Bilbó Baggi 2.hluti Bilbó Baggi 2.hluti

Annar kafli í útdrætti mínum um “Hobbitann”

Eftir að Bilbó stökk út í frelsið hafði hann ekki hugmynd hvar hann væri. Hann hafði týnt öllum vistunum og flestum fötunum sínum. Hann tók það til bragðs að ganga niður eftir hlíðinni og stuttu seinna heyrði hann mannamál. Hann læddist í átt að hljóðinu og sá þar rjóður sem Balinn stóð vörð um. Hann hoppaði hæð sína af kæti yfir því að hafa fundið þá, en hann ákvað að hrekkja þá. Hann setti á sig hringinn, gekk framhjá Balinn og heyrði þá dvergana og Gandalf vera að rífast um það hvað þeir ættu til bragðs að taka. Þeir voru allir öskuillir yfir því að Bilbó skyldi týnast og vildu dvergarnir drífa sig til fjallsins eina en Gandalfur vildi fara til baka og finna Bilbó. Þá tók Bilbó hringinn af sér og hrópaði: “Hér er ég”. Dvergarnir hrukku í kút af hræðslu en þeir urðu um leið mjög ánægðir með það að fá hann aftur.

Þeir drifu sig niður hlíðina því brátt kæmi nótt. Þá heyrðu þeir spangól; vargarnir voru á leiðinni. Þeir klifruðu upp í tré, því að vargarnir komast ekki upp í þau. Þegar vargarnir komu setti foringi þeirra verði við hvert tré og þá byrjuðu þeir að tala. Vargarnir kunnu að tala en á þvílíku hrognamáli að enginn gat skilið það nema Gandalfur. Hann komst að því að vargarnir ætluðu að hitta orkana á þessum stað og fara í ránsferð á bæina niðri í hlíðinni. Gandalfi brá því ef orkarnir kæmu þá myndu þeir einfaldlega klifra upp til þeirra og drepa þá.
Orkarnir komu og þegar þeir sáu þá þarna upp í trjánum ákváðu þeir að klifra ekki upp heldur að kveikja í trjánum. Yrði þá bara tvennt í stöðunni fyrir þá félaga – það að brenna eða stökkva niður og vera drepnir. En gæfan var þeim hliðholl því að ernirnir sem bjuggu í Þokufjöllum sáu eldana.

Þeir flugu til þeirra, gripu Bilbó og félaga og flugu með þá upp í hreiður sín og dvöldust þeir þar um nóttina. Morguninn eftir flugu ernirnir með þá lengra niður og skyldu þá þar eftir. Þá ákváðu þeir að finna vin Gandalfs – Björn Birning hamskipting sem gat breytt sér í björn.
Björn þessi bjó í skóginum á móti þeim. Þeir gengu inn í skóginn og eftir nokkra daga komu þeir að bústaði Björns. Gandalfur sagði dvergunum að bíða á meðan hann og Bilbó myndu fara inn og leita að Birni. Þegar þeir fundu hann sá Bilbó að hann var svo hár að sjálfur gæti hann auðveldlega gengið í gegnum klof hans. Björn var ekkert ánægður með heimsóknina og tók þeim illa en þegar Gandalfur sagði að hann væri góður vinur Ráðagests þá tók hann gleði sína á ný. Hann gaf þeim mat, birgðir og hesta til fararinnar og sváfu þeir þar um nóttina.

Morguninn eftir lögðu þeir af stað til Myrkviðs. Þegar þeir komu að rótum hans þurfti Gandalfur að sinna einhverjum mikilvægum erindagjörðum og skyldi þá eftir. Morguninn eftir lögðu þeir af stað. Gandalfur gaf þeim nokkur heilræði, t.d. það að fara aldrei út af stígnum. Að því loknu lögðu þeir af stað. Þeir riðu í einfaldri röð eftir skógarstígnum og því lengra sem leið því meira varð myrkrið.
Þeir riðu í marga daga þar til að þeir komu að á einni, straumharðri en mjórri og mundu þeir þá að þetta var álagaá sem þeir mættu alls ekki drekka af. Bátur var við bakkann og fóru þeir yfir ána á bátnum og skildu hann svo eftir. Um leið heyrðu þeir hófatak að baki sér og úr myrkrinu birtist ímynd fljúgandi hjartardýrs og stökk það yfir fljótið. Allir nema Þorinn urðu hræddir en hann tók upp boga sinn og skaut dýrið sem féll hinum megin við bakkann. En áður en þeir ráku upp fagnaðaróp öskraði Bilbó því að Vambi hafði dottið í ána og áttu þeir í fullu fangi með að toga hann upp, en það tókst sem betur fer. En þegar hann var kominn upp á bakkann var hann í dásvefni og þeir gátu ekki vakið hann.

Eftir fjögurra daga gang frá álagaánni komu þeir í hluta skógarins þar sem að mestu leyti uxu beykitré og í fyrstu líkaði þeim þessi tilbreyting vel, en síðar fóru þeir að heyra fagran hlátur sem ómaði um allt og olli þeim óþægindum. Tveimur dögum seinna komu þeir í dal þar sem háar eikur uxu og tóku þeir á það ráð að senda Bilbó upp til að skyggnast um og sjá hvar þeir væru staddir. Þar sem þeir voru í miðjum dalnum sá hann bara tré og sagði hann dvergunum að þeir væru langt frá enda skógarins sem var þó ekki raunin.
Um kvöldið átu þeir svo síðustu matarleifarnar sínar og morguninn eftir var hungrið það fyrsta sem þeir tóku eftir. Eini góði hluturinn sem gerðist var að Vambi vaknaði af dásvefninum, en hann var ekki ánægður með matarskortinn. Er þeir komu lengra inn í skóginn sáu þeir ljós, og því nær sem þeir komu urðu ljósin fleiri. Þetta voru blys og kyndlar sem loguðu undir trjánum spölkorn frá stígnum. Þeir ákváðu að fara að ljósunum og óhlýðnuðust þá ráðum Björns og Gandalfs. Þegar þeir komu alveg að ljósunum sáu þeir fjölda fólks sem var að eta og drekka býsnin öll af mat og þeir réðu ekki við sig og ruddust fram til að sníkja sér mat en þá slokknaði ljósið. Þeir sáu ekki neitt og ákváðu að sofa þar um nóttina. Um nóttina kviknuðu fleiri ljós og þeir ákváðu að fara að þeim, og um leið og þeir nálguðust slokknuðu þau og aska þeyttist í augu dverganna sem hlupu um allt.

Bilbó hafði týnt þeim; hann var skilinn eftir í algerri þögn. Hann settist við trjábol einn en þá fannst honum eitthvað koma við sig, sterkt og slímugt band. Kónguló hafði reynt að veiða hann á meðan hann sat þarna og nú kom hún aftan að honum og greip hann. Hann mundi allt í einu eftir sverðinu sínu og brá því á loft. Kóngulóin varð svo hrædd við sverðið að hún ætlaði að draga sig í hlé en Bilbó réðst á hana, stakk hana í augun og drap hana. Hann settist niður fullur örvæntingar, en ákvað svo að leita að dvergunum. Hann var búinn að læðast dálítinn spöl þegar að hann sá kóngulær vera að tala saman. Hann gat skilið að þær voru að ákveða að drepa dvergana sem þær voru búnar að fanga. Hann ákvað því að skerast í leikinn, setti á sig hringinn og tók upp nokkrar steinvölur sem hann kastaði í þær. Um leið ruku þær í átt til hans, en hann var búinn að færa sig á annan stað. Þegar fimmtíu kóngulær höfðu komið á staðinn þar sem hann áður var kastaði hann fleiri steinvölum í þær, tók á rás og til að espa þær upp sönglaði hann :

Ég er bara lítil fluga
og flýg burt frá þér.
Ógeðsleg suga,
aldrei skaltu ná mér.
Ljótakussa!
Leiðahlussa!
Aldrei skaltu ná mér,
kóngulóarkussa!

Kóngulóin feita
falin fluga er ég.
Kann ég vopni að beita,
vef þinn sker ég.
Tuddapadda!
Buddasadda!
Aldrei skaltu ná mér,
kóngulóarpadda!


Hann hljóp þá um allt. En þá höfðu kóngulærnar dreift sér víðs vegar og ætluðu að búa til eins konar girðingu kringum Bilbó; það var að minnsta kosti ætlunin. Bilbó herti upp hugann og fór að syngja nýjan söng:

Æðarkobba og letilobba
ætla mig að éta,
en aldrei þó það geta.
Þær komast strax í bobba,
ósýnileg veiði og ekki gefin
í vefinn.

Erfitt þeim reynist
að vita hvar ég leynist.
Vel er ég gómsæt,
vissulega ágæt.
En aldrei samt þær ná mér
alveg frá sér.

Um leið og hann hafði lokið við að syngja þetta síðasta vers sá hann að síðustu útkomuleiðinni hafði verið lokað. En hann dó ekki ráðalaus, tók upp Sting og hjó sig í gegnum vef einn sem lokaði leið á milli tveggja trjáa. Hann hljóp lengra og lengra með kóngulærnar á hælum sér en læddist svo hljóðlaust til baka til að hjálpa dvergunum. En þegar hann kom til baka sá hann akfeita pöddu sem átti að passa fangana vera að pota í þá og búa sig undir að éta þá. Bilbó tók upp sverð sitt og drap hana. Hann losaði síðan dvergana, en um leið komu kóngulærnar.

Hann setti á sig hringinn, skipaði dvergunum að hlaupa í burtu, byrjaði að syngja um æðarkobbu og letilobbu og réðst á þær kóngulær sem komu of nálægt honum. Hann og dvergarnir hlupu þá burt frá kóngulónum sem hættu árásum sínum og sneru til baka til heimkynna sinna. Þegar þeir komu í rjóður eitt köstuðu þeir mæðinni og dvergarnir fóru að spyrja Bilbó hvernig hann gæti orðið ósýnilegur. Hann sagði þeim þá hvernig hann hafði fengið hringinn. Þá tók Dvalinn eftir því að það vantaði Þorinn sem skógarálfarnir höfðu handsamað og farið með í bústað sinn. Álfakonungurinn var að yfirheyra Þorinn sem sagði einungis að vinirnir væru sveltandi í skóginum. Hann vissi að ef hann minntist á verkefni sitt væri líklega út um hann. Þá vörpuðu álfarnir honum í dýflissu sína.

Daginn eftir bardagann við kóngulærnar gerðu Bilbó og dvergarnir sína síðustu tilraun til að komast út úr skóginum, áður en þeir syltu heilu hungri. Á leið þeirra þustu álfarnir að þeim og mynduðu hring um þá, vopnaðir bogum og spjótum. Allir dvergarnir settust niður og biðu þess sem verða vildi, en Bilbó setti á sig hringinn og laumaðist á burt. Hann elti síðan álfana í gengum hliðið að helli þeirra. Fangarnir voru leiddir til kóngsins sem yfirheyrði dvergana og sendi þá síðan í fangaklefa. Bilbó var síðan innilokaður í bústað þeirra án matar og drykkjar en stal sér til ætis jafnóðum. Eftir eina til tvær vikur fann hann dýflissur dvergana og gat spjallað við þá.

Dag nokkurn komst Bilbó að því að hliðið var ekki eini inngangurinn að hellinum því að vatnsrás rann undir neðsta hluta hallarinnar og mundi það vera eina leiðin fyrir þá að flýja. Hann fann fellihlera þar sem víntunnur voru geymdar og komst hann einnig að því að þegar tunnurnar urðu tómar var þeim kastað í ána og látnar fljóta með varðmönnum til þorps í austri, og þaðan til annarrar borgar. Þá kviknaði örvæntingarfullur flóttaneisti hjá Bilbó. Um kvöldið fengu verðirnir sér vín í vínkjallaranum og sofnuðu því að vínið var svo sterkt. Bilbó tók þá lykla varðarins, opnaði alla fangaklefana og leiddi dvergana í vínkjallarann. Síðan fóru dvergarnir í tunnurnar og Bilbó lokaði þeim. Stuttu seinna komu álfar nokkrir og vörpuðu tunnunum í ána. Bilbó áttaði sig þá á því að hann var ekki í neinni tunnu og þegar álfarnir voru að kasta síðustu tunnunni greip hann í hana og lét sig falla með henni niður í ána. Það var erfitt fyrir hann að fljóta með tunnunni því að hann varð hundblautur.

Nokkru síðar rak tunnurnar að bakka einum þar sem fólk fór að safna þeim. Bilbó sem var enn með hringinn á sér stökk út í vatnið og hljóp í felur á meðan tunnurnar voru settar í geymslu. Þar svaf hann um nóttina og vaknaði ekki fyrr en að fólkið fór að binda tunnurnar saman og setja varðmenn á þær. Bilbó hljóp og settist á eina tunnu á meðan verið var að ýta þeim niður ána. Tunnurnar runnu svo lengra niður ána þar til að þær komu á svæði þar sem sjá mátti Fjallið eina og mýrarnar þar í kring. Um það leyti er sólin fór að setjast var komið að þeim stað þar sem áin rann í Langavatn. Stuttu seinna réru varðmennirnir með tunnurnar til Vatnaborgarinnar og skildu þær eftir á ströndinni. Eftir að varðmennirnir voru farnir opnaði Bilbó tunnurnar og hleypti dvergunum út. Þeir voru þá sloppnir frá álfunum en þó biðu þeirra erfiðar raunir.
Váv.