toki pona - The simple language of good Þetta er mjög stutt og yfirborðskennd grein um toki pona en ef áhugi er fyrir get ég sent inn miklu fleiri og ýtarlegri greinar um toki pona.

toki pona er tilbúið tungumál, búið til af kanadískri áhugakonu um málvísindi, Sonja Elen Kisa að nafni og var fyrst kynnt árið 2001. Málið var hannað til þess að verða eins minimalískt og mögulegt er og útkoman er vægast sagt góð. Málið er lítið sem ekkert talað en þúsundir manna eru þó að læra málið sér til skemmtunar. Nafnið “toki pona” þýðir gott mál eða einfalt mál. Nafnið lýsir málinu vel því það er mjög einfalt og það einblínir á góða hluti. Tungumálið er sérstakt að því leyti að í því eru aðeins 118 orð. Þrátt fyrir lítinn fjölda orða er vel hægt að tjá sig, eiga hversdagslegar samræður eða mynda flóknar setningar á toki pona.

Í toki pona eru einungis 14 stafir og táknar hver stafur alltaf sama hljóðið. Stafrófið er svo: a e i j k l m n o p s t u w. Alltaf er skrifað með lágstöfum. Mörgum kann að finnast erfitt að skilja að tjá megi allt sem hugurinn girnist með einungis 118 orðum en með toki pona aðferðafræðinni er það vel hægt. Orðin 118 merkja öll einfalda hversdagslega hluti sem liggja grunnt í skilningi mannsins en flóknari orð, hugtök og tilfinningar þarf að mynda með því að púsla saman orðum: Þetta útskýrist best með dæmum:

telo = vatn/vökvi
nasa = brjálað
telo nasa = brjálaður vökvi = Áfengi

ma = jörð/land
sona = þekking
ma sona = jarðarþekking = Jarðfræði

Öll málfræði er undantekningalaus og einföld, þó getur verið erfitt fyrir þá sem hafa sjaldan eða aldrei lært erlent tungumál að læra toki pona, þar sem málfræðin er mjög frábrugðin þeirri í germönskum málum.

Nú gæti einhver hugsað með sér: Er þetta þá svipað og esperanto, interlingua eða ido? Svarið við því er nei. toki pona er enn einfaldara en öll IAL tungumálin sem eiga að vera ofureinföld. Auk þess sem toki pona byggir á því að talendur temji sér afar sérstakan pona hugsunarhátt.

Vonandi höfðuð þið gaman að.

Síður tengdar toki pona:
Opinbera toki pona síðan: http://www.tokipona.org/
Heimasíða Sonja Kisa: http://www.kisa.ca/
Kennsluefni í toki pona: http://tokipona.esperanto-jeunes.org/lesson/lesson0.html
Tenglar á ýmsar aðdáendasíður: http://www.tokipona.org/lipupijanante.html