Jæja, hvað getur verið betra að byrja þetta Tolkien-áhugamál
en grein um manninn sjálfan.

John Ronald Reuel Tolkien fæddist 3 janúar árið 1892 í
Bloemfontein í Suður-Afríku en fluttist snemma til Englands.
Hann er talinn vera einn færasti málfræðingur enskrar tungu
sem uppi hefur verið og gjörþekkti rætur málsins,
engilsaxnesku, kelstnesku, latínu og íslensku.

Seinna var hann ráðinn prófessor við Oxford vegna hæfileika
sinna á þessu sviði. Tolkien hafði mikinn áhuga á öllum
fornalda- og miðaldasögnum, þar á meðal Arthúrssögnum,
Bjólfskviðu, Tristanssögu, Íslendingasögum, Snorra-Eddu og
hinni finnsku Kalevala. Áhuginn var orðinn nokkuð mikill þegar
hann ákvað að gamni sínu að semja ímynduð forn tungumál
álfa, dverga og manna og byrjaði seinna að skapa heim þar
sem Álfar, Dvergar og Menn töluðu þessi tungumál og sagði
sögu þeirra. Tolkien gerði meira að segja ráð fyrir mállýskum
og hvernig mál breytast þegar hann samdi þessi tungumál
sín. Þegar börnin hans fjögur fóru að biðja hann um að semja
reglulega handa sér sögu tók hann til minnispunkta sína og
samdi í kringum þá ævintýri. Þannig varð Hobbitinn til. Hann
fór þá að leita að möguleiku þess að gefa þetta efni út, en
útgefendum fannst það fráleitt, enginn myndi lesa það.
Útgefandinn Stanley Unwin gerði þá tilraun og lét 10 ára son
sinn lesa þennan Hobbita. Drengurinn varð heillaður af
sögunni og kom Hobbitinn út 21. september árið 1937. Sagan
seldist vel og fékk ýmis verðlaun fyrir. Hobbitinn hefur verið
þýddur á 25 tungumál og hafa verið seld um 35 milljón eintök
af honum.

Lesendur Hobbitans fóru seinna að senda bréf til Tolkiens og
spurðu hvort þeir gætu ekki fengið að vita eitthvað meira um
Hobbita. Einnig voru útgefendur líka mjög jákvæðir í garð
framhalds. Tolkien byrjaði þá að semja Hringadróttinssögu
strax eftir að Hobbitinn kom út. Biðin varð þó löng. Verkið varð
ekki tilbúið fyrr en árið 1949 og olli að hluta til seinni
heimsstyrjöldin þessari löngu bið. Þegar Tolkien lét
útgefendur fá verkið urðu menn ekki hrifnir. Þetta var að vísu
framhald af Hobbitanum, en mikið alvarlegri og stórbrotnari
saga. Útgefendur sem höfðu óskað eftir sögu fyrir börn spáðu
ekki vel fyrir sölumöguleikum þessa fáránlega stóra verks.
Raunin varð önnur. Nýlega var t.d. Hringadróttinssaga kosin
bók aldarinnar í Bretlandi.

Þegar Tolkien dó árið 1973 lét hann eftir sig gífurlegt magn af
sögnum sem áttu að gerast löngu fyrir tíma
Hringadróttinssögu, alls voru þetta um 60 000 blaðsíður.
Þetta efni hafði aldrei verið gefið út. Kom einnig í ljós að
Tolkien var ekki með það á hreinu hvenær hann átti að hætta
og var til dágóður bunki af ókláruðum sögum.

Cristopher Tolkien, sonur hans lét seinna gefa út Silmerilinn
árið 1977 og Unfinished Tales úr þessum sögnum föður
sins.

Ekki má svo gleyma The Father Christmas Letters en það
voru bréf frá jólasveininum til barna Tolkiens sem hann
skrifaði og myndskreytti fyrir börnin sín. Þó að bréfin fjalli um
jólasveininn þá er spunnið inn álfasögum o.fl Sú bók hefur
heldur ekki verið gefin út á íslensku.