Bilbó Baggi 3. hluti Hér kemur þriðji hlutinn um svaðilfarir Bilbó Bagga.

Bilbó og dvergarnir voru nú komnir til vatnaborgarinnar. Þeir gengu til varðmanna sem spurðu þá hverjir þeir væru og hvað þeir væru að gera. Þorinn sagði þá þrumandi röddu “Ég er Þorinn, sonur Þráins, sonar Þrórs konungs undir fjalli. Ég er kominn aftur, ég vil hitta borgarstjóra ykkar”. “Komið þá með mér” sagði vörðurinn og leiddi þá að stóru húsi. Þeir gengu inn í húsið þar sem var stór veisla og Þorinn sagði aftur þessi afdrifaríku orð “Ég er Þorinn, sonur Þráins, sonar Þrórs konungs undir fjalli. Ég er kominn aftur!”

Allir þustu á fætur en engir urðu jafn undrandi og skógarálfarnir sem sátu yst í salnum og sögðu “Þetta eru fangar konungs okkar sem hafa sloppið úr haldi, reikandi flækingar sem gátu enga skýringu gefið á ferðum sínum, laumuðust í gegnum skóginn og réðust á okkar fólk”. “Er það satt?” spurði borgarstjórinn. “Það er rétt að álfakonungurinn hamlaði för okkar og fangelsaði okkur saklausa, á heimferð okkar. En hvorki lásar né slár fá hindrað þá heimkomu sem kveðið er á um í fornum fræðum. Vonandi er þessi borg ekki heldur undir valdi skógarálfa. Ég ávarpa sjálfan borgarstjóra þessarar mannaborgar vatnsins, ekki flotaræðara konungs”. Borgarstjórinn tók dvergana og Bilbó ekki til fanga og leysti þannig mál þeirra, gegn vilja álfannna. Fólk hljóp út á götu og hóf að syngja Þorinni og föruneytinu lofsöng:

Konungur undir Fjalli,
úthöggvinn í stein.
Konungur silfurlinda,
kemur aftur heim.

Höfuð hans skal krýna,
harpan strengd á ný,
gullnir salir glymja
gleðisöngvum í.

Skógar fjöllin skrýða,
skín yfir landið sól.
Glampar allt í gulli,
grasið vex á hól.

Tifa árnar tærar,
tindar á vatnafjöld.
Konungur undir Fjalli
tekið hefur völd.

Skógarálfarnir sem voru staddir þarna urðu smeykir því að þeir höfðu ekki hugmynd um hvernig dvergarnir höfðu sloppið úr haldi og héldu að konunginum hefðu orðið á mistök. Dekrað var við föruneytið og gengu þeir í gullklæðum á götum úti og í veislum sem urðu ærið margar.

En á meðan barst sú fregn til hallar álfakonungsins að dvergarnir hefðu komist til vatnaborgarinnar. Hugsaði konungurinn með sjálfum sér:
“Ojæja! Við sjáum nú hvað setur! Engir fjársjóðir munu sleppa til baka gegnum Myrkvið án þess að ég komi þar eitthvað við sögu. En annars býst ég svo við að þeir fái allir hörmulegan endi, sem er alveg maklegt á þá”. Hann sendi njósnara til vatnaborgarinnar og líka nokkra eins nálægt Fjallinu eina og þeir vildu fara, síðan beið hann átekta.

Eftir tvær vikur fór Þorinn að huga að brottför. Hann fór á fund borgarstjórans og sagði honum að þeir félagar vildu drífa sig í átt til fjallsins hið bráðasta. Borgarstjórinn gaf þeim það sem þeir þurftu til ferðarinnar og síðan héldu þeir í norðurátt. Eftir tveggja daga siglingu komu þeir að árbakka nálægt fjallinu og fóru þeir þar í land. Síðan þrömmuðu þeir í átt að fjallinu, daufir í dálkinn. Því nær sem þeir komu fjallinu því líflausara varð landið og sást hvorki kjarr né tré. Þeir lögðust til svefns þar sem fjallið gnæfði yfir þá. Þeir höfðust þarna við í nokkra daga og leituðu að leynidyrunum. Og loksins fundu þeir þær.
Um kvöldið opnuðust dyrnar. Tunglskin braust í gegn um skýjaþykknið og skein á rifuna. Þá gerðist það; hurð myndaðist í berginu og Þorinn stakk lyklinum sem fylgdi með kortinu í skráargatið og þeir opnuðu hurðina rétt áður en tunglið hætti að skína. Hyldjúpt myrkur blasti við þeim eins og gapandi gin í berginu.

Dvergarnir sendu þá Bilbó inn til þess að skoða fjallið, en Balinn fylgdi honum stuttan spöl. Þegar Balinn skyldi við hann setti Bilbó á sig hringinn og gekk þungum skrefum lengra inn ganginn úr augsýn dverganna. Þegar hann var kominn lengra inn ganginn kom ylur á móti honum, því meiri því lengra sem hann gekk og loks kom rauð birta á móti honum. “Drekinn, hingað og ekki lengra” hugsaði Bilbó með sér en Tókaeðli hans hafði betur og hann náði loks að gullhaug drekans, tók upp stóran gullbikar og flúði til dverganna, fagnandi yfir því að hafa náð bikarnum. En á meðan dvergarnir handléku bikarinn vaknaði Smeyginn frá leiðindadraumi einum þar sem hann átti í basli með riddara. Um leið og hann vaknaði tók hann eftir því að bikarinn var horfinn og flaug hann þá út um aðalhliðið ævareiður.

Dvergarnir stóðu stjarfir fyrir utan leynidyrnar í hvininum frá drekanum og hann hefð líklega drepið þá alla ef Bilbó hefði ekki öskrað “komið, fljótir!”. Þeir skriðu inn göngin en þá uppgötvaði einn dvergurinn að það vantaði Vamba og Bóg sem höfðu beðið fyrir neðan sylluna hjá vistunum. Sem betur fer náðu þeir að koma þeim upp og skjótast inn leynidyrnar áður en drekinn breytti öllu í bál og brand. Hann elti og drap flesta hestana og lamdi með vængjum sínum í vegginn þar til skriður tóku að falla niður hlíðarnar. Svona tók Smeyginn út reiði sína í nokkra stund en flaug svo inn í bæli sitt. Föruneytið ákvað þá að hafa hægt um sig og fara aðeins út til þess að sækja meiri vistir. En Bilbó ákvað að fara í annan könnunarleiðangur. Hann setti á sig hringinn og gekk niður göngin. Hann var kominn að bæli Smeygins þar sem hann lá sofandi. “Svo að gamli Smeyginn er þreyttur og sofandi” sagði Bilbó við sjálfan sig.

En þegar hann ætlaði að ganga inn í hellinn sjálfan tók hann eftir því að Smeyginn opnaði annað augað og leit til hans. Bilbó bakkaði frá gangaopinu og þakkaði hringnum fyrir að hafa bjargað sér. “Svona nú þjófur! Ég finn lyktina af þér og loftinu sem kemur inn með þér. Ég heyri þig líka anda. Komdu nú og gjörðu svo vel! Bjargaðu þér sjálfur; hér er af nógu að taka handa þér”, mælti Smeyginn. Bilbó var þó ekki það heimskur að trúa þessum orðum og svaraði Smeygni um leið: “Nei þakka þér fyrir, Ó, Smeyginn hinn hrikalegi!” “Ég kom ekki til að þiggja gjafir heldur langaði mig aðeins til að heimsækja þig og vita hvort þú værir í reynd svo mikill sem sagnirnar herma. Ég trúði þeim ekki.” “En trúirðu þeim nú!” svararði Smeyginn hrósinu. “Sannlega komast söngvar og sagnir eigi í hálfkvisti við raunveruleikann, Ó, Smeyginn, æðstur og voldugastur af öllum plágum.” Svaraði Bilbó. “Það kalla ég að þú sért kurteis af þjófi og lygara að vera” mælti drekinn “Þú þykist þekkja vel nafn mitt, en ég kem ekki lyktinni af þér fyrir mig. Leyfist mér að spyrja hver ertu og hvaðan kemurðu?”
“Víst máttu það! Ég kem undan hæð og undir hæð og yfir lá leið mín og um loft hæðir, Ósénn geng ég.”
“Því get ég vel trúað” sagði Smeyginn, “en varla er það venjulegt nafn þitt.”
“Ég er gátugreiðir, vefskeri, flugustingur. Svo var ég valinn sem einskonar happatala.”
“Dálagleg nöfn, en happatölur hitta ekki alltaf á hnappinn”.
“Ég gref vini mína lifandi og drekki þeim og dreg þá síðan aftur á lífi upp úr vatninu. Ég var bundinn fast í bagga en þó fékk enginn baggi bundið mig.”
“Ekki virðist það þó trúlegt” svaraði Smeyginn með háði.

“Ég er bjarnvinur og arngestur. Ég er hringfari, lukkugapi og tunnuknapi,” sagði Bilbó og var farinn að vera nokkuð montinn af svaðilförum sínum.
“Það var þó betra, en ekki láta hugmyndaflugið hlaupa með þig í gönur!” sagði Smeyginn “Ég þóttist vita það strax í gærkvöldi. Skyldu það ekki vera þessir vatnabúar með eitthvert andstyggilegt ráðabrugg, þessir vesælu tunnumangarar að mér heilum og lifandi, nema ég sé einhver eðla. Það er nú orðið æði langt síðan ég hef litið inn til þeirra, það er kominn tími til að kippa því í lag!” “Jæja einmitt það, Ó tunnuknapi, áttu kannski við að bikkjan þín hafi heitið Tunna, og þó svo sé kannski ekki, þá var hún samt nógu spikfeit fyrir mig. Má vera að þú gangir ósénn, en svo mikið er víst að þú ert ógenginn hingað. Því ég vildi bara láta þig vita að ég át sex hesta í gærkveldi og hina skal ég líka rífa í mig. Og um leið og ég vildi þakka fyrir þennan málsverð langar mig að gefa þér gott ráð:
Hafðu ekki meiri samskipti við dverga en þú kemst hjá!”

“Dverga?!?” svaraði Bilbó í uppgerðartón.
“Þú skalt ekki tala við mig í svona tón!” sagði Smeyginn “Ég ætti nú að þekkja lyktina og bragðið af dvergum, enginn þekkir hana betur en ég. Og þú skalt ekki ímynda þér að ég geti étið dvergriðinn hest án þess að vita það! Þú munt hljóta illan endi, ef þú velur þér slíka að vinum. Þjófótti tunnuknapi, mín vegna máttu fara burt til þeirra og skila þessu frá mér. Það er ekki ólíklegt að þú hafir fengið gott verð fyrir bikarinn sem þú stalst frá mér í gærkvöldi; svona viðurkenndu það, fékkstu ekki uppgripaverð fyrir hann? Eða kannski ekki neitt! Jæja, einmitt það, það væri svo sem eftir þeim. Og ætli þeir séu ekki að lúskrast fyrir utan, meðan þú ert látinn vinna allt það hættulegasta og ná í það frá mér, sem þú getur handa þeim, þegar ég er ekki nógu vel á verði? Og þú býst við að fá þinn réttláta skerf? Þú ímyndar þér það þó ekki! Þú mátt vera heppinn ef þú sleppur lifandi burt frá þeim!”

Bilbó var óðara að komast á vald drekans en hristi af sér vald hans og tók aftur til máls.
“Ó, Smeyginn hinn mikli og máttugi, fátt virðist þú vita, því að það var ekki gullið eitt sem dró okkur hingað.”
“Ha! ha! Þarna komstu upp um þig, okkur!”, sagði Smeyginn og hló dátt. “Þér hefði verið óhætt að segja, okkur fjórtán, og ekki vera að leyna mig neinu, Herra lukkutala! En gaman er að heyra, að þið hafið átt önnur erindi hingað um slóðir en að stela gullinu mínu. Skyldi þá vera að ferðin yrði ekki algjör tímasóun?”
“Ég veit ekki heldur hvort þú hefur hugsað út í það, að jafnvel þótt þér tækist að stela gullinu frá mér smám saman – á svo sem hundrað árum - þá kæmist þú ekki mjög langt með það? Það er lítið gagn að því í fjallshlíðinni? Einskisnýtt í skóginum? Hjálpi mér! Hefurðu aldrei leitt hugann að þessu? Þú færð fjórtánda hlut, býst ég við, eða eitthvað í þá áttina, ætli það hafi ekki verið skilmálarnir, He! He! En hvað um afhendingarskilmála? Hvað um flutninginn? Hvað um vopnaða landamæraverði og tollgjöld? Hehehe!”

Satt að segja hafði Bilbó ekki hugsað út í það hvernig hann ætti að koma öllu gullinu alla leið heim. Hann hafði bara einbeitt sér að komast sem fyrst að Fjallinu eina, ekkert hugsað um að komast heim, hvað þá um fjarsjóðinn. Þar stóð hann fyrir augliti Smeygins; þó hann væri ósýnilegur var Smeyginn búinn að finna nokkurn veginn út hvar hann stæði, og hann velti því fyrir sér hvort það væri eitthvað til í því sem Smeyginn sagði. Voru dvergarnir aðeins að nota hann og fengi hann ekkert fyrir hjálpsemi sína, eða voru þeir í raun vinir hans? En eitthvað innra með honum barðist á móti Drottnunarræðu Smeygins og hann svaraði honum fullum hálsi:

“Ég skal bara segja þér, að gullið var nú aðeins aukaatriði hjá okkur. Við komum hingað yfir hæð og undir hæð, bárumst fyrir vofum og vindum til hefnda! Já vissulega, Ó, Smeyginn ótaldra auðæva, þú ættir að skilja að í allri auðsæld þinni hefurðu eignast fjölda hatramma óvina.” “Hahaha! Hefnd” öskraði Drekinn og hló dimmum rómi. “ Hvaðan ætti sú hefnd að koma? Kóngurinn undir fjalli er dauður og hvar ættu hans afkomendur að vera sem dirfðust að leita hefnda? Girion höfðingi á Dal er dauður og ég hef rifið í mig þegna hans eins og úlfurinn étur sauðina og hvar ættu þeir sonarsynir hans að vera sem dirfðust að koma nálægt mér? Ég drep hvar sem mér sýnist og enginn þorir að sýna mér mótspyrnu. Ég lagði lágt að velli hina voldugu fornu stríðskappa og nú fyrirfinnst enginn þeirra líki í öllum heimi. Þá var ég ungur og óhertur, nú er ég gamall og sterkur, sterkur, sterkur. – Þjófur á Nóttu! Brynja mín er á við tíu skildi, tennurnar flugbeitt sverð, klærnar sem spjót, halahögg mitt þrumufleygur, vængirnir ofsaveður og andardráttur minn dauði!”

“En mér hefur nú alltaf skilist” byrjaði Bilbó “að drekar séu eitthvað mýkri að neðanverðu, sérstaklega á, hérna – ehh brjóstinu. En mikill bryndreki eins og þú, hefur sjálfsagt hugsað út í það.”
“Upplýsingar þínar eru nú aldeilis úreltar, ég er brynvarinn hátt sem lágt með járnplötum og hörðustu gimsteinum. Ekkert sverðsblað fær neins staðar unnið á mér” og drekinn var nú fullur af monti.
Ég hefði getað sagt mér það sjálfur,” sagði Bilbó. “Vissulega finnst hvergi líki Smeygins hins ógegnumstíganlega. Hvílík tign að klæðast vesti úr fínustu demöntum!”

“Já víst er það sjaldgæft og undursamlegt” sagði drekinn “sjáðu bara sjálfur”, velti sér á hliðina og sýndi Bilbó magann á sér þar sem hann var allur þakinn demantsvesti nema stór blettur í krikanum vinstra megin undir bringunni húðnakinn. Þar sem þetta voru nokkurn veginn mikilvægustu upplýsingarnar sem Bilbó hafði fengið ákvað hann að drífa sig bara til dverganna, “Jæja, mér þykir það leitt, en ég vil ekki lengur halda yðar Tignarleika uppi á svona snakki, né hindra þig í að njóta vel verðskuldaðar hvíldar. Ég veit að það hefur ekki verið auðhlaupið hjá þér að handsama hestana á hlaupunum, eins og þú hlýtur að hafa verið stirður á öllum liðamótum eftir miklar innisetur.” “Og ekki er heldur auðvelt að grípa innbrjóta” bætti hann við um leið og hann hljóp til baka aftur upp í göngin.

Hann hefði ekki átt að bæta þessu við, af því aðdrekinn spúði eldi á eftir honum og þótt að Bilbó væri kominn langt, þá var það ekki nógu langt því að eldarnir náðu honum og brenndu hann og sviðu.
“Dragðu aldrei dár að drekum, Bilbó bjáninn þinn,” sagði hann við sjálfann sig á meðan hann ráfaði til dverganna. Þegar hann var svo kominn aftur hlúðu dvergarnir að honum og biðu spenntir eftir frásögn hans.
Á meðan hann sagði frá hlustaði gamall töfraþröstur á frásögnina. Þegar Bilbó hafði lokið við hana flaug hann í burtu.

Um nóttina hafði Bilbó losað sig við alla eftirsókn í fjársjóði. Hann sat næst dyrunum og horfði út í myrkrið. Bilbó varð æ órólegri og myrkrið varð enn meira. “Lokið dyrunum” sagði hann og Þorinn reis á fætur og ýtti hurðinni þar til að þeir heyrðu smell; þeir voru nú fastir í fjallinu.

Um leið og hurðinni hafði verið lokað fór fjallið að hristast. Smeyginn hafði flogið hljóðlaust með vindinum upp að hlíðinni og er hann sá engin merki um þá trylltist hann. Klettarnir hristust, veggirnir sprungu og gangaloftið var komið að mörkum þess að hrynja. Smeyginn hamaðist þarna í svo sem klukkutíma en sá svo að sér. “Tunnuknapi, Fótspor þín lágu upp frá vatnsbakkanum og vafalaust hefur þú komið upp eftir ánni. Ég þekki ekki þessa lykt af þér, en þó þú sért enginn Vatnabúi, hefur þú vafalaust notið atbeina þeirra. Þeir skulu líka fá að kenna á mér og komast að því hver sé hinn raunverulegi konungur undir fjalli!”

Svo skaust hann niður eftir ánni til vatnaborgarinnar.
Váv.