Komiði sæl

Ég ákvað að senda inn grein í þessa greinasamkeppni svo að JDM myndi ekki vinna fyrir að vera SÁ EINI SEM SENDI INN GREIN! Athugið að ég las bækurnar á íslensku og því eru sérnöfnin úr íslensku bókunum notuð í þessari grein!

En ég skal koma mér að efninu. Ef það á að fjalla um það slæma í Heiminum, hver er verðugri en Sauron, sjálfur Hringadróttinn? Sumir vilja meina að Morgot, öðru nafni Melkor, hafi verið verri en Sauron þar sem Morgot var höfðingi hans um langan tíma. Þeir voru líklega álíka slæmir en þó finnst mér að Sauron hafi verið slóttugri. En hver og einn getur haft sínar eigin skoðanir um þetta.

Sauron var upphaflega einn af Majunum og var hann kallaður Gorþaur af Sindrum í Belalandi. En fljótlega hafði Melkor tælt hann til fylgis við sig en Sauron varð seinna mesti og dyggasti þjónn Óvinarins. Hann var hættulegur að því leiti að hann gat tekið á sig margar ólíkar myndir og jafnvel sýnst göfugur og fagur og gat hann þannig blekkt alla nema þá allra varkárustu.
Þegar Morgoti var steypt af stóli og skotið inn í Tómið, setti Sauron upp sitt blíðasta gervi. Hann sýndi sendiboða Manves auðsveipta lotningu, afneitaði öllum illvirkjum sínum og lofaði bót og betrun. Það var hins vegar ekki í valdi sendiboðans að veita honum sakaruppgjöf svo Sauroni var stefnt að snúa aftur til Amanslands og ganga undir dóm Manves. Sauron kveið því að gangast undir dóm því að erfitt yrði fyrir hann að þola ánauð á skilorði um góða trú þar sem hann hafði vanist því að vera voldugur undir Morgot. Hann greip því til þess ráðs, um leið og sendiboðinn var farinn, að fara í felur á Miðgarði.

Þegar veldi Númena stóð sem hæst reis Sauron upp á Miðgarði. Hann efldist og snéri sér að illvirkjum sem hann hafði lært af Morgot. Hann hafði víggirt landið Mordor og byggt Barad-dúr eða Myrkravirki. Hann hafði það takmark að ná yfirráðum yfir öllum Miklagarði. Eftir að konungur Númenanna, Tar Minastír, kom til liðs við Gil-galað, eftir að Hringurinn Eini var smíðaður og leiddi til styrjaldar milli Saurons og Álfanna á Vesturstoð. Þá komst hann að því hve Númenar höfðu vaxið í herstyrk og sá að þeir myndu gera innrás í ríki hans og hertaka það.
En yfirráð hans yfir mönnum höfðu stórlega magnast er hann náði valdi yfir þeim sem hringana níu báru. Þá risu upp Hringvormarnir, öðru nafni Nazgúlar, sem voru hans traustustu og öflugustu þjónar.
Þá kom svo að því að Ar-Farazón, konungur Númena, lét smíða gífurlegt magn af vopnum og skipum og sigldi til Miðgarðs. Hann sendi boð til Saurons um að mæta frammi fyrir sér og vinna sér trúnaðareiða. En Sauron mætti, því hann sá að vald og virðing kongungsins fór langt fram úr öllum sögusögnum. Hann gerði sér líka grein fyrir því að stundum væri hægt að komast lengra með kænsku en valdi.
Sauron var svo slunginn, að áður en þrjú ár voru liðin, var hann orðinn nánasti ráðgjafi í leyndarráði Konungsins. Hann fékk Konunginn til að afneita Eru, Alföður, og tilbiðja Melkor og fékk hann jafnvel til að heyja stríð gegn Völum, því hann taldi honum trú um að þar væri hægt að lifa að eilífu.
Ar-Farazón hélt í stríð ásamt ógnarstrórum flota til Vesturs. En er þangað var komið tók Alfaðir til sinna ráða og gífurleg gjá opnaðist milli Númenor og Ódáinslanda svo allur floti Númena sogaðist niður en allur herinn sem á landi var, grófst undir skriðum og hrynjandi fjöllum. Númenor, landið sem Valar höfðu gefið mönnum, var gjörsamlega eitt. Hins vegar komust undan nokkrir til Miðgarðs en það voru Elendill og synir hans Ísildur og Anaríon.
Sauron snéri einnig aftur til Miðgarðs til Mordor þar sem áður var ríki hans. Þar reisti hann aftur hið mikla virki Barad-dúr. Þar dvaldist hann þangað til að hann hafði gert sér annan búning þar sem hann var ekki lengur af dauðlegu holdi.

Eftir þetta allt saman var mikill blómatími hjá öllum þjóðum. Álfar af Noldrakyni stofnuðu mikið ríki í Eregion, sem menn kalla Þyrnaland. Það var nálægt mikilli neðanjarðarbyggð Dverga sem þeir kölluðu Kazad-dûm, en það er betur þekkt á tungu Álfa sem Moría. Mikil vinátta ríkti þá á milli Dverga og Álfa sem var báðum þjóðum til mestu hagsældar. Í Þyrnalandi náðu Gimsteinasmiðirnir náðu mestri fullkomnun allra í þeirri grein og mestur þeirra var Selebrimbor Silfurhnefi.
Sauron ályktaði að Valar hefðu, eftir að þeir sigruðu Morgot, gleymt Miðgarði og ákvað að endurreisa veldi sitt. Hann hataði Álfana og óttaðist Númenana sem höfðu komið á skipum sínum til Miðgarðs en leyndi þeim myrkar áætlanir sínar.
Hann sóttist mest eftir að fá Álfa til liðs við sig og var því mikið á sveimi meðal þeirra. Hann komst þó ekki inn í ríki Gil-galaðs og Elronds þar sem þeir treystu honum ekki en hann var aftur móti mikið í Þyrnalandi. Þar bjuggu margir meistarasmiðir sem voru sérlega móttækilegir fyrir ábendingum Saurons og gátu lært margt af honum. Á þeim dögum náði smíðalistini í Þyrnalandi hátindi sínum og eftir mikla íhugun smíðuðu þeir Máttbaugana og nutu þeir aðstoðar Saurons sem fylgdist einnig með hverju handtaki smiðanna.
Margir Máttarbaugar voru smíðaðir en á laun smíðaði Sauron Hringinn Eina til að drottna yfir öllum hinum Máttarbaugunum. Sauron varð að verja miklu af afli sínu og vilja í smíði þessa eina hrings því vald allra Álfahringanna var mjög mikið. Hann smíðaði þennan hring í leynismiðju sem hann átti í fjallinu Eldhryðju í Mordor (líklega betur þekkt sem Dómsdyngja).
Með Hringnum Eina gat hann fylgst með og stjórnað hugum þeirra sem aðra Máttbauga báru. En um leið og Sauron dró hringinn á fingur sér gerðu Álfarnir sér grein fyrir því að hann yrði meistari þeirra allra, svo þeir tóku hringa sína ofan. Þá sagði hann þeim opinberlega stríð á hendur og krafðist að þeir skiluðu honum öllum hringunum. Álfarnir flýðu þá frá honum og tókst að bjarga þremur hringjanna. Þessir hringar voru þeir síðustu sem þeir smíðuðu og máttugastir þeirra. Þeir voru þrír og hétu Narja, Nenja og Vilja en þetta voru þeir hringar sem Sauron ágirntist mest.
Eftir þetta linnti aldrei styrjöldum milli Álfanna og Saurons; Þyrnalandi var gjöreytt, Selebrimbor drepinn og dyrum Moría lokað.
Sauron náði öllum hinum máttarbaugunum sem hann útbýtti til annarra þjóða Miðgarðs. Hann gaf Dvergum sjö hringa og Mönnum níu. Dvergarnir voru harðari í horn að taka því þeir þola aldrei forræði annarra og það eina sem þeir hugsa um er að komast yfir auðævi. Hringarnir vöktu hjá þeim óviðráðanlega græðgi í gull og gersemar. Þeir Dvergakonungar sem áttu gullhringana öfluðu sér mikilla verðmæta, en þeim hefur öllum verið rænt af drekum. Sumum hringanna var eytt í drekaeldi en öðrum hafði Sauron náð.
Mönnunum níu sem höfðu hringana hlotnuðust mikil völd og auðævi. Þeir öðluðust einhverskonar óstöðvandi líf, sem hins vegar varð þeim óþolandi kvöl. Þeir gátu séð ýmislegt sem venjulegir Menn gátu ekki séð og gátu verið ósýnilegir hverju auga undir sólinni. En hver á fætur öðrum urðu þeir þrælar undir ánauð hringsins sem þeir báru og algjörlega á valdi Hringsins Eina sem Sauron bar. Eins og áður kemur fram voru þeir kallaðir Nazgúlar eða Hringvormar.

Númenarnir sem höfðu flúið stofnuðu tvö ríki; Elendill stofnaði ríkið Arnor í norðri og synir hans Ísildur og Anaríon stofnuðu ríkið Gondor í Suðri. Í Gondor var helsta borgin Osgilíað sem var staðsett á eyju í Miklafljóti en sitt hvoru megin við ána voru byggð borgarvirki. Austan megin var borgin Mínas Íðil – Tunglturninn og var hún bústaður Ísildurs. Vestan megin var borgin Mínas Anor – Sólarturninn og þar átti Anaríon heima.
Sauron fór nú á fullum krafti að undirbúa stríð gegn Mönnum og Álfum. Hann sendi fljótt geysilega stórt lið sem undir eins hertók borgina Mínas Íðil. Seinna varð hún heimili Nazgúlanna og hlaut þá nafnið Mínas Morgúl. Ísildur komst hins vegar undan með fjölskyldu sinni og sigldi niður með fljótinu og hélt svo norður á sjó til ríkis föður síns að leita hjálpar. Anaríoni tókst að verja borgina Osilíað gegn Sauroni en sá að varnirnar myndu ekki halda lengi út ef ekki bærist liðsauki.
Gil-galað og Elendill sáu að Sauron yrði óstöðvandi ef þeir sameinuðst ekki gegn honum. Þeir komu þá á samtökum sem var kallað Hinstabandalagið og lögðu þá af stað fjöldinn allur af Mönnum og Álfum sem kom að hliðum Myrkralandsins á Orustusléttunni á Dagolöðum.
Hinn mikli her Álfa og Manna báru sigur úr býtum þar sem Álfar voru enn máttugir og Númenar sterkir og hávaxnir. Liðið elti flóttann inn í Myrkralandið Mordor, og umkringdu virki Saurons og héldu uppi umsátri um það í sjö ár. Í umsátrinu féll Anaríon ásamt mörgum fleiri köppum, því Sauron gerði margar útrásir.
Að lokum kom sjálfur Sauron út og glímdi við Gil-galað og Elendil og féllu þeir báðir. Þegar Elendill hneig, skall hann svo þungt ofan á sverð sitt, Narsíl, að það brotnaði. Ísildur tók þá eitt brot sverðsins og hjó með því Meginbauginn af hendi Saurons. Þar með var Sauron gjörsigraður og flýði þá andi hans úr líkamanum og fór í felur. Ísildur tók þá Hringinn Eina og eignaði sér hann. Hann virti þó öll ráð Elronds og Sirdáns, um að eyða honum í logum Dómsdyngju, að vettling og sagðist taka hann í vígsbætur fyrir föður sinn og bróður.
Ísildur hugðist taka yfir ríki föður síns og lagði af stað norður með Miklafljóti ásamt riddaraliði sínu. Honum var þá veitt fyrirsát af Orkum, þá stökk hann ofan í fljótið og setti á sig Hringinn sem hafði þann mátt að gera hann ósýnilegan. En þá allt í einu sveik Hringurinn hann og rann af fingri hans svo Orkarnir sáu hann og skutu. Þar lá Hringurinn gleymdur í aldaraðir.

Ég geri ráð fyrir að flestir viti framhaldið því þess er bæði getið í bókunum og í kvikmyndunum.

Svo kom þó að því löngu síðar að Sauron sjálfur fór að láta á sér kræla austur í Myrkvið. Áður nefndist skógurinn Græniskógur en það breyttist þegar ýmistlegt skuggalegt fór að var á sveimi, þá var nafninu breytt í Mirkvið. Í fyrstu vissi enginn hvað olli þessu en það reyndist vera skuggi Saurons. Hann settist að í suðurhluta skógarins eftir hið mikla stríð, þar fór hann smám saman að taka á sig líkamsmynd. Allir óttuðust Seiðskrattann í Dol Gúldúr, sem var myrk klettaborg í skóginum, eða Násuguna eins og hann var stundum kallaður.
Þá komu svokallaðir Vitkar til Miðgarðs og voru helstir þeirra Míþrandír og Kúrúnír eða Gandalfur og Sarúman. Elrondi og Gandalfi var hætt að lítast á blikuna þar sem Skugginn í Dol Gúldúr fór svo hraðvaxandi. Gandalfur lagði út í mikla háskaför að heimsækja að nýju Dol Gúldúr. Þá kom í ljós að Seiðskrattinn var enginn annar en Sauron sem slapp í burtu við illan leik.
Í annari árás sem Vitkarnir gerðu á Dol Gúldúr flúði Sauron til ríkis síns í Mordor. Þar lét hann reisa Myrkravirki sitt, Barad-dúr, aftur og hóf að undirbúa nýja styrjöld sem fjallað er um í Hringadróttinssögu.

Vonandi líkaði ykkur greinin

Kveðja

Skúli

P.S. Þið sem ekki senduð inn grein þar sem skortur var á efni er hér 10 efni sem þið hefðuð getað skrifað um!
-Morgot
-Hringurinn
-Nazgúlarnir
-Balroggar
-Drekar
-Orkar
-Skella (Shelob)
-Úngolíant
-Goblinar
-Sarúman
Svo þið sjáið að í raun var ekki skortur á efni….

Heimildir:
Silmerillinn eftir J.R.R. Tolkien
Don't argue with idiots. They drag you down to their level and beat you by experience.