SSX Tricky - Playstation 2 SSX Tricky - Playstation 2

Þá er SSX kominn aftur með fleiri hreyfingum og keppendum heldur en síðast. En er hann eitthvað góður? Lestu áfram og sjáðu til.

Ég veit að hann er búinn að vera til í þó nokkurn tíma en ég fékk hann aðeins fyrir nokkrum vikum og líkaði svo vel við hann að ég held að hann eigi skilið rýni fyrir ykkur áhugamenn.

SSX Tricky er framhald SSX, einn af flaggskipstitlum Playstation 2 þegar hún kom á markað. Þetta er kannski ekki beinlínis framhald heldur er verið að hressa upp á áður ágætis leik, þannig að það er í sjálfum sér ekki slæmt að neinu leyti. Leikurinn kemur með svo miklum viðbætum að það er erfitt að ákveða hvar skal byrja.

Leikurinn kemur með tíu keppendum. Sumir eru af þeim gömlu góðu eins og Elise. Að auki er nýtt blóð komið til sögunnar. Einn af þeim nýju sem skemmtilegast er að leika sér af er Zoë, sem hip punk gellan, Eddie með geggjaðasta afró sem nokkurn tímann hefur sést áður og Psycho Pysmon sem lítur út eins og hann sé nýkominn úr votri gröfinni :)

Í leiknum eru tíu brautir. Hver ein og einasta er hægt að keppa á og spila í “trick mode” þar sem bætist við aukin tæki og tól til að leika sér með. Það eru tvær nýjar brautir sem enginn okkar hefur séð en restin er frá gamla leiknum nema nýrri og betrumbættar að mörgu leiti. Ímyndaðu þér ákveðna braut sem þú er vanur að renna þér niður og síðan kemurðu aftur ári seinna og finnur að brautirnar eru brattari og erfiðara er að beygja um horn. Það er einmitt það sem gerist í SSX Tricky miðað við fyrirrennarann. Uppáhaldsbrautin mín er Merqury City Meltdown. Brautin er svo mikið öðruvísi heldur en í fyrra að maður á í erfiðleikum með að fikra sig áfram þrátt fyrir að hafa verið gömul kempa á henni í SSX. Það sama gildir með flestar af gömlu brautunum að undanskilinni Mesa Blanca sem mér líkaði í raun ekkert við í SSX og er ekkert að fíla mig betur á henni núna. Nýju brautirnar Garibaldi og Alaska eru frábærar. Garibaldi er nú fyrsta brautin og er frábær fyrir byrjendur. Fullt af stökkum og léttum römpum til að leika sér að í “trick mode”. Hún er betri fyrir byrjendur að því leitinu til að hún er ekki jafn ógnvekjandi og Snowdream. Alaska er með síðustu brautunum og hún er sú erfiðasta að mínu áliti. Hún notar öðruvísi grafíkáferð heldur en hinar svo hún lítur mjög öðruvísi út og það er snilld að keppa á henni í “World Circuit”.

Stærsta breytingin er “UBER trick”. Þetta eru brögð sem þú getur framkvæmt þegar “boost” línan er í botni. Maður nær sér í “boost” með því að gera fleiri brögð hverju sinni. Um leið og línan er full þá heyrir maður í gamla góða Run DMC segja “It´s Tricky” og þá er allt opið til að framkvæma “UBER trick”. Það er auðvelt að framkvæma þau. Þú smellir á R2 og “kassa takkann” í fáeinar sekúndur á meðan bragðið er framkvæmt. Maður nær fjöldann allann af stigum við þetta og það er eins gott að vera með þetta á hreinu þegar fólk tekur þátt í leik Nanooq og Game Tíví. Aðalmálið er að reyna að hafa “boost” línuna fulla og þar af leiðandi reyna þetta bragð eins oft og þú getur til að fá sem flest stig. Það er einnig búið að fínpússa gömlu góðu brögðin og maður fær ennþá mínus fyrir að gera sömu brögðin aftur og aftur, það er fjölbreytileikinn sem tryggir þér flestu stigin.

EA Big, þróunaraðilar leiksins, hafa einnig tekið sig til og fengið fræga leikara til að ljá keppendum röddu sína. Til að mynda má nefna Macy Gray, Billy Zane, Biff Naked og David Arquette sem hvert um sig gefur leiknum nýtt yfirbragð . Leikurinn er á DVD þannig að það er pláss fyrir hundruðir af raddlínum sem gera leikinn áhugaverðari. Talandi um DVD þá sá ég í fyrsta sinn “DVD Extra” í valmyndinni, þetta er einmitt eins og vant er að sjá þegar maður kaupir bíómyndir á DVD í dag. Þetta er snilld. Þarna eru viðtöl við þróunaraðila leiksins, upptaka úr hljóðveri við hljóðupptöku leikarana og það er svolítið fyndið að sjá David Arquette gera þessa bjánalegu rödd. Það er einnig glymskratti þarna sem gerir þér kleift að hlusta á tónlist leiksins.

Tónlist leiksins er að flestu leiti sú sama og var í þeim gamla og svo er búið að bæta að mörgu leiti nýrri tónlist eftir Biff Naked, Space Raiders, Hybrid og Mixmaster Mike. Tónlistin er enning gagnvirk þannig að ef þú ert að standa þig vel þá eykst hraði hennar og öfugt. Aðal bónusinn leynist fyrir notendur sem eiga DTS heimabíókerfi þá er hægt að notast við 6:1 “Discreet”. Ef mér skilst rétt þá er SSX Tricky fyrsti leikurinn á PS2 til að nota þessa tækni. Hins vegar hélt ég að hljóðbúnaður Playstation 2 styði bara Dolby Pro Logic 5.1

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er SSX Tricky stuð. Ef þú fílaðir SSX þá er þessi tífalt bættur. Ef þú prófaðir ekki SSX þá ættirðu að prófa Tricky. Þetta er með þeim betri snjóbrettaleikjum sem til eru. PUNKTUR. Að vísu er hann ekki byggður á raunverulegum eðlisfræðilegum staðreyndum og brögðin eru geggjuð, en það er skemmtunin sem um ræðir og það er það sem skiptir máli. Leikspilunin endist mjög vel enda er hægt að finna nokkra nýja keppnisbúninga og snjóbretti í gegnum leikinn sem læst eru í byrjun, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að klára hann fljótlega því það mun taka þig langann tíma að fullkomna hvern keppanda. SSX Tricky er ein af skildueignum Playstation 2 eigenda.

<a href=http://www.ea.com/easportsbig/games/ssxtricky/home.jsp>Heimasíða SSX Tricky</a>

Einkun: 4/5

pREZ