Galadríel drottning skógarins Þar sem ég var að tala um að við aðdáendur Tolkiens myndum gera eitthvað hér til að halda þessu áhugamáli okkar gangandi ætla ég að koma með eina grein. Síðasta sumar skrifaði ég grein um Arwen og ættir hennar í kvenlegg. Nú ætla ég að halda áfram að fjalla um konurnar, en þær eru ekki svo margar í ritum Tolkiens. Nú ætla ég að fjalla örlítið um ömmu Arwenar, drottninguna íðilfögru, Galadríeli og byrja á að fjalla um uppruna hennar.

Galadríel lítur ekki út fyrir að vera amma nokkurs, en þó er hún margra alda gömul og býr yfir mikilli visku og er einn hinna fyrstu álfa sem lifðu á Ördu. Galadríel er lýst sem einni fegurstu verunni á Miðgarði og oft var hún kölluð; lady of the light, lauslega þýtt sem lafði ljóssins, um vafin nær eilífri æsku álfa. Hún var há og fögur með gullna lokka og tignarlegt yfirbragð kynþáttar Nolda. Galadríel var fædd í hinu blessaða landi Valinor, þegar trén tvö, Söngvagull og Stjarneik voru enn í blóma, löngu áður en Melkor var upphaflega fangaður af Völum. Þegar ósættis og ófriðar fór að gæta í Valinor hélt Galadríel ásamt bræðrum sínum til Miðgarðs, en hún var dóttir Finnfinns og því af mætri ætt. Dvaldi hún þar löngum með Melíönu majakonu og Þingólfi konungi í Dóríat og kom það í hennar hlut að flytja Melíönu hinar hræðilegu fréttir af ófriðinum á meðal álfanna í Valinor vegna silmerillana. Á Miðgarði kynntist Galadríel eiginmanni sínum, gráálfinum Seleborni (en hann hafði aldrei komið til Valalands) og áttu þau hjónin eina dóttur sem nefnd var Selebrían, sem síðar varð eiginkona meistara Elronds í Rofadal.

Í gegnum aldirnar bjuggu Galadríel og Seleborn á ýmsum stöðum á Miðgarði og verður það ekki rakið hér, en þess ber þó að geta að síðast settust þau að í Lóríenskógi, þar sem þau áttu ríki sitt í borginni Karas Galadon. Í Lóríen ríkti eilíf fegurð og friður og var það Galadríeli sjálfri að þakka en með aðstoð töfrahringsins Nenja sem hún hafði til varðveislu, (sá hringur var einn hinna þriggja álfahringa) gat hún verndað skóginn fyrir öllum illum öflum. Á meðan Hringastríðið stóð yfir notaði Galadríel töfra sína til að hrinda árásum orka, sigra Dol Guldur og hreinsa Mirkvið af illþýðinu sem þar var á sveimi.

Eins og flestir vita átti förnuneyti hringsins leið um Lóríenskóga, niðurbrotið eftir þrautirnar í námum Moríu og naut í skóginum gestrisni drottningarinnar. Hringurinn freistaði Galadríelar eins og svo margra. Með hans hjálp gæti hún orðið enn máttugri en hún þegar var. Hún gæti stjórnað heiminum, orðið voldug drottning allrar veraldarinnar. Kannski nornin sem sumir töldu hana vera. En nei, Galadríel stóðst tælingar hins illa hrings, sem hún vissi að myndi spilla henni. Máttarbaugurinn mátti ekki dvelja í Lóríen og föruneytið varð að halda áfram í átt til Mordors.

Galadríel færði föruneytinu gjafir sem urðu hverjum og einum til hjálpar síðar, en dvergurinn Gimli var heillaður af hinni fögru drottningu og bað hana um litla gjöf, sem var honum þó svo óskaplega stór, lokk úr rauðagullnu hári hennar, sem í hans augum tæki fram öllu gulli jarðarinnar. Þessa gjöf veitti hún honum fúslega. Kemur hér því fram gjafmildi hennar, skilningur, þótti og göfgi allt í senn. Hún sýndi Gimla einnig mikla gæsku, en álfarnir í Lóríen tortryggðu dvergana mjög. Seleborn var mjög á varðbergi gagnvart Gimla og þótti óviturlegt af föruneytinu að hafa hætt sér inn í Moríu og hastaði á það. Aldrei hefði hann hleypt Gimla inn í Lóríen hefði hann vitað að dvergarnir hefðu vakið upp Balrogginn í Moríu. Galadríel tók upp hanskann fyrir Gimla og síðan leit hún “til Gimla, sem sat þar niðurlægður og armmæddur, og brosti til hans. Hvort heyrði Dvergurinn hana nefna örnefni á sinni forntungu, leit upp og augu þeirra mættust; hann horfði inn í hjarta óvinar og fann þar ekkert nema ást og skilning” (Föruneyti hringsins, bls. 462). Gimli sem sjálfur hafði verið á varðbergi gagnvart álfum og taldi Galadríeli vera illa norn varð upp frá þessu hennar helsti aðdáandi.

Við gerum okkur e.t.v. ekki fulla grein fyrir mætti álfanna. Fyrir mér eru þeir tignarlegir, órjúfanlegir, ódauðlegir, fagrir og um fram allt andlegir. Allt þetta einkennir skógardrottninguna fögru. Galadríel var ein af þeim sem unnu á bakvið tjöldin. Við fáum ekki að sjá hana beita valdi sínu en við fáum að sjá í æði hennar þegar henni er boðinn hringurinn hvers hún er megnug. Valdið er til staðar. Það er hún sem verndar Lóríen. Það er hún sem sér það sem er, var og gæti orðið, í skuggsjá sinni. Hún veit hvað er í vændum, hvað þú hugsar, hvað þú þráir. Hún kemst inn í hugsanir föruneytisins. Hún sér lengra en við höldum. Gildir það um hana eina? Eða um alla álfa? Eflaust ekki marga, en nokkra og hún er í þeim litla hópi.

Að Hringastríðinu loknu sigldi Galadríel yfir hafið til hins blessaða lands eins og sjá mátti í kvikmyndum Peters Jacksons. Með í för voru álfahringarnir þrír, Nenja; Narja og Vilja og Miðgarður var aftur orðinn án blessunar þeirra og varðveislu, skógar Lóríens myndu fölna, en fegurð Galadríelar enn þá skína hinu megin við hafið.

Eflaust er þetta ekkert nýtt fyrir ykkur, og kannski hafið þið heyrt þetta allt áður. En kannski góð áminning um merka konu og áhugaverðar hugleiðingar.

Karat

Heimildir: Silmerillinn, Hringadróttins saga, http://www.councilofelrond.com/ .

Að lokum skora ég á notandann Kerenze að senda inn grein. Gaman væri ef hún fjallaði líka um konu úr ritum Tolkiens ;)