Tölvuleikurinn Pac Man er álitinn besti tölvuleikur allra tíma, að mati 500 breskra tölvu- og leikjavélanotenda. Pac Man, sem einkum er spilaður í spilakössum, sló Super Mario, Löru Croft og jafnvel Sonic The Hedgehog vð í könnuninni, að því er fram kemur á fréttavef BBC. Pac Man hlaut 39% atkvæða, en það eru helmingi fleiri atkvæði heldur en Sonic The Hedgehog. Super Mario hafnaði í þriðja sæti. Þá þótti það tíðindum sæta að tölvuleikur um Harry Potter hafnaði í áttunda sæti listans þó að leikurinn væri ekki kominn út fyrir PlayStation, GameBoy og einmenningstölvur.

Pac Man, sem kom upphaflega út hjá Namco árið 1981, er mest seldi spilakassaleikur allra tíma, en þegar leikurinn kom út voru seldar yfir 100 þúsund Pac Man-leikjavélar um heiminn. Fyrirtækið segir að tekjur, sem hafa skapast af framleiðslu leiksins, séu um 10,7 milljarðar ísl. króna. Á síðari árum hefur Namco gefið út Pac Man-leiki fyrir leikja- og einmenningstölvur. Þá er leikurinn einnig spilaður á Netinu. Höfundur Pac Man er Tohru Iwatani, sem kvaðst hafa fengið hugmyndina þegar hann sat veislu og sá flatböku sem búið var að taka eina sneið af. Billy Mitchell frá Flórída er sagður hafa náð hæsta skori í Pac Man, 3.333,360, eftir sex klukkustunda samfellda spilamennsku árið 1999.

Listinn á BBC lítur þannig út:

1. Pac Man (39%)

2. Sonic The Hedgehog (17%)

3. Super Mario (12%)

4. Lára Croft (10%)

5. Donkey Kong (8%)

6. Pókemon (6%)

7. Yoshi (4%)

8. Harry Potter (2%)

9. Ray Man (1%)

10. Max Payne (1%)
Gerðu hlutina almennilega eða vertu heima.