Oftar en ekki þegar fólk er beðið um að hugsa um eitthvað framandi og erfitt tungumál þá kemur því til hugar kínverska. En ekki eru margir sem gera sér grein fyrir hverslags tungumál kínverskan er, hverjir eru það sem tala tungumálið, hvar og af hverju.

Kína er margslungið menningarríki sem hefur mótast í aldirnar fyrir tilverknan útþennslustefnu keisara, styrjalda og ýmissa byltinga. Landið er fjölþjóðlegt; innan landamæra þess eru varla hægt að tala um einhverja einsleita þjóð sem kallast kínverjar og tali eitthvað tungumál sem kallist kínversku. Raunin er sú að þjóðarbrotin í Kína eru fleiri en 50 og talar hvert og eitt sitt eigið tungumál og svo eru óendalegar mállýskur til af hverju tungumáli. Ein þjóðin er engu að síður lang stærst. Um það bil 90% íbúa Kína eru af Han þjóðerni. Hanverjar tala Hantungu sem er heldur varla hægt að tala um sitt eitt tungumál. Hantunga skiptist í fjölda mállýska sem innbyrðis geta verið jafn ólík og enska og spænska. Helstu mállýskurnar sem eru talaðar eru tvær; Kantónska, töluð í Suður Kína, kringum borgina Kanton sem hún er kennd við og Hong Kong, hin er Putonghua, eða hið hefðbundna mál, sem er ríkismálið og stundum kölluð á vesturlöndum Mandarín.
En hvað eiga þessir ólíku málhópar sameiginlegt sem réttlætir það að þeir eru stundum kallaðir einu nafni kínverska. Jú, þeir eru nefnilega allir af sömu rót runnir og eiga eitt sameiginlegt ritmál, það sem við köllum kínversk tákn. Allir kínverjar, sama hvaða tungumál þeir tala, geta lesið táknin.

Nú hef ég ekki lært Kantonsku og ætla því bara að tjá mig um Putonghua í þessari grein. Putonghua er aðallmál u.þ.b. 800 milljón manna og því eitt víðtalaðast mál jarðarinnar. Jafnframt má segja að allir kínverjar kunni eitthvað í því, því Putonghua er tungumál stjórnvalda. Kínverjar eru 1,3 milljarðar manna. Málið var upphaflega embættismannamál hirðarinnar á tímum síðustu keisaranna í Qing ættinni. Qing keisaraættin var ekki af Han þjóðerni heldur upprunin úr Mansjúríu og gætir því töluverðar áhrifa þaðan. Jafnframt er aðalmiðstöð hennar höfuðborgin Peking. Peking er afar nálægt Mongólíu og var undir áhrifavaldi mongóla um aldir. Það eru því harðir og kaldir vindar sem blása um tungumálið sem gerir það ólíkt hinni suðrænu Kantónsku.

Ritmálið er mörgþúsund ára gamallt og miklu eldri en mállýskan sjálf. Erfitt er að skilja tungumálið til hlítar nema skilja ritmálið. Ritmálið hefur mikil áhrif á talað mál og öfugt og erfitt að greina þar á milli. Ritmálið samanstendur af ferköntuðum táknum sem upphaflega voru myndtákn sem áttu að standa fyrir efnislega hluti og hugtök. Í dag er mikill meirihluti táknanna hljóðtákn sem gefur til kynna hvernig bera eigi það fram og ný orð búin til að táka einhvern hluta sem hefur sýnir merkingu táknsins og blanda saman við annan hluta sem sýnir hvernig maður á að segja það, til dæmis með því að bera það saman við önnur orð sem hljóma líkt. Eitt tákn er eitt atkvæði. Hvert tákn hefur yfirleitt einhverja merkingu en stendur sjaldan eitt. Langflest orð eru tveggja atkvæða og því búin til með því að setja saman tvö tákn með tvær mismunandi merkingar sem gætu ekki staðið ein og sér.

Málfræði í kínversku er næstum eins auðveld og hægt er að hugsa sér. Á sama hátt og táknin eru óbreytanleg þá breytast atkvæðin sem orðin eru búin til úr ekki þótt samhengi breytist. Þannig er engin fallbeyging, ekkert kyn, engin tíð og engin stigbreyting; engin umbreyting á orðum. Hanverjar ná fram sömu áhrifum með orðaröð og aukaorðum sem breyta merkingu. Það er allt mjög auðvelt.

Það sem er erfitt í kínversku, fyrir utan ritmálið, er tónunin. Atkvæðin sem táknin standa fyrir eru yfirleitt samansett úr fáeinum samhljóðum og einum sérhljóða. Dæmigert væri t.d. Zu, Li, Gong, Chu, Tang, Yang, Bo, Ge. Til eru aragrúi slíkra atkvæða en samt ótrúlega fá miðað við að allt tungumálið byggist á þessu. Þannig er alltaf verið að tönglast á sömu hljóðunum. Og hvert svona hljóð getur því haft yfir tuttugu þýðingar. Stundum er hægt að þekkja munin á samhenginu en sjaldnast dugar það. Þess vegna hafa þeir sem tala Putonghua fimm tóna til að greina á milli annars eins hljóða. Tónarnir eru ekki byggðir á tónhæð heldur breytingu á tónhæð. Þannig er einn tónn sem er hljómfall, annar sem tónhækkun, einn sem heldur tóninum kyrrum ofarlega, einn sem sveiflast eins og þegar maður mjálmar og sá fimmti sem er einfaldlega ótónun, þ.e. áhersla á atkvæði er svo lítil að ómögulegt er að greina tónamun. Þannig getur orðið Ma þýtt bæði mamma og hestur, eftir því hvernig það er tónað.

Þetta getur valdið miklum ruglingi hjá okkur vesturlandabúum sem eru vön ótónuðum tungumálum. Hér notum við tónun bara til þess að sýna tilfinningar í setningum, annars er hljómfall í hverju atkvæði í íslensku. Fyrir okkur hljómar því kínverska pínulítið eins og söngl. Mér skylst að í kantónsku séu 7 aðferðir til tónunar.

Jæja, hér ætla ég að láta staðar numið í bili. Þetta er allt bara skrifað eftir minni. Ég er staddur í Kína þetta árið að læra kínversku og hef haft gaman að. Ég hvet alla til að íhuga þann valkost sem kínverskan er, fáir íslendingar tala hana en hún er heimsmál og tungumál sem mun meira kveða að í framtíðinni. Hún er aðgengilegri en mann hefði grunað og auðveldara að komast í nám en ætla mætti. Í Kína býr stórkostleg menning og saga jafnmikil og allrar Evrópu og Ameríku til saman en hefur verið okkur flestumhingað til sem lokuð bók. Þetta er því mál fyrir landkönnuði, forvitið og skapandi fólk.