Fëanor Þar sem að það virðist vera bylgja í gangi hérna ætla ég að fylgja með og skella inn pistli sem ég skrifaði um Fëanor fyrir einhverjum árum.

Myndin sem ég læt fylgja með er líklegast sú eina mynd sem mér finnst ná Fëanor almennilega í mínum huga.


Skulum byrja á nafninu. Samblanda af orðinu Faenor (Úr Sindarin) og Fëanáro (Úr Quenya) og þýðir það þá “Spirit of Fire”.

Fëanor (Álfur) var elsti sonur Finwë (Hérna er eitt stykki ættartré fyrir þessa kauða, ég set slóð á það í staðin fyrir að hljóma eins og ættfræðingur http://img-fan.theonering.net/rolozo/images/lovett/finwe.gif).
Móðir Fëanor, Míriel, varð svo “þreytt” (Eða bara hreinlega búin á því) eftir það eitt að fæða Fëanor að hún tók þá ákvörðun að fara að sofa og vakna aldrei aftur, álfar höfðu greinilega það val þarna í Valinor. Eftir það giftist Finwë aftur og eignaðist tvo sini, Fingolfin og Finarfin. Fëanor giftist Nerdanel (Hún var dóttir Mahtan, sem var mikill smiður og kenndi hann Fëanor mest allt sem hann kunni) og eignuðust þau sjö syni; Maedhros, Maglor, Celegorm, Caranthir, Curufin, Amrod og Amras.

Fëanor var ansi magnaður náungi og hér ætla ég að telja upp svona aðal afrek á hans fyrri tímum:

Hann bjó til Tengwar (S.s. öll táknin sem eru notuð).
Hann bjó til Palantírana.
Og seinast, og alls ekki síst, voru það Silmerrillarnir þrír. Í þeim hafði Fëanor fangað ljós Telperion og Laurelin (Trjánna tveggja) og voru þessir gimsteinar mestu gersemar allrar Ördu fyrr og síðar. Skemmtilegt er að segja frá því að engin annar gat komist nálægt því að búa til eitthvað í líkingu við þessa steina, jafnvel ekki Fëanor sjálfur.

Stuttu eftir að Fëanor hafði lokið smíðum á Silmerillunum var Melkor sleppt lausum. Melkor eitraði hugsanir Fëanor's og að lokum reiddist Fëanor Fingolfin svo mikið (Útaf þeim lygum sem Melkor hafði spunnið) að Fëanor var sendur í “útlegð” til Formenos, Finwë fylgdi honum þangað.
Margt gerðist hér með og ætla ég ekki að fara nákvæmlega í þá sálma, en í aðalatriðum þá sendu Valarnir Tulkas á eftir Melkor, sem slapp. Melkor reyndi aftur að spilla huga Fëanor's en Fëanor áttaði sig á því að Melkor vildi aðeins eitt, Silmerillana. Eftir að Fëanor og Finwë höfðu farið til Formenos var Fingolfin réttborinn konungur Noldor en eftir að Fëanor hafði áttað sig á lygum Melkor buðu Valarnir honum og föður hans aftur til Valinor og Fingolfin “gaf” Fëanor aftur þann sess að vera konungur Noldor (Sem elsti sonur Finwë þá).

Á meðan allt þetta gerðist, hafði Melkor flúið suður og myndaði hálfgert bandalag við risakóngulóina Ungoliant, í sameiningu eyðilögðu þau Tréin Tvö og héldu svo til Formenos þar sem þau drápu Finwë (Hann var fyrsti álfurinn til þess að deyja í Valinor, sem mér finnst þó frekar skrýtið, þar sem Fëanor og Finwë var boðið aftur til “Valinor”, en samt var Finwë drepinn í Valinor (Formenos nánar tiltekið)) og stálu Silmerillunum. Eftir það sluppu þau yfir Helcaraxë til Beleriand.

Þetta allt gerðist þegar Fëanor og Fingolfin voru að sættast og var Fëanor beðinn um að gefa frá sér Silmerillana til þess að koma aftur ljósi í Tréin Tvö, en Fëanor og hans ofsaskap sögðu að hann myndi aldrei gefa upp steinana af frjálsum vilja.

Þegar Fëanor frétti af andláti föður síns bölvaði hann Melkor í sand og ösku og gaf honum þá það nafn sem flestir þekkja hann sem, Morgoth, eða “Black Foe of the World”. Eftir það sannfærði flesta af sínum stofni (Noldor) um það að Valarnir væru engu skárri en Morgoth og fékk þá til að fylgja sér til Miðgarðs þar sem þeir myndu berjast við Morgoth. Þar á eftir sór Fëanor eyðinn umtalaða, sem og hans 7 synir.



Tilvitnun:
Be he friend or foe || or foul offspring
of Morgoth Bauglir, || be he mortal dark
that in after days || on earth shall dwell,
shall no law or love || nor league of Gods,
no might nor mercy, || not moveless fate,
defend him for ever || from the fierce vengeance
of the sons of Fëanor, || whoso seize or steal
or finding keep || the fair enchanted
globes of crystal || whoso glory dies not,
the Silmarils. || We have sworn for ever!


Þarna sór Fëanor það að elta uppi hvern þann sem hindraði Fëanor og hans sonum aðgang að einhverjum af þrem Silmerillunum, hvort sem væri Vali, Álfur eða Mann (Þó svo að mennirnir væru ekki komnir til Ördu á þessum tímapunkti var vel vitað um komu þeirra), hvort sem viðkomandi væri góður eða illur, stór eða smár. Þeir sóru jafnvel í nafni Ilúvatar's, þannig að þeir voru ekkert að grínast með þetta.

Þetta er fyrsta útgáfa eyðsins og er talið að hún hafi verið skrifuð á árunum 1918-1920. Eins og glöggir lesendur sjá er þetta ort í svipuðum stíl og Ljóðaháttur og Dróttkvæði (Ég man engan vegin hvernig þetta er stafsett).

Skemmtilegt er að segja frá því að Tolkien skrifaði flestar sínar sögur sem ljóð. Og fyrir þá sem eru áhugasamir um það eru ljóðaútgáfur af sögunum í History of Middle-Earth bókunum, þær koma á eftir hverri sögu fyrir sig.

En aftur að Fëanor. Fëanor (Báðir hálf-bræður hans fylgdu honum) hélt beinustu leið til Miðgarðs en það sem gerðist á leiðinni þangað er talið sem eitt af stærri (Ef ekki sá stærsti) harmleikur í öllum af skrifum Tolkiens. Þeir fóru að ströndum Aman þar sem álfar þekktir sem Teleri bjuggu. Teleri kynstofninn neitaði að lána þeim skipinn sín en Fëanor sem var ennþá eldheitur eftir ræðuna og allt hatrið skipaði mönnum sínum að fara í skipin. Hinir álfarnir veittu mótspyrnu og bardagi braust út. Margir létu lífið og snéri Finarfin til baka eftir þetta, þar sem að honum fannst nóg komið, hann varð þá konungur Noldor í Valinor.

Fëanor og synir hans leiddu fyrsta hóp skipanna, þar sem að allir komust ekki yfir í sömu ferðinni. Hinsvegar þegar komið var til Losgar (Í vestur Beleriand) brenndu Fëanor og hans menn skipin og yfirgáfu þar með þá sem höfðu ætlað að fylgja þeim. Restin af álfunum, þar á meðal Fingolfin, fóru því yfir Helcaraxë og misstu þar marga menn.

Fëanor, enn fylltur af reiði og hatri í garð Morgoth, hélt beint til Angband en var ráðist á hann í Mithrim (Suð-vestur partur Hithlum, sem einhverjir ættu að kannast við úr The Children of Húrin). Sá bardagi var kallaður Dagor-nuin-Giliath, eða The Battle Under the Stars, þar sem að sólin og tunglið höfðu ekki verið búin til á þessum tíma.

Noldor menn unnu þennan bardaga og héldu áfram ótrauðir til Angband. Þegar Fëanor var farinn að sjá í Angband varð hann fyrir umsátri nokkurra Balrogga (Sjáiði það ekki fyrir ykkur? Sérstaklega ef þið notið þá mynd af Balroggum eins og hún var gerð í myndunum. 10 Balroggar að fela sig í runnum haha), Fëanor barðist hetjulega en var að lokum særður af Gothmog, kapteini Balroggana. Synir hans komu honum til bjargar og náðu að reka Balroggana burt. En Fëanor vissi að þessi sár yrðu honum að bana og er sagt að þegar Fëanor hafi dáið hafi andi hans (Hann hét nú Fëanor, sem átti að þýða Spirit of Fire) brennt líkama hans svo að ekkert stóð eftir nema aska (Án efa magnaðsti dauðdagi sem ég hef lesið).

Gaman er að segja frá því, að í þeirri sögu þar sem Morgoth sleppur úr “The Void” og er að lokum sigraður. Muni Mandos sleppa Fëanor úr sölum sínum og ljá Yavönnu sína mestu gimsteina og mun hún brjóta þá og munu Tréin Tvö þá lýsa aftur. En hver veit, þetta er bara spádómur Mandos.


Þá er sögulegi parturinn búinn. Núna ætla ég að setja fram nokkrar pælingar sem ég hef pælt í lengi og lesið annarstaðar.

Sú fyrsta eru tengsl Fëanor's við raunveruleikann. Eins og við vitum flest, þjónaði Tolkien sjálfur í stríðinu og benda margar sögur hans til einhverra tengsla við það tímabil. Sú kenning sem mér hefur fundist mest varið í, er sú lýking á Fëanor og Hitler sjálfum. Þetta hljómar frekar asnalega en á sér ágætis stoðir. Flestir myndu strax líkja Hitler við Sauron en Sauron hafði í raun engin markmið, hann vildi bara eyða öllu sem var á milli hans og hringsins.

Fëanor og Hitler hinsvegar, eiga mun meira sameiginlegt. Báðir voru þeir ræðu snillingar og gátu sannfært fólk með orðunum einum, sbr. ræðuna sem Fëanor flutti þegar faðir hans var drepinn (Þarf varla að útskýra ræðusnilli Hitlers, venjulegur maður gæti aldrei sannfært heila þjóð um það að útrýma heilum trúarflokki af jörðinni). Þeir höfðu báðir rosalegan vilja til að gera það sem þeir höfðu sér fyrir höndum (sbr. Fëanor að drepa hans eigin kyn). Það er eitthvað meira en ég ætla að leyfa fólki að segja sínar skoðanir á þessu máli.

Hver er vondi kallinn?
Þessi saga og allt það sem gerðist í kringum Fëanor er í raun ástæða alls sem gerðist á eftir þessu. Melkor hefði aldrei gengið til liðs við Ungoliant ef hann hefði ekki girnst Silmerillana svona mikið. Og ef Fëanor hefði ekki smíðað þá, hefði ekkert af þessu gerst. Hver er þá vondi kallinn? Melkor eða Fëanor? Blekkti Melkor Fëanor svona rosalega? Eða hvað? Koma einhverjir aðrir til greina? Auðvitað.

Eftir miklar pælingar eru nokkur nöfn sem koma upp í hugann á mér. Til að byrja með,
Míriel. Hugsið ykkur nú ef Míriel hefði ekki ákveðið að deyja, Finwë hefði ekki gifst aftur og Fëanor hefði jafnvel verið einkabarn (A.m.k. verið elstur af alsystkynum). Þá hefði aldrei skapast sú togstreyta á milli Fëanor's og hálfbræðra sinna um sess hans sem konung Noldor. Langsótt en á sér þó alveg stoð. Hún hefur oft einnig verið nefnd sem “the first sign of the shadow that would fall on the Blessed Land”.

Næstur á listanum er Finwë. Afhverju? Jú, hann hefði getað komið í veg fyrir þennan skapofsa í Fëanor og togsreytunni sem skapaðist á milli Fëanor og bræðra hans (Eins og þið sjáið, hefur persónuleiki Fëanor's úr mestu að ráða hér). Hann sinnti seinni sonum sínum mun meira en Fëanor, þó svo að Fëanor hafi verið mestur af þeim öllum.

Það er öruglega hægt að finna einhverja fleiri. Ykkur er velkomið að koma með uppástungur.

En að lokum ætla ég að segja mitt álit á þessu máli.

Fëanor á mest alla sökina, ásamt Melkor (Frekar augljóst en það er gaman að pæla í öðrum áhrifavöldum eins og ég gerði hérna fyrir ofan).

Ákvarðanir Fëanor's vörpuðu skugga á alla álfa í Valinor og uppreisnin hans varpaði einnig skugga á raunverulega vandamálið í Ördu. Uppreisn Melkor gegn Ilúvatar.

Fëanor er í raun týpískt dæmi um persónu sem á allt, getur allt og hefur allt (Nema kannski föður og móður?). Hann var of stoltur, hann gat ekki gefið undan og sagt að hann hefði rangt fyrir sig og játað mistök sín. Og hélt því alltaf áfram og bætti hreinlega viði á eldinn og varð “verri og verri”. Hann var i raun ekki “illur” eins og þau illmenni sem Tolkien skrifaði um en hann táknar vissulega það sem kallað er á góðri íslensku “fall from grace”.

Og þessi galli, sem Melkor, Fëanor (og útlagarnir) og Menn Vestursins (The Dúnedain) áttu sameiginlegan var sá að þeir voru betri og meiri en kynbræður- og systur sínir og í sínu eigin stolti hættu þeir að nota höfuðið og hugsa rökrétt og urðu “illir” (Fóru a.m.k. af hinum “rétta” vegi).

None and none! What I have left behind I count now no loss; needless baggage on the road it has proved. Let those that cursed my name, curse me still, and whine their way back to the cages of the Valar! Let the ships burn!
Fëanor, Spirit of Fire.