Doukutsu Monogatari (Cave Story) Bara til að koma því á hreint strax, þá er þetta einn besti leikur sem ég hef nokkurn tíman prófað. Þar hafið þið það. Þessi leikur er SVO góður að ég ákvað að skrifa grein um hann.

Í Doukutsu Monogatari (þýðist á ensku sem “Cave Story”) spilar maður lítið vélmenni sem hefur misst minnið. Maður ferðast um og spilar út söguna í leiknum, svipað og í klassískum japönskum RPG leikjum. Þetta er annars tvívíður platform leikur með nokkrum RPG og Metroid eiginleikum. Til dæmis uppfærir maður vopnið sitt með því að safna gulum þríhyrningum sem maður fær fyrir að drepa óvini. Auk þess getur maður safnað “health capsules” sem bæta við heilsuna hjá manni. Fleiri vopn fær maður seinna í leiknum, og þau eru öll mjög skemmtileg og fjölbreytt.

Grafíkin lítur svolítið gamaldags út, en mér finnst það bara gera leikinn áhugaverðari og skemmtilegri. Tónlistin í leiknum er annars algjör draumur. Ég skora á hvern sem er að fá ekki eitthvað lag úr þessum leik á heilann eftir að hafa spilað í smá tíma.

Það sem mun kannski helst fara í taugarnar á flestum er að maður getur ekki vistað hvar sem er. Maður getur það aðeins á ákveðnum stöðum. Þetta neyðir mann til að verða góður í leiknum. Og það er eins gott, því þessi leikur er ERFIÐUR. Auk þess er hann stútfullur af erfiðum endaköllum. En það sem er svo skemmtilegt er að þegar maður er orðinn góður, þá getur maður unnið þá alla án nokkurra erfiðleika. Þess vegna spilar maður aftur og aftur, alveg þangað til maður kemst áfram.

Þessi leikur hefur hvorki fleiri né færri en þrjá mismunandi enda. Reyndar telst fyrsti endirinn varla með að mínu mati, maður sleppir við risastóran part af leiknum. Endir númer tvö er sá sem flestir munu sætta sig við, sem sagt “venjulegi” endirinn. Ef maður er rosalega góður, þá getur maður fengið þriðja (besta) endirinn. Þá spilar maður gegnum auka borð sem er alveg fáránlega rugl erfitt.

Það er eiginlega erfitt að trúa því að það sé til ókeypis leikur sem er svona góður, en þetta er víst fyrir alvöru. Þessi leikur hefur allt saman, góða (en jafnframt gamaldags) grafík, frábæra tónlist, gott hljóð, góða sögu, frábæra spilun… Þessi leikur er sannkallaður gimsteinn. Var ég búinn að minnast á að hann er 100% ókeypis? Þú getur spilað hann núna!

Þetta er skylduspilun fyrir alla þá sem tela sig vera unnendur tölvuleikja. Ég mæli sterklega með því að þú notir gamepad til að spila leikinn. Ef þú átt ekki einn slíkann, í guðanna bænum fáðu þér þannig núna, því það er ekki nærri því eins skemmtilegt að spila leikinn með lyklaborði.

Leikurinn keyrist í Windows 98, 2000 og XP. Auk þess er víst til Mac útgáfa einhversstaðar. Ég hef heyrt að það sé hægt að keyra leikinn undir Wine í Linux, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Hér má finna leikinn sjálfan (efri linkurinn):
http://hp.vector.co.jp/authors/VA022293/FreeSoft/Doukutsu.html

Hér má finna enskuplástur (English patch):
http://agtp.romhack.net/doukutsu.html