Bilbó baggi 4. Bilbó Baggi 4.hluti

Jæja hér kemur fjórði og næstsíðasti kaflinn um hobbitann og föruneyti hans.

Eftir að Drekinn hafði hætt að herja á fjallið og skotist til vatnaborgarinnar sátu dvergarnir og Bilbó eftir í fjallinu. Þeir skriðu að dyrunum en því miður hafði ysti hluti ganganna hrunið og þá voru þeir fastir inn í fjallinu; ein leið lokuð og ef þeir reyndu að fara hina myndi Smeyginn mæta þeim og drepa. En þar sem að enginn annar möguleiki var eftir ákváðu þeir að fara í gegnum fjallið og að reyna að komast út hinum megin. Þeir fóru að sal einum sem varð á vegi þeirra í gegnum fjallið. Þeir gengu niður tröppur í algjöru myrkri. Þegar nokkrar tröppur voru eftir skrikaði Bilbó fótur og kútveltist niður tröppurnar. Þar lá hann á grúfu, grafkyrr og gaf ekki frá sér hljóð. Þó að lokum kallaði hann “ljós” og það varð ljós. Dvergarnir kveiktu það og gengu niður til hans. Þar sem enginn dreki var sjáanlegur leituðu þeir að útgangi.

Nokkru síðar komu þeir að gullhaug drekans og þar sem enginn var heima fylltu þeir vasana af gulli. Bilbó rambaði á stóra, fagran gimstein sem hann tók upp og setti í vasann. Þeir fundu nokkrar brynjur og sverð sem þeir skiptu út fyrir gömlu fötin sem voru rifin og tætt. Bilbó fékk “míþrílsbrynjuna” sem flestir muna eftir úr fyrstu myndinni. Þar sem að Þorinn þekkti hvern krók og kima í fjallinu eltu þeir hann í gegnum fjallið nokkurn spöl og komu loks að framhliðinu. Útsýni mikið var yfir Dal sem þeir héldu að aldrei yrði mögulegt að sjá vegna drekans; meiri líkur voru til þess að þeir yrðu étnir. Þar bað Balinn þá að fylgja sér upp eftir fjallinu til gamals varðstaðar á suðvesturhorni fjallsins þar sem þeir ætluðu að matast og kanna aðstæður. Eftir þó nokkurn gang og allmikið klifur komu þeir á áfangastað og settust niður, tóku til matar og ræddu um hvað þeir ættu næst til bragðs að taka.

Á meðan hafði drekinn skotist eftir ánni og ráðist á bæinn. Þegar bæjarbúar tóku eftir honum fylltu þeir hvert ílát af vatni og sérhver stríðsmaður tók til vopna og brýrnar voru brotnar. Smeyginn steypti sér yfir borgina í gríð og erg og í hvert skipti sem hann steypti sér niður skall örvahríð á honum. En örvarnar voru vita gagnslausar gegn demantsbrynju hans og féllu aftur brotnar í vatnið. Hann hirti ekki um örvarnar heldur hugsaði hann aðeins um það að leggja borgina í rúst. Fólk var farið að stökkva í vatnið allt um kring og verið var að hlaða konum og börnum í báta sem sigldu í átt að landi. Þar sem flestir voru flúnir úr rústunum voru aðeins nokkrir bogliðar eftir undir stjórn Bárðar, sem var afkomandi Girions, höfðingjans á Dal. Hann átti aðeins eina ör eftir. Og þegar öll von virtist vera úti birtist þröstur sem settist á öxl Bárðar og sagði: “Bíddu við! bíddu við, máninn rís! Miðaðu á holkrikann undir vinstra brjóstinu þegar drekinn flýgur og snýr sér við yfir þér.
Síðan spennti Bárður bogann sinn til fulls og beið. Þegar drekinn nálgaðist, birtist máninn yfir austurbakkann og varpaði silfruðu gliti um risavaxna vængi drekans.
Og þegar drekinn steypti sér niður í berserkgangi sínum sá Bárður óvarða hluta bringunnar og hann hleypti af. Örin skaust inn í bringu drekans sem féll dauður niður á borgina.

Stuttu seinna safnaðist fólkið sem enn var á lífi, harmi lostið, saman á austurbakkanum. Þegar Bárður birtist úr skugganum hrópaði fólkið “Bárður konungur! Bárður drekabani!” Og þar sem öll reiði þeirra bitnaði á borgarstjóranum, sem hafði verið einn af þeim fyrstu til að flýja borgina, reyndi hann að draga athyglina frá sér. “Hvers vegna að skella allri skuldinni á mig? Hvað hef ég gert til þess að verða settur af? Hver vakti drekann af svefni, má ég spyrja? Hverjir hlutu dýrar gjafir og mikla hjálp frá okkur og töldu okkur trú um að hinir fornu söngvar myndu rætast? Hverjir spiluðu á velvilja okkar og fagra drauma? Hvernig gull hafa þeir nú sent niður eftir ánni til að launa okkur? Drekaeld og rústir! Frá hverjum eigum við að krefjast bóta fyrir allt okkar tjón eða heimta hjálp við ekkjur og munaðarleysingja?”
Eftir þessa ræðu hrópaði fólkið bölvanir og ásakanir um að dvergarnir hefði vísvitandi sent drekann til borgarinnar.
“Hvaða vitleysa” sagði Bárður. “Hvað ætlið þið náið ykkur niðri á þessum vesalingum? Vafalaust hafa þeir farist fyrstir allra í eldinum í Fjallinu, áður en Smeyginn réðst á okkur.”

Allir voru að velta sér yfir fjársjóði Smeygins og hugsuðu um hann sem fullar bætur fyrir missi sinn. En á meðan sendi Bárður sjálfboðaliða upp eftir ánni til að biðja álfana um hjálp. En þeir mættu her álfa sem hafði fengið að vita hvað hafði gerst og græðgi konungs dreif hann áfram með það í huga að komast að fjallinu og ræna þeim fjársjóðum sem að dvergarnir áttu. En þegar konungurinn heyrði hjálparbeiðni Bárðar fór hann með her sinn þangað í stað þess að fara strax að fjallinu, því að í raun voru allir álfar góðir. Þremur dögum eftir að vatnaborgin hafði verið lögð í rúst lögðu allir vopnfærir menn með álfakonungi og hans fylgdarliði upp að fjallinu.

Aftur að dvergunum og Bilbó. Á meðan fyrrgreindir atburðir gerðust hafði alltaf einhver verið á verði í skýlinu að fylgjast með drekanum. Eftir nokkra daga fannst þeim skrítið að enginn væri kominn aftur heim. Þá birtist aftur gamli þrösturinn sem hafði sagt Bárði frá veika punktinum á drekanum, og í fylgd með honum var eldgamall hrafn. Þar var á ferð hrafnakonungur sem hafði verið ungi þegar Smeyginn réðist á fjallið og hafði búið þar með ætt sinni síðan. Hann var orðinn gamall og visinn, gat varla flogið og ekki sást hár (eða fjaðrir!) á höfði hans. Svo byrjaði hann að tala: “ Ó, Þorinn Þráinssonur og Balinn Fundinssonur” mælti hann á venjulegu máli, “ Ég er Hróki sonur Karka. Nú er Karki fallinn frá en þið þekktust vel. Nú eru hundrað ár og þrjátíu og fimm síðan ég klaktist úr eggi, en ég gleymi engu sem faðir minn sagði mér. Nú er ég hrafnahöfðingi fjallsins. Við erum að vísu fáir, en minnumst vel konungsins til forna. Flestir mínir þegnar eru nú horfnir í fjarska, því að mikil tíðindi eru að gerast í suðrinu – sum gleðitíðindi fyrir ykkur, en önnur óhagstæðari. Sjá! Fuglarnir flykkjast aftur til fjallsins og á Dal úr suðri, austri og vestri, því að orð berast út að Smeyginn sé dauður!”

“Dauður, þá höfum við ekkert að óttast, hrópuðu dvergarnir hver í kapp við annan”.
“Já hann er dauður” mælti Hróki. “Sjálfur þrösturinn sá hann drepast, og við getum treyst orðum hans. Hann sá drekann falla í orrustu við íbúa Vatnaborgarinnar fyrir þremur nóttum undir rísandi tungli. Þetta voru sannarlega gleðitíðindi, Þorinn Eikinskjaldi. Nú getur þú snúið aftur öruggur til hallar þinnar og allir fjarsjóðirnir eru þínir – í bili. En margt fleira en fuglarnir er byrjað að flykkjast hingað. Fréttirnar af dauða fjarsjóðshaldarans mikla hafa borist langt og víða og lýsingarnar af auðlegð Þrórs hafa síst minnkað með árunum. Margir eru óðfúsir að krækja í sinn hluta af fjarsjóðinum. Nú þegar er stór herfylking álfa á leið sinni hingað og fylgja heilu skýin af hræfuglum í von um orrustu og slátrun. Á bökkum vatnsins ganga menn þrumandi um og fjölyrða um það að allar þeirra hörmungar séu ykkur dvergunum að kenna. Vesaling fólkið er nú heimilislaust og margir hafa dáið, því að Smeyginn eyddi borg þeirra. Þeir vonast líka eftir að finna uppbót í fjarsjóði þínum og hyggjast hirða sinn skerf að þér dauðum eða lifandi.
Þú verður nú að ákveða þig af eigin visku. Þið eruð aðeins þrettán eftir, og er það lítið af hinni miklu Durins þjóð sem eitt sinn dvaldist hér en hefur síðan dreifst um víða veröld. Ef þið viljið hlýða mínum ráðum, treystið þá ekki borgarstjóra þeirra vatnabúa; betri er sá sem skaut drekann með boga sínum. Bárður heitir hann og er ættaður af Dal, af ætt Girions. Hann er harðskeyttur maður en heiðarlegur. Við vildum fá að sjá hér að nýju frið meðal dverga, manna og álfa eftir hina áralöngu eyðingu, en það gæti kostað ykkur of fjár í gulli. Ég hef lokið máli mínu.”

Þá mælti Þorinn “Þakkir áttu skildar Hróki Karkasonur. Ég mun aldrei gleyma þér né þinni þjóð. En eitt vil ég bara láta þig vita, að engu gulli skulu þjófar stela, né ofbeldismenn ræna mig, meðan ég er enn á lífi. Ef þú vildir ávinna þér enn meiri þekkir okkar, geturðu fært okkur fregnir af því þegar þeir nálgast. Líka vildi ég biðja þig ef nokkrir ykkar eru enn ungir og sterkir á væng, að þið létuð sendiboða fara til frænda okkar. En farið þó sérstaklega til frænda míns, Dáins í Járnhólum, því að hann ræður yfir fjölskipuðum og vel vopnuðum dvergaher og býr líka næst okkur. Biðjið hann að hraða för sinni hingað.”
“Ég skal gera það sem ég get” sagði Hróki og flaug í burtu. Þá hröðuðu dvergarnir og Bilbó sér niður til fjallsins.
Váv.