Umsögn um The Two Towers Trailerinn Jæja, þá er aðaltrailer fyrir næsta hluta Lord of the Rings kominn: Trailerinn fyrir The Two Towers. Og þessi svíkur ekki, eins og búist var við. Þrjár mínútur og þrjár sekúndur er hann að lengd, meira að segja aðeins lengri en aðaltrailerinn fyrir The Fellowship of the Ring sem kom fyrir ári síðan og flestir voru svo ánægðir með. Og að mínu mati er þessi jafn góður þó ég eigi eftir að sjá hann í almennilegum 30 MB Quicktime gæðum. Athugið að þeir sem ekki vilja spilla bíóupplifun sinni í desember vilja kannski sleppa þessum trailer. Ég gæti aldrei neitað mér um slíkt en aðrir geta það greinilega. Í þessum trailer er til dæmis sýnt mun meira frá Gollum, Treebeard, Úlfum, Balroggi og fleiru þannig að einhverjir gera viðeigandi ráðstafanir.


Athugið að framhaldið af þessari grein er einungis fyrir þá sem séð hafa trailerinn enda er um nákvæma lýsingu á honum að ræða og fyrir þá sem vilja ræða um trailerinn.

Lýsing:

Í fyrsta lagi er upphafið á þessum trailer mun betra en í FOTR trailernum. Aragorn, Legolas og Gimli hitta riddara Róhans og Eomer þrumar yfir þeim, hvað í andsk. þeir séu að gera í heimalandi sínu. Virkilega flott og leikarinn sem leikur Eomer virðist ætla að fullkomna persónu sína, en hann er verulega góður.

Frodo og Sam eru einir á leið og virðast villtir og fannst mér alveg frábært hvernig þeir eru að spá í hvaða leið Gandalfur hefði tekið ef hann hefði haldið lífinu en þetta er eitthvað sem er sígilt meðal Tolkien aðdáenda að spá í.

Svo er núna nánast enginn vafi á því lengur að í myndinni verður sýnd lokabardagi Gandalfs og Balroggsins en nokkur hröð skot eru af því í trailernum. Þau eru á 45. sekúndu í 6.7 MB Quicktime trailernum ef þið misstuð af því (sem ég gerði þegar ég sá trailerinn í fyrsta skipti).

Atriðið þegar Gandalfur hittir Aragorn, Legolas og Gimla en sýnt aftur en núna hefur setningu frá Aragorni verið bætt við: “It cannot be” sem er áhrifamikið. Þessi sena á eftir að verða flott. Synd að flestir sem ekki hafa lesið bækurnar eiga eftir að vita að Gandalfur er upprisinn á ný áður en þeir sjá myndina vegna allra auglýsinga og trailera í desember. En það er því miður óumflýjanlegt að sleppa því að sýna persónu sem leikur svo stórt hlutverk í myndinni, í trailernum auk þess sem hann fékk Óskarverðlaunatilnefningu fyrir fyrri hlutverk sitt og á góðan möguleika aftur.

Sýnt er frá auga Saurons efst uppi á turni Barad-Dúr og er það dálítið merkilegt að augað er í þrí-vídd en sumir aðdáendur hafa nagað í handarbökin yfir þessu, en það er dálítið undarlegt að hafa alvöru auga upp á turni. En kannski er þetta bara sýn frá Frodo þegar hann setur upp hringinn, hver veit ?

Gandalfur og Théoden tala saman um hvað gera skal og lítur það allt vel út og aðdragandinn að hinum mikla bardaga við Helm's Deep virðist ætla að verða spennandi. Líka er flott að sjá það hvernig Aragorn sér hvernig her Sarúmans nálgast en hér er hann einn á ferð sem njósnari. Sögubreyting vissulega en mér líst nokkuð vel á. Líka er flott að sjá allan her Sarúmans safnaðan saman við Orþanka.

Hérna byrjar annað tónlistarstef en áður hafði stef úr FOTR verið spilað létt í bakgrunni. Margir þekkja þetta sem stefið úr Requiem for a dream, þeirri frábæru mynd eftir Darren Aronofsky. Þetta verð ég að segja að hafi verið alger snilldarhugmynd, hver svo sem það var sem fann upp á henni. Lagið er svo leikið allt til loka og á alveg virkilega vel við allan tímann sem er mjög merkilegt enda um dálítið ólíkar myndir að ræða. Alveg frábært lag. Tónlist Howard Shore mun ekki verða leikin fyrr en í myndinni sjálfri.

Næst er sýnt frá því hvernig verið er að tæma Edoras og koma fólkinu í skjól. Merkilegt nokk er Helm's Deep valinn sem staður, en ég veit ekki alveg hvernig staðan verður af hverju her Sarúmans ræðst á Helm's Deep í myndinni en það virðist ætla að verða af annarri ástæðu en í bókinni. Hér er ljóst að um sögubreytingu er að ræða en hún þarf alls ekki að vera slæm.
Frábær setning frá Eomer er svo : “By order of the king. The city must empty.”

Í þessum trailer fær maður að heyra Éowyn tala í fyrsta skipti og á hún nokkrar setningar. Það verð ég að segja að leikkonan er nokkuð falleg og passar vel sem Éowyn. Samtal þeirra Aragorns og Éowyn, labbandi með hestana fannst mér mjög góð viðbót: “Where is she ? The woman who gave you that jewel.”

Svo allt í einu er orðið mikið um Álfa og einhverjir reka upp stór augu en hvorki Elrond né Arwen koma við sögu í The Two Towers bókinni. Enn stærri verða augun þegar þeir Aragorn og Elrond tala saman um að Aragorn eigi að láta Arwen í friði þar sem hún sé á förum eins og aðrir Álfar burt frá Miðgarði. Þetta er augljóslega s.k. flashback þ.e. tilvísun í atburð sem gerðist áður og sömu sögu er með senuna með Aragorn og Arwen. Tilgangurinn er að segja söguna um Álfana mun betur en í bókinni og líst mér vel á þó aðrir kunni að vera á annarri skoðun.

Svo fáum við að sjá Gollum allt í einu og lítur hann vel út, aðeins ókláraður finnst mér reyndar. En engar áhyggjur hef ég af því að hann verði óraunverulegur og held ég að hann eigi eftir ásamt kannski Treebeard að leggja nýjan grunn að vel heppnaðri notkun tæknibrella. Ég vona nú samt ekki að svo verði að tölvugerðir leikarar eigi í framtíðinni eftir að verða of áberandi, he he…
Rödd hans er mjög góð og skoðun Sams á honum virðist ætla að vera nákvæmlega eins og í bókinni.

Síðasta mínútan einkennist af hröðum skotum, mikið er af atriðum frá Helm's Deep og hellingur af atriðum sem maður kveikir ekki strax á perunni varðandi. Múrinn er sprengdur, Legolas skýtur úr boga sínu, riddarar Róhans æða út á móti Orkunum og Aragorn gefur tilskipanir. Þetta á eftir að verða ein minnistæðasta orusta kvikmyndasögunnar, alla vega þangað til Return of the King er sýnd grunar mig.

Svo sjáum við Orka þeysandi niður hlíðina á Úlfum og verður gaman að sjá þetta. Þetta gerist í dagsbirtu eins og sést og ekki á Helm´s Deep en það hefur verið bætt við smá senu einhvers staðar í myndinni þar sem þessi kvikindi koma við sögu.

Áhrif hringins á Frodo virðast ætla að verða ýkt aðeins meira en var í bókinni og hlakka ég til að sjá hvaða leið Peter Jackson ætlar að taka þarna.

Svo fær maður að sjá Treebeard grípa í Merry en reyndar sést bara neðri hlutinn af búki hans. En hann lítur vel út og augljóslega verður ekki sýnt of mikið af honum.

Svo fær maður að sjá einn Ollifanta eða Múmak og það atriði á eftir að verða spennandi.

Í lokin sér maður einnig áhyggjur Arwenar af Aragorni og margir túlka þetta að atriðin sem tekin voru upp af henni í Helm's Deep eigi eftir að gerast, en þau hafa áður verið talin algerlega klippt úr. Mér finnst lítið benda til þess að Arwen eigi nokkuð eftir að koma til Helm's Deep en handritshöfundur hefur neitað þessu í viðtali og ég efast einnig um að leikstjórinn vilji fara þessa leið.

Eftir að hafa farið í gegnum trailerinn aftur og aftur við að skrifa þessa grein er ég ekki frá því að þessi sé jafnvel enn betri en trailerinn fyrir FOTR og einnig finnst mér allt benda til þess að The Two Towers eigi eftir að verða mun betri mynd heldur en The Fellowship of the Ring en ef framleiðendum tekst að gera betur en það meistaraverk þá er mikið sagt. Ég vona bara að leikstjórinn fái að hafa myndina sína eins lengi og hann vill án þess að New Line Cinema ráði of mikla enda virðist um marga atburði í myndinni sem erfitt er að koma fyrir nema í þriggja tíma mynd a.m.k.