli nema ef frá er talinn blessaður æðarfuglinn eða pokaöndinn eins og einhver sagði. Allt í einu kallaði kafteinninn :“fugl á stjórnborða!” Kallinn í brúnni, þjakaður af reynslu hafði komið auga á fugl langt í fjarska á undan öllum landkröbbunum sem voru þó í mun betri aðstöðu til að sjá fuglinn. Tvær álkur dugguðu rólegar á 100 metrunum. Félagarnir sem stóðu frammá hættu skyndilega að segja klámbrandara og urðu hinir einbeittustu á svipinn. Þessir tveir sem að stóðu frammá voru reynsluminni á þessu sviði skotveiða en Rafaello og félagi hans sem hjá honum stóð en þeir hugðust nú sanna sig svo um munaði.
Álkurnar nálguðust óðfluga og félagarnir voru reiðubúnari en allt sem reiðubúið var. Álkurnar byrjuðu allt í einu að þenja sig út og skipperinn kallaði: Skjótiði strákar….strax!!
BÚMM BÚMM en of seint, álkurnar köfuðu á sömu stundu og félagarnir tóku í gikkina á byssunum sínum. Ha ha ha….heyrðist í Rafaello og félaga hans aftur á dekki. Aular! Skotin (í orðum:o) gengu á víxl milli félaganna en auðvitað í góðu. Þetta bara tilheyrði túrnum að punda hver á annan. En aftur að veiðinni. Álkurnar eru þannig af guði gerðar að ef að þær styggjast einu sinni eru þær erfiðari fjandinn sjálfur að eiga við. Þær koma upp úr kafi í eitt einasta sekúndubrot og ná sér í loft og svo kafa þær aftur á stundinni og eru lengi niðri og koma upp mjög langt frá þeim stað sem þær köfuðu. Þessar sluppu þó ekki og félagarnir frammá féllust í faðma (Það er náttúrlega lygi) grátandi af gleði. Einhver reitingur var af fugli en ekkert sérlega mikið líf. Eftir tuttugu mínútur skiptu Rafaello og “vængmaður” hans við byrjendurna og hugðust nú sýna þeim hvernig átti að standa að þessu, vanir menn og svona! Nú brá svo við að fuglinn hvarf nánast. Á tuttugu mínútum skutu vönu mennirnir aðeins fjóra fugla og nýgræðingarnir glottu útí annað og vel það. Á tímabili varð varla þverfótað fyrir haftyrðli en eins og menn vita er hann stranglega friðaður en oft tók hjarta veiðimannana kipp þegar þeir birtust. Aftur var skipt um vakt og siglt upp að Grenivík “City” Það þarf ekki að spyrja að því að fljótlega fylltist allt af fugli og busarnir höfðu varla undan við að hlaða framhlaðningana. Þetta var nú ekki sanngjarnt. Rafaello og félaginn voru orðnir heldur sneypulegir og gerðu nánast ekkert grín að félögunum. En svo kom þeirra “breik” með trukki. Klukkan var orðin 12:00 og skipperinn á dólinu fyrir sunnan Hrísey og skyndilega var fugl allsstaðar. Hvert sem auga var litið var fugl, langvía, stuttnefja og álka. Og nú voru jólin kominn aftur.
Á hálftíma skutum þeir hátt í 30 fugla og karlræflanir pungsveittir aftaná að háfa og snúa þá sem þurfti úr lið. Það rauk af veiðimönnunum og byssum þeirra þegar þeirra törn var á enda. VOHA..heyrðist í Rafaello. “Svona á þetta að vera!” Eftir þetta róaðist aftur yfir veiðinni og það sem eftir lifði dagsbirtunnar var þetta bara reitingur en mjög gaman engu að síður. Mórallinn var mjög góður í hópnum og allir glaðir og ánægðir. Á heimleiðinni fóru félagarnir aðeins í hávelluna og náðu nokkurum slíkum. Þar reyndi á skotfimina að taka þær á flugi og áttu menn mörg snilldar skot og önnur slakari eins og gengur. Þegar komið var í land og talið upp úr kassanum höfðust 76 fuglar uppúr krafsinu. Oft hafði veiðst meira en Rafaello og co. höfðu líka farið í slappari ferðir þannig að menn voru bara mjög sáttir við sitt og allir sannfærðir um að hafa gert sitt besta. Og hvernig var svo skotanýtingin? Tjaaa……:o)

Rafaello vill að endingu skora á hinn ágæta penna Wirehair að skrifa sína veiðisögu hér á huga.is
Það væri magnað ef að hann myndi svo skora á einhvern annan að skrifa veiðisögu og svo koll af kolli eða hvað finnst ykkur?

Bestu fáanlegar kveðjur,

Rafaello.