Ég elska tungumál. Samt er ég ekki endilega mælskur - ég forðast orðafár, er frekar orðafár. Innihaldslaust þvaður gert til þess eins að veita hátalaranum unað eigin raddar er rispa á geisladisk lífs míns. En áferðarfagrar setningar og lipur tilsvör, merkingarþrungið margrætt muldur og snarpir orðaleikir eru mitt menningarlega manna.

Fyrr í dag tók ég kartöflusekk frá síðasta hausti úr geymslu til að fjarlægja af kartöflunum spírurnar. Pokarnir voru ofnir saman af spírum og kartöflurnar sömuleiðis. Úti í sólinni braut ég spírurnar af kartöflunum, einni af annarri, og fékk orðið andablanda á heilann. Var það hin fullkomna þýðing á gríska orðinu sem í ensku útleggst sem pandemonium? Pan- merkir al- eða víð-, eins og í panorama og pantheism, en demonium merkir djöfla. Það má segja að pandemonium brjótist út í brotlentri brennandi flugvél, eða á dansgólfi skemmtistaða á góðu laugardagskvöldi. En andablanda náði ekki að fanga meinsemdina í demonium, svo til að láta orðið ekki fara til spillis fór ég að föndra. Nokkrum tugum kartafla seinna hafði ég það. Setningin lýsir því sem margar þjóðir segja sína eigin sérstöku leið til að fást við vandamál, hin íslenska meðtalin. Til að setja sviðið getum við sagt að þjóðin eigi í trúarlegum vanda. Standi landinn í andavanda blandar hann vínanda í landa handa vandamönnum, andar djúpt, grandar landanum og segir brandara.

Finnist einhverjum trúarlegur vandi ósennilegur að valda þess háttar viðbrögðum má segja að eitthvað hafi hlaupið á snærið hjá þjóðinni - þá verður andavandinn bandavandi.

Þetta er náskylt samtali sem ég átti við vinkonu nýlega, eftir að hafa gengið fram á vörðu - einvörðungu lítilsverða óvarða vörðu.

efaði drafaði bifaði
Benjamín: Valdi valdi vörðuvörð.
Ólöf: Valdi varð valdur að vali á vörðuverði.
Benjamín: Var varavörðuvörðurinn var um sig?
Ólöf: Varavöruvörðurinn varði sig vali Valda vandlega.
Benjamín: Valalið verði vörður Valda vel, væri varavörðuvörðurinn ekki værukær.
Ólöf: Ha?
Benjamín: Vera varavörðuvarðarins við vörðuna er virðingarverð, þó verri en ef varðan væri varin af Valda. Því vald Valda á vörðum er verulegt.
Þetta er ýkt form á ritstíl sem mér finnst mjög skemmtilegur, stuðlað og rímað mál. Einfalt dæmi er “frá Höfðaborg til Húsavíkur,” vægir orðaleikir sem gera skrif sagnfræðingsins Niall Ferguson skemmtileg.

Önnur tegund orðaleikja nýtir margræðni. Eftir langa veru í sólinni, búinn með kartöflupokann, varð mér það á að klóra mér vítt og breitt á sólbrunnu bakinu í algeru lostakasti. Ég lét mér það að kenningu verða þegar ég hné niður hálfgrátandi af kláðanum sem braust út að nokkrum sekúndum liðnum og hugsaði með mér að klóra sér í sólbruna er svo gott og svo vont. Skyndilega fattaði ég að að klóra sér í sólbruna er svo gott-og-svo-vont.

Við mjög einfalda vinnu fæ ég svo stundum orð eða frasa á heilann sem eru ekki sérstaklega fyndnir en grafa um sig. Svolítið eins og líkormar. Óðinn óð inn, Óðinn óð inn, Óðinn óð inn… óð Óðinn inn? Inn óð Óðinn óður… Afrakstur eins dags þar sem ég strekkti girðingarvír var ég er mun-minni en mig minnti. Mér fannst það svo sniðugt að ég setti það á Facebook, og fékk svarið “munnminni?”
Já, munnur minn er orðinn mynni :( Mun minna munn-mynni en manna minni muna.
Orð sem hefur sótt á mig lengi er svefndrukkinn, sem mér finnst frábært, enda lýsir það vel áhrifum þreytu - til dæmis svefngalsa. Orðið galsi er svo aftur anagramm (endurröðun stafa) af glasi, sem býður upp á ég er í svefnglasi. En anagrömm galsi eru ekki þar með talin. galsi í glasi, lagsi! sliga alsig þig? er betra að sigla?
Orðabækur Sverris Stormsker voru mér mikil skemmtun þegar ég rakst á þær á bókasafni sem krakki. Tvíræðni margra orða í íslensku gerir þau auðveld til skoplegrar mistúlkunar, eins og að kalla kynferðisafbrot rúmmál og atvinnuleysi lögfræðinga kæruleysi, en nýyrði eins og riðrildi með augljósri merkingu eru líka áhugaverð. Mér þykir það miklu skemmtilegra orð en kynlíf, rétt eins og mér finnst stunda kynlíf óendanlega hjákátlegt og vandræðalegt orðafar. Ríða og riðrildi eru miklu meira viðeigandi, og það síðarnefnda ekki síst því það líkist bæði rifrildi og fiðrildi, sem og auðvitað ríða.

Ég gæti haldið þessu áfram í allan dag, en læt frekara orðaleikjanurl bíða betri tíma. Tími til kominn að fara að vinna og leika sér með orð.