Faðir minn fæddist og ólst upp í Þýskalandi, nálægt landamærunum við Holland, í smáu sveitaþorpi. Þar er töluð mállýska sem er kölluð Plattdeutsch (innfæddir kalla hana bara Platt), sem mætti kalla flatlendisþýsku. Norður-Þýskaland er enda svipað flatlent og Danmörk, sem stendur uppúr því. Eitthvað lærði ég af þessari mállýsku, og þegar kom að dönskukennslu í grunnskóla hjálpaði það mér nokkuð, því Platt er mikið líkara dönsku en háþýska. Síðar, þegar ég komst í tæri við hollensku, kom mér aftur á óvart hve svipuð hún var mállýsku heimahaganna.
 
Stundum þegar Bæverja, Suður-Þjóðverja, barst í tal, minnist faðir minn á hversu óskiljanleg þýskan þeirra er. Í heimsókn minni til Vínarborgar fékk ég reynslu af þessari suður-þýsku, sem er nokkuð ólík norður-háþýskunni sem ég kann, og mállýskan í Bæjaralandi er sennilega enn ólíkari.
 
Loks starfaði í fyrra franskur vinnumaður heima sem lýsti því hvernig Frakkar nærri þýsku landamærunum töluðu mállýskur sem væru mikið líkari þýsku en frönsku. Þetta þarf raunar ekki að koma á óvart, enda hendingu háð hvort umrædd héruð hafi verið undir þýskri eða franskri stjórnsýslu undanfarnar aldir.
 
Allt ber þetta að sama brunni. Mállýskur eru ekki vel afmarkaðar landfræðilega, heldur mynda þær samfellu, sem er mögulega hvöss sums staðar, en annars staðar - svosem í Mið-Evrópu - má varla greina muninn frá þorpi til þorps, þar til maður skilur ekki lengur mállýskuna sem þorpsbúarnir tala. Samkvæmt einni skilgreiningu hefur maður þar annað tungumál, þar sem gagnkvæmur skilningur er ómögulegur.
 
Nú til dags, með stöðluðu menntakerfi, er mælendum mállýsku komið á svið sameiginlegrar tungu. Sú tunga er álitin fínni, er útbreiddari í borgum og er nánast alráð í fjölmiðlum. Íslendingar kannast eflaust margir við breska sjónvarpsþætti, sem eru oft leiknir af Bretum útskrifuðum úr betri háskólum landsins á hinni velkunnu drottningarensku. Sveitamállýskurnar eru álitnar gamaldags og hálfvandræðalegar, nokkuð sem faðir minn varð var við þegar hann fór í háskóla í Oldenburg.
 
Þessi stéttaskipting tungumála er arfleið nýlegrar byltingar, en á sér þó gamla mynd.
 
Forðum daga, í Evrópu miðalda, var ekkert nema mállýskusamfella meðal jarðræktenda álfunnar. Hin rómantíska sýn á "þjóðina" hafði ekki verið skálduð upp enn, og einu líkindin við hana mátti sjá í samstöðu landeigendanna - fursta, prinsa,* baróna og slíkra manna. Samstaðan einkenndist af fjölskyldutengslum, sameiginlegum konungi (sem þeir kusu sér oft á tíðum) eða sameiginlegri trú. Borgir voru aðsetur valdastéttarinnar. ("Burg" er þýska fyrir "kastali", og borgir mynduðust oft sem ítrekuð útþensla varnarmúra kastalanna.) Við hertöku landa var verkamannastéttin, jarðræktendurnir, oftast látin óáreitt. Þannig gat tungumál yfirstéttarinnar og þar með borgarinnar breyst, en almúginn haldið sínu. Til gamans má geta að orð eistneskra sveitabúa fyrir "landherra" var á nítjándu öld "saks", eða "Saxverji".
 
"Lönd" voru þannig best skilgreind sem svæði undir stjórn sama konungs, og sem slíkt var Frakkland þeirra stöðugast. Þýskaland, aftur á móti, var löngum sundurbrotið í fjöldamörg konungdæmi. En jafnvel þótt Frakkland væri eitt land gilti um það eins og önnur svæði að almenningur talaði hinar ýmsu mállýskur.
 
Eftir innrásir Napóleons í Prússland lagði einn fyrirmenna þess, Freiherr vom Stein, til, að listamenn myndu móta og ýta undir sameiginlega þjóðarímynd Þjóðverja. Í raun þýddi þetta að finna skyldi upp þjóðina með misáreiðanlegum tilvísunum í sameiginlega forsögu. Til þess stofnaði vom Stein Gesellschaft für ältere deutsche Geschichtskunde í samstarfi við ekki ómerkari menn en Wilhelm von Humboldt, Göthe, Grimm bræður og fleiri.
 
Grimm bræður söfnuðu þjóðsögum vítt og breitt um það sem nú er Þýskaland í þeirri trú að náin tengsl væru milli menningar og máls. Þessi trú var útbreidd meðal þýskumælandi menntamanna, meðal annars Jóhanns Gottlieb Fichte, sem sagði að germanskt mál væri náttúrulegra og kæmi mælendum þess í betri tengslum við náttúruna, því það væri enn talað þar sem það átti uppruna sinn. Annað gilti um Frakkland, þar sem menntastéttin talaði mál mengað af grísku og latnesku. (Þetta var misskynsamt bull.) Grimm bræður höfðu mikinn áhuga á málfræði og hófu störf á mikilli orða- og orðsifjabók árið 1838, sem ekki var lokið fyrr en 1961.
 
Þjóðernissinnuð skrif, sem höfðu þannig fengið fyrsta stuðning sinn eftir innrás Frakka (og Frakkar hófu aftur svipuð skrif af sinni hálfu eftir innrás Prússa uppúr 1870) fengu enn frekari stuðning þegar valdamenn sáu að þjóðernishyggja gat kæft byltingarvilja fólks.
 
Goðsögnin um fólk sem mælti sama mál og myndaði saman þjóð að eigin frumkvæði er sums staðar enn kennd nú til dags. Sannleikurinn er hins vegar sá að valdamenn sáu útbreiðslu sameiginlegs máls, sameiginlegra goðsagna og sameiginlegrar listar sem verkfæri til að skálda hana upp. Þjóðernissinnaðar hreyfingar mælast oft fyrir því að horfið sé aftur til hreinnar þjóðar, með sameiginlegt mál og sameiginleg gildi. Sú fortíð sem þær leita eftir er ekki til staðar.
 
Eftir situr spurningin hvort sameiginlegt mál sé til góðs. Það er vissulega hagkvæmt, sérstaklega fyrir stofnanir sem þrífast á upplýsingamiðlun. Vísindin eru ein slík, og það mál sem þau hafa tileinkað sér er enska, þó áður hafi það verið þýska, franska og enn fyrr latína. Mögulega væri nóg fyrir sakir hagkvæmni að hafa eitt sameiginlegt mál, og viðhalda annars mállýskum. Þannig mætti sleppa tökunum af háþýsku, frönsku og drottningarensku. En hvort það sé gott eða gerandi læt ég ósagt.
 
* "Prins" og "fursti" þýðir það sama, á mismunandi tungum: hinn fyrsti. "Fürst" er þýska og dregið af sama stofni og "fyrstur", "prins" er dregið af latneska "princeps", sem er aftur samsett af "primus" (fyrstur) og "capio" (að taka). Orðið hefur verið notað bæði yfir þá sem fyrstir eru í röð þeirra sem tilkall eiga til krúnunnar, sem og um ráðamenn út af fyrir sig.