Þetta er heimildaritgerð sem ég gerði fyrir íslensku og ég vill leyfa fleirum að njóta hennar.

Elliðaárnar eru staðsettar í miðri Reykjavíkurborg. Ekki neins staðar utan Íslands eru laxveiðiár innan borgarmarka höfuðborgar landsins. Þekkt saga ánna nær aftur til 13. aldar. Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um sögu og veiði í ánum.

Elliðaánum er fyrst getið í skjölum frá því árið 1234. Þar er sagt að Viðeyjarklaustur eigi árnar og allan veiðirétt í þeim. Veiðirétturinn hélst óbreyttur allt fram til ársins 1550, við siðaskipti. Þá eignaðist konungur öll klaustur landsins og allar eignir þeirra, þar á meðal Elliðaárnar. Konungur nýtti sjálfur veiðiréttinn í ánum fram til ársins 1757 þegar Þorbjörn Bjarnason og Halldór Bjarnason leigðu veiðiréttinn í ánum fyrir 11 ríkisdali á ári. Á árunum 1800 – 1848 seldi konungur jarðirnar sem lágu að ánum. Um það leiti spruttu upp fyrstu deilurnar um ánar upp. Eigandi Ártúna, Ditlev Thomsen vildi meina að veiðiréttur í ánum hefði fylgt með jörðinni en konungurinn var ekki á sama máli. Ditlev Thomsen fór í mál við konung árið 1848 og endaði það með því að hann fékk veiðiréttinn keyptan af konungi fyrir 1250 ríkisdali. Við fráfall Ditlev’s eignaðist sonur hans, H. Th. A. Thomsen veiðiréttinn í ánum. Árið 1885 bauð Thomsen Reykjavíkurbæ árnar til kaups fyrir 12.000 kr. en Reykjavíkurbær var með forkaupsrétt á ánum. Reykjavíkurbær hafnaði tilboðinu. Þá keypti Englendingur að nafni Payne ánar fyrir 3.000 bresk pund. Það var síðan árið 1906 sem Reykjavíkurbær keypti árnar af Payne fyrir 8.000 pund. Á næstu árum leigði Reykjavík veiðiréttinn til ýmissa aðila. Daginn sem Stangaveiðfélag Reykjavíkur var stofnað, 19.maí 1939 leigði Reykjavík þeim árnar en Stangaveiðifélagið hefur haft þær á leigu síðan.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Yfir tuttugu brýr eru á ánum. Fyrstu brýrnar standa enn, ekki þó í frumgerð sinni, heldur í endurbættri útgáfu. Brúarstöplar hafa verið hækkaðir og brúargólf steypt, en að öðru leyti er um sömu mannvirki að ræða. Elstu brýrnar voru trébrýr á hlöðnum stöplum og er sú yfir vestari kvíslina sú hin sama og ekið er yfir þegar komið er að veiðihúsinu rétt ofan við Sjávarfoss. Brúin yfir eystri kvíslina stendur enn og liggur yfir ána á ská og er næstneðsta brúin yfir ána. Þessar brýr stóðu báðar í hinni upprunalegu mynd sinni til ársins 1920 en voru þá endurbættar. Árið 1941 voru árnar enn brúaðar á þessum slóðum. Nú héldu tvíbreiðar brýr innreið sína, eystri brúin var byggð fast við þá gömlu en sú vestari færð neðar. Eru báðar þessar brýr enn í notkun og eru næst sjónum. Næst voru Elliðaárnar brúaðar árin 1969 til 1970 og aftur 1996. Vesturkvíslin var lögð í stokk árið eftir. Þær brýr eru mikil mannvirki og nú eru alls átta akreinar yfir Elliðaárnar á þessum stað, á móti einni akrein árið 1940. Sýnir það vel hvað umferð hefur aukist.

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Þaðan var raforkunni dreift eftir leiðslum sem lágu neðanjarðar að 8 spennibreytistöðvum. Standa þrjár þeirra stöðva enn. Frá þessum stöðvum var rafmagnið leitt til kaupenda. Bygging rafstöðvarinnar við Elliðaár átti sér nokkurn aðdraganda og um verkefnið risu deilur. Meðal annars voru uppi hugmyndir um að veita Elliðaánum yfir í Grafarvog og nota Rauðavatn sem uppistöðulón. Var sú leið af sumum talin heppilegri vegna þess að þannig fengist meiri orka. Ýmsir voru á móti, vegna þess að veiði í Elliðaánum myndi spillast. Niðurstaðan var sú að Elliðaárnar voru virkjaðar á þann hátt sem sem nú má sjá, en hætt var við að veita ánum yfir í Grafarvog. Er vatn tekið úr miðlunarlóni við Árbæ, en Árbæjarstífla heldur uppi vatnshæð á vetrum. Vatnið er leitt eftir pípu neðanjarðar frá lóni og niður í rafstöðina þar sem því er veitt í gegnum hverfil og raforkan þannig framleidd með vatnsaflinu. Raforka er aðeins framleidd yfir vetrartímann, en vatn fellur óhindrað um Elliðaárnar yfir vor-, sumar- og haustmánuði. Í rafstöðinni má sjá tækjabúnað sem er sá elsti sinnar tegundar á landinu sem enn er í notkun.

Veiðin í ánum hefur ávallt verið mjög breytileg á milli ára þó að sum tímabil hafi verið betri en önnur. Fram til 1885 var aðeins veitt í laxakistur og með ádrætti neta. Laxakistur virkuðu þannig að laxinn synti inn í kistuna sem lokaðist þá og var vitjað um laxinn í kistunum á kvöldin. Sumarið 1807 fengust fleiri en 10.000 laxar í kisturnar. Síðan Bretinn Payne keypti árnar (1885) hefur aðeins verið stunduð stangaveiði í ánum fyrir utan örfáar undantekningar. Tímabilið frá því að Payne keypti árnar þar til virkjunarframkvæmdir hófust fyrir alvöru í kringum 1920 hefur verið nefnt gullöld Elliðaána. Fyrsta sumarið sem Payne var með árnar á leigu veiddust aðeins 12 laxar. Næsta ár veiddust 1012 laxar. Fjöldi veiddra laxa óx smátt og smátt allt þar til virkjunarframkvæmdir hófust í ánum en þá hrundi veiðin. Eftir að árnar voru virkjaðar þá hófst markvisst ræktunarátak og með því tókst að hífa veiðina upp.

Laxveiði í ánum hefur síðan þá ekki náð álíka hæðum og áður fyrr. Árið 1995 kom svo upp kílaveiki í ánum og minnkaði þá laxagengd í árnar svo um munaði. Sést það best á því að árið 1996 sem var seinna ár kílaveikinnar veiddust um 1200 laxar en árið eftir, 1997 voru laxarnir aðeins um 500. Árnar hafa ekki enn náð sér á strik og hefur veiðin ekki orðið meiri en 500 laxar fyrir utan síðasta sumar þegar brá til betri tíðar og 948 laxar veiddust í ánum.

Í Elliðaánum þrífst merkilegt lífríki og sérstakt miðað við það að árnar eru í miðri borg. Sé vel um árnar hugsað og hlúð að umhverfi þeirra mun lax áfram ganga í árnar til hrygningar. Þó veiði hafi verið sveiflukennd á síðustu árum og afar lítil veiði sum árin sem gæti bent til þess að árnar væru að verða fisklausar af mannavöldum, gefur veiðin á síðasta ári tilefni til bjartsýni. Tæplega 1000 veiddir laxar síðasta sumar sýnir að hægt er að halda Elliðaánum við með góðri umgengni veiðimanna og borgarbúa.

Heimildaskrá

Ásgeir Ingólfsson, Elliðaárnar, 1986, Ísafold
Heimasíða Stangveiðifélags Reykjavíkur, http://svfr.is/template1.asp?PageID=30,
6. febrúar 2006 (höfundur ekki skilgreindur)
Allt hefur enda, pylsa hefur tvo.