Fyrsta Lord of the Rings gagnrýnin Jæja, ágæta fólk sem bíðið með mikilli eftirvæntingu eftir að fá
að sjá fyrsta hluta Lord of the Rings-trílógíunnar.
Ég er víst búinn að sjá þessa blessuðu mynd sem maður
hefur beðið eftir í fleiri fleiri ár.
Og veldur hún vonbrigðum: Nei
Og er þetta hin ágætasta mynd: Ó Já

Þetta var alveg ótrúlegt, verð ég að viðurkenna. Ég held þetta
hafi verið ein besta bíóupplifun mín nokkurn tímann. Ég mætti
í Laugarásbíó klukkan hálf þrjú og labbaði inn. Þetta var
sýning fyrir Kvikmyndaeftirlitið og nokkra aðra gesti og þar af
leiðandi frítt popp og kók. Ég sá nú reyndar eftir því að hafa
fengið mér kók, því ég var seinni helming myndarinnar alveg í
spreng og auðvitað var ekkert hlé.
Maður sest svo í stólinn og myndin byrjar nánast strax. Engar
auglýsingar eða neitt.
Myndin hefst á ótrúlega góðu prologue þar sem er aðeins
farið yfir söguna á bakvið Hringinn. Það er hér sem maður
gerir sér grein fyrir að þetta er alls engin fantasía á léttu
nótunum (eins og Harry Potter og D & D). Tolkien vildi heldur
ekki kalla sögu sína fantasíu. Nei, hér er grafalvarlegt
sögulegt verk á ferðinni. Cate Blanchett talar á meðan og gerir
það á skemmtilegan hátt með athyglisverðri rödd sinni. Þetta
var einn af uppáhaldsköflum mínum í myndinni. Svo hefst
sagan sjálf og ég á ekki orð. Þetta er bara nákvæmlega eins
og maður ímyndaði sér land Hobbita.

Sjónrænt útlit myndarinnar stendur sérstaklega uppúr. Peter
Jackson hefur tekist að koma Miðgarði á hvíta tjaldið - meira
þarf ekki að segja. Stórkostlegt landslag, flott hús og kastalar
og ýmis konar furðuverur hér og þar. Brellan til þess að láta
Hobbita-leikarana líta minni út, tekst mjög vel og aldrei er
maður aldrei í vafa um hver sé Hobbiti, Dvergur, Álfur eða
Maður.
Tæknibrellur takast mjög vel og tröll eitt sem Föruneytið rekst
á í Moría er sérlega vel heppnað.

En þó mynd líti vel út, þá þýðir það ekki að hún sé góð. Margar
myndir hafa orðið þeim mistökum að bráð að láta
tæknibrellurnar ráða ferðinni. Það gerist ekki í þessari mynd.
Leikurinn stendur mjög uppúr og trúi ég því að einhver
leikaranna hljóti að fá tilnefningu fyrir leik sinn. Þeir sem
gerðu best að mínu mati er Ian McKellen (Gandalfur), Sean
Bean (Boromir), Cate Blanchett (Galadriel) og Liv Tyler
(Arwen).
Það á örugglega eftir að koma mörgum á óvart hvað Liv Tyler
stendur sig ótrúlega vel. Hlutverk hennar er ekki mikið (mun
minna en orðrómar hafa haldið fram) en það litla sem hún
leikur, gerir hún mjög vel; hún leikur á allt annan hátt en í fyrri
myndum sínum. Maður þekkti hana varla.
Ég var sennilega hrifnastur samt af Cate Blanchett og maður
gapti alveg yfir senu hennar og Elijah Wood (Fróði).

Ef við berum saman bókina og myndina þá verður maður
auðvitað var við ýmsa hluta bókarinnar sem vantar í myndina.
En ég verð nú bara að segja eins og er, að handritshöfundum
hefur tekist vel upp í að sía það út sem ekki skiptir eins miklu
máli. Að sjálfsögðu þá munu einhver sakna nokkurra
persóna, setninga og kafla sem þeir hefðu virkilega viljað sjá í
myndinni. En saga Tolkiens er svo stór og mikil að það er ekki
hægt að koma öllu fyrir. Og ef reynt hefði verið að koma
sumum atriðum fyrir þá hefði það bara þýtt að að staldrað
hefði verið stuttar við á öðrum mikilvægari stöðum.
Mikið hefur verið rætt um þær breytingar sem gerðar hafa
verið á sögunni. Flestir þekkja það að Álfinum Glorfindli, sem
hitti Hobbitana og Aragorn rétt fyrir utan Rivendell, hefur verið
skipt út fyrir Álfameynni Arwen sem lítið sem ekkert kom við
sögu í fyrstu bók. Margir hafa reiðst þessari ákvörðun en ég
held svei mér þá að þetta hafið verið hið rétta. Senan er mjög
góð.
Aðalmunur bókarinnar og myndarinnar er sá að bókin segir
alla söguna en myndin sleppir atriðum sem skipta ekki eins
miklu máli.

Bardagasenurnar takast mjög vel og gaman er að sjá
mismunandi bardagatækni Álfs, Manns eða Dvergs. Senurnar
eru hæfilega langar og aldrei illa gerðar eða leiðinlegar. Ég
segi ekki að þetta séu með bestu bardagasenum sem ég hef
séð en þær komast þó mjög nálægt því og verður maður
nokkuð spenntur á köflum.

Gaman fannst mér að húmornum og kaldhæðninni í myndinni
og hló salurinn þó nokkuð oft upphátt. Sérstaklega var gaman
að Billy Boyd (Pípinn Tóki).

Eitt sem einkenndi myndina frá og með fyrsta hálftímanum var
hversu dimm hún er. Ég veit ekki hvað aldurstakmarkið verður
á henni og er nokkuð erfitt myndi ég halda að ákveða það.
Ofbeldið er ekki of gróft en það sem gæti helst hrætt börn er
sennilega hversu myrk hún er, svo ekki sé minnst á hina
vægast sagt ófrýnilegu Orka.

Að lokum þá tel ég þessa mynd ótrúlega vel gerða túlkun á
fyrri hluta Hringadróttinssögu. Myndin er mjög spennandi, vel
leikin, sorgleg og glaðleg í senn og nær stemmningunni sem
var í bókinni.

Kannski það eina sem ég hef út á hana að setja er að ég
hefði viljað sjá aðeins meira af Rivendell og Lotlóríen og svo
saknaði ég nokkurra uppáhalds setninga minna.

Hún á ekki skilið minna en 4 stjörnur. Peter Jackson gerði hið
ómögulega.

Og ég bíð verulega spenntur fyrir næstu mynd, sérstaklega
þar sem að Jackson veit hvað hann er að gera. En þangað er
nú langt að bíða og þangað til mun maður sjá þessa mynd
nokkrum sinnum aftur og svo kemur myndin út á DVD í
sumar.