Pikmin Titill: Pikmin
Tölvur: GameCube, PAL
Þróunaraðili: Nintendo
Útgefandi: Nintendo, 2002
Flokkur: Herkænsku/ævintýraleikur
Fjöldi spilara: 1
———————

Shigeru Miyamoto er nokkuð umdeildur fyrir sínar skrítnu hugmyndir að tölvuleikjum og persónum, en hann skapaði meðal annars Donkey Kong, Mario og Zelda auk fjölda leikja. En í þetta skiptið virðist hann hafi slegið sjálfum sér við.

Pikmin er hugarfóstur Miyamoto, en eins og sumir vita fékk hann hugmyndina frá garðyrkju sem hann stundar í frístundum. Í raun er leikurinn byggður á hans eigin garði!

Leikurinn fjallar um geimfarann Olimar (Skylt Mario?), sem fyrir slysni brotlendir á ókunnugri plánetu. Skipið hans er í tætlum og hlutar úr því hafa dreifst um yfirborð plánetunnar. Til þess að gera hlutina enn verri hefur Olimar einungis 30 daga til að finna hlutana og gera við skipið sitt áður en að loftið í geimbúningnum hans tæmist endanlega.

Fljótlega uppgötvar Olimar að svo virðist sem að litlar verur í alls kyns litum búa á plánetunni. Þessir gaurar eru vingjarnlegir og ákveða að hjálpa Olimar. Þeir geta reyndar ekki talað hans tungumál og eru ekkert sérlega gáfaðir, en þeir reyna þó!

Spilunin í Pikmin snýst um herkænsku og skipulagningu. Pikminarnir elta Olimar út um allt og eru m.a. reiðubúnir að bera hluti fyrir hann, brjóta niður hindranir, ráðast á óvini og í raun hlýta vilja hans til fulls. Þó eru Pikminar mjög ósjálfbjarga, og spilarinn þarf ávallt að hafa auga með þeim og passa upp á að þeir komi sér ekki í vandræði.

Þegar nóttin skellur á þarf spilarinn svo að koma Pikminunum aftur í geimskipin sín, því þeir geta ekki lifað af einir. Þessi hringrás gengur áfram, dag eftir dag, og þar kemur skipulagningin til sögunnar. Mikilvægt er að kanna svæðin sem maður á og athuga hvar partar skipsins eru niðurkomnir. Svo er bara að fá Pikminana til að fylgja sér og ná í þá.

Til eru þrjár tegundir af Pikminum: Rauðir, bláir og gulir. Þeir þjóna allir sínum tilgangi; t.d. eru gulir mun léttari og hægt að kasta þeim lengra, á meðan að þessir rauðu eru betri bardagamenn og hinir bláu geta synt. Hljómar kannski ekki flókið, en Nintendo tekst að flækja málin fyrir manni ansi vel.

Fínn leikur sem hægt er að dunda sér við, en þvi miður dálítið stuttur.

Framkoma: 7/10 - Stílhreint viðmót, þó stundum ögn ruglandi og of einfalt.
Spilun: 8/10 - Þér þykir fljótlega vænt um Pikminana og vilt ekki skilja við þá. Eina slæma eru tímaþrengslin.
Tónlist: 6/10 - Ágæt tónlist, þó ekki mjög mikil fjölbreytni.
Grafík: 8/10 - Falleg og frumleg grafík sem fellur vel við anda leiksins.
Ending: 6/10 - Eftir að hafa klárað leikinn er lítið sem dregur mann til hans aftur nema lokaeinkunnin.

-Royal Fool