Nú er nýlokið handboltaleik íslenska og austurríska landsliðsins í þeirri íþrótt, sjónvarpað af Rúv. Leiklýsendur liggja undir miklu álagi að miðla til okkar einhverju gagnlegu, sérstaklega þar sem maður sér flest sem þeir geta sagt frá á skjánum. Það þarf því ekki að koma á óvart að undarlegt orðalag einkenni lýsinguna, þar sem í fumi er gripið til orða og þeim útvarpað áður en kastljósk skoðun hefur farið fram á þeim. Þetta er allt skiljanlegt og auðfyrirgefið. En þegar leiklýsandinn segir fjölmörgum sinnum, undir allt að því engu álagi, við öll möguleg tækifæri, án nokkurrar eftirsjár, að menn hafi “gert mörk”, þá verður maður ergilegur.

Vandamálið er ekki að þetta sé óvitræn framsetning á umræddum atburði – vissulega er markið gjörð. En þegar leiknum var lokið höfðu Íslendingar ekki gert sigur, þeir unnu, eða, ef maður er í þannig skapi, sigruðu. Maður gerir jú ekki sund, maður syndir. Það mætti afsaka Einar Örn, sem lýsti leiknum, fyrir þessa yrðingu ef hún væri einhvern veginn auðsagðari eða auðskildari en að skora. Það er hún ekki. Hún er bara asnaleg.

Öðru máli gegnir um fjöruga lýsingu hans á því hvernig Alexander Petersson “fíflaði” austurrískan markvörðinn. Það er sérdeilis lífleg líking.