Íslenskar mállýskur Verkefni sem ég gerði í íslensku 603.

Íslenskar mállýskur

1. Hugtakið mállýska er skilgreint í byrjun textans sem þú átt að lesa. Skilgreiningin er í fjórum liðum. Hvernig er sú skilgreining? Fyrsti liðurinn er nokkuð þekktur. En annar liðurinn er kannski hulinn einhverjum. Nú bið ég þig að kanna hvort þú þekkir mismunandi orð yfir sama hlutinn eða hugtakið sem eru notuð hvert á sínum landshluta, líkt og rýja og borðtuska. Reyndu að koma með fjögur dæmi.
o Skilgreiningin á mállýsku er í fjórum liðum. Þessir liðir eru þættir málkunnáttu og málkerfis. Í fyrsta lagi geta málhljóð og framburður þeirra breyst. Í öðru lagi getur orðaforði og merking orðanna verið mismunandi, ég mun koma með dæmi um þetta seinna. Í þriðja lagi getur beyging orða verið mismunandi eftir mállýskum. Í fjórða og síðasta lagi getur setningagerð verið öðruvísi eftir mállýskum.
o Fjölmörg dæmi er hægt að nefna um mismunandi orð yfir sama hlutinn eftir landshlutum. Til dæmis má nefna að högni og fress eru tvö nöfn yfir karlkynskött, kústur og kóstur eru bæði heiti yfir sóp, sumir segja smúla en aðrir spúla þegar sprautað er vatni á t.d. gólfflöt, bjálfi er laslegur maður á norðurlandi en hálfgerður asni á öðrum hlutum landsins.

2. Hvaða munur er á könnun Björns Guðfinnssonar og þeirra félaganna Höskuldar og Kristjáns?
o Könnun Björns Guðfinnssonar náði til 90% af börnum í kringum 12 ára aldurinn í þeim skólahverfum sem landsins sem hann heimsótti, en hann sleppti 10 hverfum. Alls voru þetta 6520 börn, 3218 drengir og 3302 stúlkur. Björn notaði aðallega svokallaða lestraraðferð, hún byggist á því að viðfangsefnið les sérvaldann mállýskutexta og rannsakandinn merkir jafnóðum við framburðareinkunni á þar til gerðum framburðarspjöldum. 40 árum seinna hófu Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason sína rannsókn sem nefnd hefur verið RÍN (Rannsókn á íslensku nútímamáli). Aðalmunurinn á könnunum Björns og þeirra félaga Höskuldar og Kristjáns er að rannsókn þeirra félaga náði til allra aldurshópa í öllum landshlutum, eða alls um 2900 þáttakanda (um 1500 karla og 1400 kvenna). Gaman er að geta þess að stærstu aldurshóparnir voru unglingar á aldrinum 12-20 ára, en það er einmitt aldurshópurinn sem Björn Guðfinnsson notaði í sinni könnun, og aldurshópurinn 46-55 ára en það er einmitt hópurinn sem var í kringum 12 ára aldurinn þegar Björn gerði sína könnun. Eins og Björn notuðu Höskuldur og Kristján lestraraðferð en þeir notuðu einnig aðrar aðferðir.

3. Lestu vel kaflann um staðbundnar mállýskur (3. kafli). Verkefnið felst í því að koma með ítarlegt yfirlit yfir mállýskurnar og dæmi um hverja og eina.
o Norðlensk mállýskueinkenni
Harðmæli: Er kallað þegar menn bera fram fráblásin lokhljóð á eftir löngu sérhljóði. Auðvelduð útskýring er sú að í stað t.d. api er borið fram með p-hljóði. Hægt er að finna út hvort maður nota harðmæli með því að bera handarbak upp að munninum og segja api, ef þú finnur blástur ertu harðmæltur. Harðmæli er algengust á austurverðu norðurlandi. Dæmi um orð; api, ýta, vaki, vaka.
Linmæli: Er andstæða harðmælis, api er hér borið fram með b-hljóði, blásturinn er ekki jafn mikill.
Raddaður framburður: Þekkist fyrst og fremst norðaustanlands. Hann einkennist af rödduðu l, m og n á undan p, t og k. Einnig er ð raddað á undan k. Þegar hljóð eru rödduð hristast raddböndin þegar þau eru sögð. Dæmi um orð; stelpa, maðkur, fantur, hempa.
Óraddaður framburður: Er andstæða raddaðs framburðar. Þá er l, m og n á undan p, t og k órödduð, það er, raddböndin hristast ekki þegar þau eru borin fram.
Ngl-framburður: Er algengastur á austanverðu Norðurlandi. Í ngl-framburði heyrist lokhljóðið g greinilega. Í framburði annarra er þess í stað uppgómmælt nefhljóð á undan l í orðum af þessu tagi. Dæmi um orð; dingla.
Bð-, gð-framburður: Þessi framburður virðist vera á undanhaldi og finnst hann einkum í máli þeirra sem eldri eru. Í bð-, gð-framburði eru borin fram lokhljóðin b og g í orðunum hafði og sagði.
o Mállýskueinkenni á suðausturlandi
Hv-framburður: Það er kallað hv-framburður þegar menn nota uppgómmælt önghljóð í framstöðu orða sem eru rituð með hv-, með öðrum orðum, þú segir orð eins og þau eru skrifuð með. Dæmi um orð; hver, hvalur.
Kv-framburður: Er andstæða hv-framburðar. Þá eru orðin lesin eins og þau séu skrifuð með kv- en ekki hv-.
Skaftfellskur einhljóðaframburður: Er einkum bundinn við suðausturland. Í honum eru borin fram löng einhljóð á undan -gi-. Einhljóðaframburður er líkari upprunalegum rithætti orðsins. Dæmi um orð; magi, lögin, hugi, sigi.
Tvíhljóðaframburður: Er andstæða skaftfellsk einhljóðaframburðar. Hér eru orðin borin fram líkar mæji, laujin, huji, siji.
Rn- rl- framburður: Þessi framburður er við það að hverfa úr íslensku máli. Í þessum framburði er ekki skotið inn lokhljóð í rn- rl samböndum. Framburður líkari rithætti. Aðrir bæta inn þessu lokhljóði og verður útkoman líka Árdni, Sturdla. Dæmi um orð; Árni, Sturla.
o Vestfirsk mállýskueinkenni
Vestfirskur einhljóðaframburður: Er það nefnt þegar menn bera fram einhljóð á undan ng, ng þar sem aðrir hafa tvíhljóð. Í vestfirskur einhljóðaframburði er sagt langur og töng, en í framburði annarra verða orðin lángur og taung.
Vestfirsk áhersla: Er fólgin í því að leggja aðaláherslu á forsetningu í sambandinu atviksorð + forsetning + fornafn. Aðrir landsmenn hafa meiri áherslu á atviksorðinu í þessu sambandi. Dæmi; framan Í þig, út ÚR mér.

4. Í kafla 3.2. er rætt um mállýskueinkenni tengd þjóðfélagshópum. Þegar rætt er um mállýskueinkenni er frekar átt við framburð en orðanotkun. Lýstu vel ks-framburði og höggmæli.
o Ks- framburður felst í því að bera fram ks í orðum þar sem aðrir bera fram xs. Þetta á við um orð sem eru skrifuð með bókstafnum x, eða með -gs- eða -ks-. Þeir sem hafa ks- framburð nota þá uppgómmált lokhljóð á undan s þar sem aðrir nota uppgómmælt önghljóð.
o Höggmæli er fólgið í því að nota svokallað raddbandalokhljóð í stað munnlokhljóðs á undan n. Raddbandalokhljóð er lokhljóð sem myndast með því að raddböndin er klemmd saman.

5. Skoðaðu vel kafla 3.2.4. um stéttbundnar mállýskur. Ertu sammála því að þágufallssýki sé bundin við mismunandi stéttir? Rökstyddu svar þitt. Þekkirðu marga með þessa sýki? Af hverju eru þeir „veikir”? Gerðu þína eigin könnun á fólki í kringum þig, óformlega könnun, og settu upp í línurit hversu margir eru haldnir þágufallssýki og hverjir ekki.
o Áður en ég las þennan kafla var ég ósammála því að þágufallssýki væri bundin við stéttir. Eftir að hafa lesið hana sé ég hinsvegar að þetta getur vel staðist. Eins og kemur fram í kaflanum er það þá líklega vegna lengri skólagöngu foreldra barnsins þar sem hamrað hefur verið á því að falla ekki í þágufallssýkina. Að sjálfsögðu reyna foreldrarnir svo að kenna börnum sínum rétt mál sem þau hafa lært. Ég þekki persónulega ekki marga með þágufallssýki, jú, á stundum grípur maður í þágufallið þegar maður er ekki að hugsa, en tekur eftir því strax. Þetta hefur verið kennt við sýki vegna þess hve erfitt virðist vera að “lækna” fólk af þessum ósið.
Just ask yourself: WWCD!