Jæja. Veiðisumarið mitt var ekkert spes en samt.


Ég bý á sveitabæ sem á land að einni bestu veiðiá landsins, Norðurá. Það var svolítið gaman að sjá alla veiðimennina koma og veiða og það lá við að maður öfundaði þá.

Þar sem ég á ekki laxastöng gat ég ekki veitt í ánni og varð því að láta mér nægja að fara upp í Fiskivatn, sem er í okkar landareign. Önnur vötn eða tjarnir eru Hólmavatn, Lómatjörn og Flikkistjörn (Draugatjörn).

Stöngin mín er fín en hana hafði ég fengið í afmælisgjöf frá mömmu og pabba á seinasta ári.

Ég fór oft upp í Fiskivatn og veiðin var mjög góð.

Í fyrsta skiptið þá fór ég í ljósaskiptunum með mömmu, systrum mínun tveimur og vinnumanninum.

Aðstæðurnar voru frábærar, logn og sólin var að setjast. Sem sagt bestu aðstæður sem maður getur hugsað sér.

Veiðin lét ekki á sér standa, Birgir (vinnumaðurinn) kastaði út með maðk og það beit strax á, ég er ekki að tala um að það hafi verið kastað út og svo hafi þurft að bíða heldur bara beit strax á. Þetta kom mjög á óvart því ekki hafði veiðst nema svona einn fiskur á seinustu árum.

Næst var komið að systur minni. Hún fékk að kasta út á minni stöng og það var alveg eins og hjá Birgi, það beit strax á. Þetta voru fínustu fiskar, 25-35cm langir og allt upp í hálft kíló. (pund á veiðimáli) Næst veiddi Birgir aftur eins stóran fisk en í millitíðinni hafði hann misst fisk sem var svona 50-60cm og 1 1/2 kíló! Fjári gott miðað við að ekkert hafði veiðst þarna lengi.

Allt í einu hættur þeir að bíta á því þeir voru greinilega að ganga, voru allt í einu komnir hinum megin við vatnið. Svo við fórum þangað. En þá ákváðu mamma og yngri systir mín að fara heim að sofa en við máttum vera í hálftíma í viðbót.

En hinum megin var þetta eins og í byrjun, þeir bitu strax á og þar fengum við 3 í viðbót áður en við fórum heim. Veiðin frábær, 6 silungar, en við hefðum verið ánægð með 1-2. Þannig fór fyrsta ferðin.

Fyrir næstu ferð fóru veiðimenn upp og komu til baka með 30 þannig að vatnið var greinilega vaknað til lífsins!

Á afmælisdeginum mínum fórum ég, afi (formaður veiðifélagsin) systir mín og Sigurjón frændi minn fórum við upp í sama vatn. Sól skein í heiði en vindurinn var rosalegur og veiðin var eftir því, einn fiskur sem frændi minn tík og var þessi veiðiferð ekki mjög skemmtileg því að það var kalt og erfitt að veiða. Svo þannig byrjaði afmælisdagurinn minn.

Á sama dag ákváðum við að fara í Hreðavatn semm er nokkra kílómetra frá en þangað er hægt að fara á bíl. Veiðin þar var heldur léleg enda vatnið ókyrrt. En samt tókst mér að veiða eina smábröndu sem ég sleppti svo enda var hún ekki upp í nös á ketti. En það sem mér fannst meira skemmtilegt en að veiða hana var að þegar við vorum að fara heim þá átti ég að draga inn. Og hvað haldiði að hafi gerst? Einhvern vegin tókst mér að húkka annan titt en þarst sem þetta var síðasta kast var ég bara að draga inn á fullu og fattaði ekki nógu og fljótt að ég væri með hann á svo ég missti hann. Þannig veiðin var ekki góð en ég skemmti mér vel.

Næst þegar ég fór að veiða fór ég með frænda mínum og mömmu hans og Tuma sem er hundur frænda míns. Þetta var bara daginn eftir afmælisdaginn minn.

Mamma Sigurjóns (frænda míns) var heldur fúl því Sigurjón hafði sagt að leiðin væri eiginlega bara á jafnsléttu en hún er eiginlega bara upp í móti! Þannig að hún ætlaði bara að fara eftir korter og þá hefði ekki verið neitt gaman að veiða. En ég reddaði deginum með því að veiða einn smátitt sem ég sleppti svo. En á þessum stutta tíma sem eftir var af veiðiferðinni náðum við samt einum í viðbót. Þannig veiðin far fín miðað við veðrið.

Seinasta veiðiferðin sem farin var á þessu sumri var sú fjölmennasta. Þá fórum ég, systir mín, afi minn, Kata systir mömmu, fyrrnefndur frændi minn og faðir hans sem er bróðir systur minnar.

Fyrst byrjuðum við í fyrrnefndu Fiskivatni og veiðin var ekki góð, einhverjir 2 fiskar. Þannig við ákváðum að fara í Lómatjörnina og þar var veiðin góð miðað við stærð hennar en hún ætti eiginlega bara að heita Lómapollur. Þarna veiddust 5! í viðbót en í þessari tjörn geta fiskarnir sloppið með því að synda undi bakkana og veiðin því góð miðað við það.

Þetta var veiðisumarið mitt!

Og reyna svo að lífga þetta áhugamál við!!