Helgi Hálfdanarson, Völuspá og Tolkien Einhverjir myndu segja að þessi stutta grein tengdist hvað minnst Tolkien sjálfum eða ritverkum hans. Ég tel Völuspá þó tengjast Tolkien það mikið að þessi grein eigi erindi hingað. Þar að auki er tími til kominn að hleypa nýju blóði í frekar steinrunna umræðu um Tolkien.

Í Lesbók Morgunblaðsins í dag birtist áhugaverð og þörf grein um Helga Hálfdanarson og bók hans sem inniheldur nýjar kenningar um Völuspá. Fyrir þá sem ekki vita þá er Völuspá eitt Eddukvæðanna og eitt elsta bókmenntaverk okkar Íslendinga. Kvæðið, sem byggt er á drápuformi og ort undir fornyrðislagi en er þó nokkuð líkt dróttkvæðum hætti, hefur verið skeggrætt af fræðimönnum í gegnum aldirnar þó svo að nýjar kenningar um kvæðið hafi ekki komið fram á sjónarsviðið heldur hafi menn haldið sig í sömu hjólförunum alla tíð.
Sú stðareynd er að vissu leyti stórundarleg, í ljósi þess að kvæðið var samið á mörkum heiðni og kristni í kringum árið 1000 en ekki ritað á bókfell fyrr en á þrettándu öld af Snorra Sturlusyni. Það er af flestum einnig talið samsett úr ýmsum eldri kvæðum og ýmis vísuorð og línur hafa brenglast í millitíðinni auk þess sem einhverju hefur verið bætt inn í. Að bókmenntafræðingar hafi, að því er virðist, ekki þorað að setja fram nýstárlegar og frumlegar kenningar um þetta sígilda kvæði er í raun hin mesta furða. Völuspá hefur verið skrifuð og prentuð algerlega óbreytt allar þessar aldir án þess að menn hafi nokkurn tímann pælt í því hvort hún hafi endilega verið svona.

Helgi Hálfdanarson er sá fyrsti sem kemur með róttækar kenningar um Völuspá sem hann setur fram í bók sinni, Maddaman með kýrhausinn. Í hnotskurn eru þessar kenningar á þá leið að stefin í kvæðinu, sem eru endurtekin í upphafi eða lok margra vísna og fræðimenn hafi ekki gefið mikinn gaum að, séu til að renna styrkari stoðum um það hvernig kvæðið hafi verið eins og höfundurinn skildi við það. Það sé því hægt að nota þessi stef til að grennslast um fyrir hvernig Völuspá hafi verið upphaflega.
Samkvæmt hinum almennu skoðunum skiptist Völuspá í þrjá hluta samkvæmt þeim tíðum sem notaðar eru til að lýsa því sem gerist(fortíð, nútíð og framtíð) en Helgi Hálfdanarson virðist vera sá fyrsti sem áttar sig á því að skiptingin hafi ráðist af þessum stefjum, sem hefur þá afbakast í gegnum tíðina. Hann endurraðar einnig kvæðinu eftir sínum kenningum um hvernig það hafi uphaflega verið, og eru nær allir þeir sem hafa lesið bók hans geta sammælst um að útskýringar Helga á kvæðinu eru mun rökréttari og staðfastari en fyrri skýringar, þökk sé hinni einstakri glöggskyggni hans. Hann gengur einnig lengra og segir að hver hluti Völuspár hafi verið fullunnin drápa sem höfundurinn hafi síðan tengt saman með fimm kvæðum á milli hverra hluta. Fyrsta kvæðið, Ásaspá, hefst á orðunum “Ár vas alda/ þat er Ýmir byggði” og stefið er “Þá gengu regin öll/ á rökstóla/ ginnheilög goð/ ok um þat gættusk.” Annað kvæðið, oft kallað Járnviðja byrjar á “Austur býr hin aldna/ í Járnviði” og stefið “Vitið ‘ér enn, eða hvat?”
Þriðja kvæðið sem er jafnframt það fyrsta í Völuspá hefst á hinum frægu orðum “Hljóðs bið ek allar/ helgar kindir” og stefið þar er heil vísa:

Geyr nú Garmr mjök
fyr Gnipahelli,
festr mun slitna
fn freki renna.
Fjölð veit ek fræða
fram sé ek lengra
um ragna rök
römm sigtíva.

Eins og sést hérna glögglega segja vísurnar frá því sem gerðist, því sem gerist og því sem mun gerast. Rétt eins og Helgi orðar það, “að engu líkara sé en þau gætu táknað örlaganornirnar þrjár, Urði, Verðandi og Skuld.”

Og hvað með Tolkien? Augljóst er að dvergaþulurnar í Völuspá er eintómur uppspuni sem einhver óprúttinn náungi hefur bætt inn í eftir að Völuspá var ort. Hefur hann þá tekið þessi dverganöfn á bandvitlausum forsendum? Og hvers vegna tók hann ekki eftir neinu gruggugu með Völuspá heldur?
Hér er orðið ljóst að ekki er allt sem sýnist. Áðurnefnd bók Helga, Maddaman með kýrhausinn kom út árið 1964 en engu líkara er en að fræðimenn hafi þagað bókina í hel því þeim hafi ekki líka við hinar byltingarkenndu skoðanir Helga. Hún var síðan gefin út aftur árið 2002 en hefur ekki hlotið almenna athygli fyrr en í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Hefur Tolkien einnig þagað þunnu hljóði eða tók hann kannski ekki eftir þessu? Vitað er að þeir Helgi þekktust býsna vel. Hefur Helgi þá ekki sagt Tolkien neitt frá þessum kenningum sínum?

Þessum spurningum verður vonandi svarað hér að neðan. Ég læt umræðuna í ykkar hendur, kæru lesendur.