Ath! Þeir sem vilja sleppa væmnum endurminningum geta hoppað yfir næstu tvær efnisgreinar og byrjað að lesa gagnrýnina.(en skrítin leið til að byrja grein á)

Um þessar mundir eru liðin um það bil sjö ár síðan ég sá Föruneyti hringsins í fyrsta skiptið. Í tilefni af því ákvað ég að horfa á hana aftur ( í u.þ.b fjögurhundruðasta skipti) og sjá hversu vel myndin hafði elst. Niðurstaðan er sú að myndin hefur ekkert versnað með aldrinum. Þvert á móti virkar hún eins og gott vín og í dag myndi ég telja hana sem fyrstu mynd árþúrundsins sem þegar er orðin klassísk.

Ég man ennþá tilfinninguna sem ég fékk þegar ég horfði á hana í fyrsta skipti. Mér fannst hún svo dularfull. Svo mikil. Svo þung. Þetta var upphafið að miklum Tolkien áhuga sem náði svo hápunkti þegar ég las bækurnar og keypti lengdu útgáfurnar.

Myndin er oppnuð með fallegri en dularfullri röddu Cate Blanchett sem fer með línur sem Trjáskeggur á í bókinni og segir okkur að heimurinn sé að breytast. Forsaga hringsins er kynnt og er sá kafli tekinn úr Silmerilnum og Hobbitanum. Þessi kafli er ákaflega mikilvægur og verður að koma fram en hann er einnig sá lélegasti í allri myndinni. Tæknibrellurnar á þessum stað hafa elst verst og senan þegar Sauron sprakk var jafnvel hálfkjánaleg. Þetta eru kannski harðir dómar enda er atriðið vissulega betra en flestar svipaðar myndir í heild sinni en miðað við hversu guðdómlegur afgangurinn er er leiðinlegt að sjá svona farið með opnunaratriðið. Setningin ,,..og hringurinn varð að þjóðsögu og þjóðsagan varð að goðsögn" var samt sem áður stórkostleg, búin til af handritshöfundum myndanna.

Svo byrjar ballið. Hringadróttinsaga byrjar og Miðgarður verður að veruleika beint fyrir framan mann með gullfallegum leikmyndum og risamódelum. Héraðið, Rofadalur, Lóríen og Arangonatarnir tveir fannst mér þar best. Búningahönnuðir, förðunarsmiðir og hönnuðurnir á bak við allar skepnur Miðgarðs stóðu sig líka með afburðum vel.

ÞAð sem kom mér samt mest á óvart við þetta enduráhorf mitt var hversu góðar tæknibrellurnar ennþá eru. Það er reynsla mín að allar tæknbrellur eldast.(samanber opnunaratriðið svo ekki sé talað um Star wars) Margar ef ekki allar myndir frá þessu sama ári sem nota tæknibrellur óspart standa í dag uppi með hálfhlægilegar brellur. En ekki Hringadróttinsaga, ónei. Helliströllið, Balroggurinn, Atriðið við Brúna í Kazak Dum. Allt voru þetta jafnmögnuð atriðið nú og árið 2001. Já, og svo má ekki gleyma flugeldum Gandalfs.

Sjónrænn bakrunnur myndarinnar var því nær fullkominn og sömu sögu er að segja um tónlistina. Howard Shore er mitt uppáhalds kvikmyndatónskáld og ég mæli með því að hlusta á diskinn.(sountrackið, sem líkist þó soundtracki ósköp lítið) Tónlistin hans magnar upp hárréttar tilfinningar á hárréttum stöðum með gullfallegum laglínum. Hrifnastur var ég af laglínunni sem kemur fyrst þegar föruneytið siglir framhjá Aragonötunum og seinna þegar við fylgjumst með Fróða rétt áður en Boramír reynir að ná hringnum. Laglínan kemur einnig fram í upphafi 3.myndarinnar. Lag sem vekur hjá mér svolítið vonleysi. Eins og ekkert muni verða gott aftur.

Handritið var lýtalaust og eru engar stífar línur þar að finna eins og mér fannst ég stundum heyra í annarri myndinni síðast þegagr ég horfði á hana. Réttum pörtum úr bókinni er sleppt og hæfilega miklu bætt við, svo sem aukakímni. Kvikmyndin er (eins og ég minntist á áður) alltaf ákaflega dularfull en um leið gullfalleg og voru sumar senur sem stóðu sérstaklega upp úr. Atriðið með Fróða og Gandalf eftir að Gandalf hefur snúið aftir frá Minas Tirith er sveipað einhverjum dimmum ævintýraljóma sem erfitt er að útskýra. Mér fannst jafnframt flott hvernig Petar Jackson lætur allt virðast gott á ný í upphaf Rofadalsatriðisins. Ég virkilega trúði því að þarna væri hringurinn óhultur þangað til að Elrond spillti því fyrir mér. Fundurinn í Rofadal sem var heill kafli í bókinni var styttur heilmikið og var hann svo vel styttur að mér fannst atriðið flottara en í bókinni. Tumi Bumbaldin var slepptur alveg og fannst mér það rétt ákvörun enda svolítill útúrsnúningur. Mér finnst samt að einhver ætti að gera stuttmynd um hann og aðra jafnvel um Héraðshreinsunina. En nóg um það.

Styrkur leikstjórans er best sýndur í dauðasenu Gandalfs. Þetta atriðið hefði getað verið gjörsamlega eyðilagt og gert svo væmið að kjánahrollur hefði valdið dauðsföllum meðal bíógesta en Peter Jackson, leikararnir, Howard Shore og söngkonan gera atriðið svo fallegt og sorglegt að ég fékk næstum tár í augun. Og ég var að horfa á atriðið í fjögurhundruðasta skiptið.

En fyrst leikaranir bárust til tals er ekki úr vegi að fjalla aðeins um þá. Í rauninni er ekki einn svartur sauður. Ekki einn. Ian Mcgellan og Sean bean voru samt fremstir meðal jafningja. Ian Mcgellan er einfaldlega Gandalf og sýnir hann eina mögnuðustu leikframmistöðu sem ég hef séð. Gandalf er einnig ævintýralegastur í þessari mynd með gráa kuflinn, ögn hokinn og með stórt nef. Sena Bean var næstum því fullkominn í hlutverki Boramírs. Hvernig maður hálfhatar hann í byrjun en skiptir svo snarlega um skoðun í enda myndarinnar þar sem hann breytist í glæsta hetju. Sérstaklega voru tvö atriðið með ólíkindum. Bæði skiptin voru þegar hann reyndi að hrifsa hringinn af Fróða.(fyrra skiptið geri hann það reyndar ekki en augun í honum sögðu allt) Aðrir leikarar voru ekki verri og verð ég næst að nefna Cate Blanchett sem sveipaði atriði sitt dulúð. Fegursta leikkona Hollywood.

Er myndin fullkomin? Veistu, ég held að það sé ekki langt í fullkomnuna. Þessi mynd ásamt hinum tveimur mun lifa um aldur og ævi. Því get ég lofað. Tolkiennördið kveður.

-Hugsanlega eru nokkur hugtök og nöfn vitlaust skrifuð, ég var ekki með bókina hjá mér. Ég vona bara að það eyðileggji ekki lesturinn-
Veni, vidi, vici!