Það ber stundum við að fólk segi mér finnst þær skemmtilegar eða viðlíka, og ég vildi færa rök fyrir því að þetta mætti betur segja mér finnast þær skemmtilegar.

Algengasta uppbygging setninga er að eitthvað gerir eitthvað, í þeirri röð. Ég elda mat, þú byggir hús, hún skrifar bók. Fyrra fallorðið, frumlagið, er haft í nefnifalli og það seinna í einhverju aukafalli, þannig sést hver er að vinna á hverjum. Köttur eltir hund snýst við í hundur eltir kött. Þannig má líka endurraða orðunum án þess að ruglingur eigi sér stað, svo “Gunna eltir Sigurð” þýðir það sama og “Sigurð eltir Gunna”.

Sagnorðið tekur svo á sig tölu frumlagsins. Bíll keyrir hratt verður bílar keyra hratt.

Ef það er komið á hreint er hægt að greina setninguna mér finn(a)st þær skemmtilegar. Hérna er ég í þágufalli, svo ég er ekki frumlag setningarinnar. Þær eru aftur á móti í nefnifalli, og því frumlag. Af einhverjum ástæðum hafa Íslendingar vanið sig á að segja þessa setningu afturábak miðað við flestar aðrar. Hvað sem því líður er ljóst að þær stjórna tölu finnst, og því finnast mér þær skemmtilegar, bananar finnast mér góðir og okkur finnst te gott.

Til gamans er hægt að spá í hvernig þetta orðtak varð til, en það finnst í þýsku og ensku líka. Fyrir mér hljómar það þegar ég segi mér finnst epli vont eins og ég sé á labbi í endalausri eyðimörk og finni epli sem er vont. Það finnst mér vont.