Sælir aftur félagar.

Þá skal haldið áfram þar sem frá var horfið. Við skildum síðast við Rafaello þar sem hann var í ágætum málum á prívat andaveiðisvæði sínu.


Rafaello taldi niður í huganum og fór svo fyrir hornið á skúrnum hægt en mjög ákveðið með Benelli í hálfgerðri Skeet stellingu. Öll skilningarvit voru þanin til hins ýtrasta og augun leituðu að bráðinni sem fyrir augnabliki síðan var syndandi á tjörn beint fyrir aftan skúrinn góða en Rafaello greip í tómt! Það var engin önd á tjörninni. Hjarta veiðimannsins barðist af ótrúlegum krafti. Adrenalínið flæddi um æðar hans sem aldrei fyrr en hvar í andsk… var Donald?? Þær höfðu varla flogið allar í burtu án þess að gefa frá sér eitt einasta kvak eða hvað?
Út úr þessari litlu tjörn lá lítill skurður í norður frá skúrunum.
Aha! Athygli Rafaello beindist nú öll að þessum litla skurði. Ef að þær eru ekki þarna þá er ég búinn að missa þær hugsaði veiðimaðurinn með sér. Hann gekk hröðum og ákveðnum skrefum í átt að skurðinum. Ýmindið þið ykkur svona svartklædda bandaríska sérsveitarmenn í Hollywood ræmu þar sem að þeir eru að koma sér í færi og göngulagið er svona frekar hratt en hljóðlaust, frekar afkáralegt en ef að fuglarnir voru þarna þá skipti hver meter máli, hann yrði að komast nær. Hittni Rafaello hafði nú ekki verið sérstök í rjúpunni þarna um daginn en nú skyldi bætt fyrir það.
Allt í einu sá Rafaello gárur á skurðinum. Það var komið blankalogn þannig að þetta hlaut að vera frá öndunum og eftir 5 sekúndur sá Rafaello tvo græna hausa koma í ljós. Þær voru í dauðafæri!
Það er margt sem kemur á óvart í veiðinni. Þarna höfðu stokkendurnar fundið á sér að það var ekki allt með felldu við þetta hrúald sem nálgaðist þær en samt einhvernvegin metið það þannig að ekki væri ástæða til að flýja í offorsi heldur höfðu þær látið nægja að láta sig síga hægt og rólega niður skurðinn og frá þessum vafasama aðskotahlut sem hafði nálgast þær. Á þessu svæði eru oft hestar og nautgripir og það er hugsanlegt að nærvera þeirra rói þær aðeins en engin skepna var þó á svæðinu í þetta skiptið, ja nema ein mannskepna sem var kominn í skotfæri við bráð sína og hugðist nú fullkomna veiðiferðina.
Hjartað í Rafaello var að komast á algerann yfirsnúning, hvað er í gangi hugsaði hann með sér, Rafaello hafði oft veitt endur áður en sjaldan verið svona gríðarlega spenntur. Ef til vill var þetta út af því að hann hafði beðið svo lengi eftir þessu augnabliki, að komast á önd heima á Íslandi? Trúlegast var það skýringin.

Grænhöfðarnir sáu Rafaello á nákvæmlega sama augnabliki og hann sá þá. Þeir frusu í augnablik og horfðust í auga við veiðimanninn og áttuðu sig á því um leið að varnarskyn þeirra hafði brugðist.
Rafaello miðaði og skaut. Annar steggurinn sem hafði náð að lyfta sér örlítið af yfirborðinu steinlá dauðskotinn. Um leið þustu ca. 10 endur lóðrétt upp í loftið Tvær endur báru saman beint fyrir framan Rafaello og guldu þess með lífi sínu en eitt skot úr modified þrengdri byssu veiðimannsins felldi þær báðar. Endurnar voru hér um bil að komast úr færi en steggur einn sem var síðastur í burtu mátti sín lítils þó að snöggur væri, gegn banvænum haglasvermi úr síðasta skoti Rafaello. Púður ilmurinn fyllti loftið og veiðimaðurinn fór yfir stöðuna. Ein öndin var særð og á leiðinni í burtu. Veiðimaðurinn hljóp í veg fyrir hana og öndin kafaði. Djöfull að vera hundlaus sagði hann við sjálfan sig og hét því í huganum að úr því skyldi bætt sem allra fyrst.
Stokköndin kom upp í gegnum smá vök í hálfgerðum krapa og virtist búin að vera. Rafaello óð útí skurðinn og tók upp særðann fuglinn. Með snöggri hreyfingu kippti hann öndinni úr hálsliðnum. Hann safnaði hinum saman og settist niður til að kasta mæðinni og skoða veiðina. 4 stykki lágu í valnum og Rafaello hugsaði með sér ég hef þá ekki gleymt öllu enn. Hann var glaður í bragði þegar hann tók bráðina upp og hélt heim á leið. Hann var búinn að fá nóg í matinn og hafði engan hug á að fara í fyrirsát. Á leiðinni heim sá hann sömu endur og hann hafði séð fyrr um daginn allnokkuru sunnar á landareigninni. Hann hugsaði með sér að þessar skyldu látnar í friði. Þær yrðu bara settar á eins og maður segir í sveitinni enda nóg komið í bili.

Það var glaður veiðimaður sem bauð vinum sínum í mat nokkurum dögu seinna í þessa fínu villibráð sem var skolað niður með úrvali frábærra rauðvína af beztu gerð.

Bið að heilsa ykkur í bili ágætu félagar,

Rafaello.

Ps: Þriðji og síðasti hluti Desemberveiða Rafaello mun birtast fljótlega hér á Huga.is og verður þar fjallað um svartfuglaskytterý Rafaello og félaga. Stay Tuned!!