Ferð er hafin. Svo húmar að kvöldi og Hobbitarnir smáu verða að finna sér náttból undir berum himni. Vestanvindurinn blæs og laufin hvíslast á. Strax sakna þeir ylsins og þægindanna heima. Framundan kviknar björt sjarna á himninum og allt í einu grípur sú tilfinning þá að vegurinn liggi upp um stjarnhvolfin og þeir raula fyrir munni sér ofurlítinn brag sem Bilbó forðum samdi á langferðum sínum. En hvar eiga þeir að finna sér flet?

Eldur logar á arni blítt,
inni bíður fletið hlýtt;
samt er enn vor fótur fær,
við finnum kannski hérna nær
einhvern steininn, eitthvert tréð
sem enginn hefur fyrri séð.
Tré og blað og blóm í laut –
verði á braut! verði á braut!
Hóll og bakki, holt og á –
göngum hjá! göngum hjá!

Enn má vera að ókunn slóð
okkur vekji nýjan móð;
þótt við hverfum eins og er,
við aftur máski komum hér
og leggjum á þann undra stig
sem upp til stjarna hefur sig.
Epli, hnot og einiber –
kveðjum hér! kveðjum hér!
Sandur, gil og grjót á mel –
farið vel! farið vel!

Heiman út í heim oss ber
hundruð stíga að kanna hér
fram um skugga-kaf og kvöld,
uns kviknað hefur stjörnufjöld.
Þá heim af slóðum heim oss ber,
til húsa aftur göngum vér.
Þoka, myrkur, skuggi, ský –
er fyrir bí! er fyrir bí!
Ljós og ylur, kaka, ket –
beint í flet! beint í flet!

Úr Vegaljóðum, úrvali ljóða úr Hringadróttinssögu.