Skrímsli" í Veiðivötnum Fyrir nokkrum árum vorum við nokkrir góðir veiðifélagar við veiðar í Veiðivötnum. Góður dagur var kominn að kveldi og flestir búnir að setja í´ann, þreyttir og ánægðir með dagsskammtinn og lagðir af stað heim í skála.
Litlisjór glitraði rólega og fallega í hálfrökkrinu. Við komum að lítilli vík við suðvesturenda vatnsins og ákvað ég að stoppa þar aðeins og njóta þess sem fyrir augu bar. Við víkina er aðdjúpt og veiðilegt svo freistingin að kasta “einu sinni”, þar sem klukkan er ekki alltaf háheilög á öræfum, varð þreytunni yfirsterkari og uppástunga um að prófa var samþykkt einróma.

Stangirnar dregnar fram og augnabliki seinna svifu spónar og annað agn á vit ævintýranna og sukku í djúpið…. Það er önnur veröld í rökkrinu og fær á sig ævintýralegri blæ en í dagsbirtunni og hugsunin um “þann stóra” gerir enn frekar vart við sig. Hvað ef það væri nú í vatninu fiskur sem væri orðinn tvítugur, eða eldri, algjör hvalur!
Maður gæti alveg eins lent á slíku eins og hver annar. Eitthvað svona rosalegt sem yrði veiðisaga næstu áratuga….

Það var í þankagangi eitthvað þessum líkum sem ég var að draga færið frekar rólega og á eftir nokkra metra í land. Mér fannst vera eitthvað skrítin bára sem fylgdi eftir og var viss um að nú væri hann að elta og bjóst við töku þá og þegar. Eftir augnablik greindi ég “eitthvað” á eftir spæninum og þ v í l í k ófreskja.

- Hér þarf ég að taka fram að þetta er heilagur sannleikur og lýsingin hér á eftir er eins sönn og sú staðreynd að ég sit hér við lyklaborðið og rifja upp þennan atburð. -

Ég horfi ofan á bak skepnu á að giska þrjátíu til fjörutíu sentimetra breitt og risastóra eyrugga sem stóðu allavega tuttugu sentimetra út frá hvorri hlið.

Ég rak upp stríðsöskur, öskraði og gólaði á strákana því öðrum hljóðum kom ég ekki upp. Hjartað í mér hamaðist eins og túrbína og eldur logaði í augunum á mér. Ferlíkið sneri við í fjöruborðinu og hvarf í myrkt djúpið aftur hljóðlaust.
Ég dansaði stríðsdans í vatnsborðinu og reyndi að gera mig skiljanlegan við strákana sem skildu ekkert í hvað komið hafði fyrir mig. Hálf óður af veiðibræði kastaði ég aftur eins langt og ég gat, lengra en nokkrusinni áður. Nú var dregið inn af meira kappi en áður og spenningurinn gjörsamlega kæfandi. Ævintýrin gerast á fjöllum og það ótrúlega gerðist………. Ferlíkið var enn á eftir hjá mér. Stærðin eins og lýst var og nú var mikil fart á flykkinu, stórt, breitt og SPIKFEITT.
Aftur hvarf “stykkið” hljóðlaust ofan í dimmt djúpið. Mér var öllum lokið. Nú sáu strákarnir þetta líka svo ekki var ég að verða vitlaus. Þögn sló á mannskapinn og allir góndu hver á annan og ofaní djúpið til skiptis eins og til að þykjast svo klárir.

Fjórir veiðimenn köstuðu nú sem óðir væru út á vatnið og hver hugsaði með sér að þetta væri nú einum of ýkt til að vera sannleikanum samkvæmt. Þögnin og vælið í Himbrimanum var samofið í fallega mynd.

Ekkert truflaði þetta ævintýri í rökkrinu góða stund eða þangað til skyndilega stakkst upp úr vatninu skammt frá landi “ferlíkið okkar” sem svaraði væli hins Himbrimans hraustlega og fallega.

Hann getur verið yndislegur “kvikindið” Himbriminn.
Kristján Karl Steinarsson