Deus ex machina Deus ex machina

-Guðinn úr vélinni

Það er orðið dálítið síðan ég las Hringadróttinssögu síðast. Á sínum tíma var maður gjörsamlega heltekin en eftir því sem á hefur liðið hefur bjarminn um þetta stórkostlega bókmenntaafrek dofnað í minningunni.
Ég var ekki nema tólf ára þegar ég las allt eftir Tolkien þrisvar sinnum í striklotu og mig var farið að dreyma drauma frá Miðgarði á nóttunni. Þá lá líka við að maður brysti í grát eftir að hafa klárað Hilmir snýr heim í hvert skiptið, enda var það bara svo óendalega sorglegt að þessi margslungna saga skyldi ekki eiga sér stað í raunveruleikanum. Það var það sem var magnaðasta við þessar sögur; maður gat lifað sig svo inn í þær. Á meðan augu manns runnu eftir þessum röðum stafa og orða, blaðsíðu eftir blaðsíðu, þá lifði maður og hræðist bókstaflega í hugarheimi Tolkiens.

Ég var að lesa grein hér á Huga fyrir ekki svo löngu um Tuma Bumbaldin og það var indælt að finna blossann kvikna á ný. Ég hef engan hug á því að lesa Hringadróttinssögu á ný en mér til skemmtunar fletti ég upp að þessum tiltekna kafla í upphafi Föruneyti hringsins og las aðdraganda og eftirmála senunar með Tuma kallinum.

Nú held ég að mér sé óhætt að segja að ég hafi lært ýmislegt um bókmenntir síðan ég var tólf ára og því ekki laust við að sagan kæmi mér öðruvísi fyrir sjónir. Ég gerði mér far um að skoða efnið ofan í kjölinn og því ekki að undra að margt hafi borið á góma.
Hver var tilgangurinn með þessari undarlegu innkomu Tuma? Hver var eiginlega Tumi? Hvað vakti fyrir höfundinum?

Ég verð að viðurkenna að þetta fyrsta ævintýri hobbitanna kom mér spánskt fyrir sjónir. Þrátt fyrir að Tumi sé æðisleg persóna og senan með honum alveg óborgaraleg þá fékk ég það á tilfinninguna að Tolkien hafi kannski hálfpartinn þjófstartað svona snemma í sögunni. Þegar þarna er komið við sögu eru hobbitarnir enn varla komnir úr Héraði og rithöfundurinn Tolkien varla farinn að líta jafn alvarlegum augum á verks sitt og átti eftir að verða. Við skulum hafa það í huga að í fyrstu átti Hringadróttinssaga að verða Hobbitinn 2, og því ekki seinna vænna fyrir Tolkien að setja smá “action” í söguþráðinn, þegar hann var kominn með vel á annaðhundrað blaðsíður af inngangi. Afleiðingarnar eru þær að söguhetjunum er hrint inn Fornaskóg, sem af lýsingum að dæma átti ekki að vera neinn hálfkvistur á við Myrkvið í Hobbitanum eða Fangornskóg í Tvítyrninu.

Eins og við vitum þá er það ekkert auðhlaupaverk að takast á við slíkan skóg og ég held að Tolkien sjálfur hafi snemma komist að því að litlu hobbitarnir okkar voru á engan hátt í stakk búnir til að höndla þvíumlíkt ævintýri einir enn sem komið var og lenti því í smávegins klemmu.

Ég trúi því að þá hafi einhverstaðar úr móðu ritstíflunnar karakterinn Tumi Bumbaldin orðið til sem birtist þá skyndilega, upp úr þurru, eins og guð úr vélinni og bjargar deginum. Orðalagið er fengið í láni frá grikkjum og er alþekkt innan bókmenntaheimsins. Þegar harmleikjahöfundar Grikklands hins forna voru búnir að mála sig út í horn og spinna persónur sínar í þvílíkar ógöngur að engin leið virðist út þá beittu þeir ósjaldan því bragði að láta skyndilega, upp úr þurru, guð eða aðra sambærilega yfirnáttúrulega veru birtast og kippa málunum í lag, svo hægt yrði að ljúka leikritinu á sómasamlegan máta. Þetta kölluðu gagnrýnendur Deus ex machina, sem þýðir “guð úr vélinni” og hefur verið notað upp frá því ætíð um það þegar hnútar í söguþræði eru leystir með hjálp aðferða sem eru úr öllu samhengi við rest sögunnar.

Þótt þetta þyki nú oftast frekar ódýrt trikk þá finnst mér persónulega það á engan hátt rýra gildi Tuma. Allan þann tíma frá því við hittum hann fyrst trallandi hjá Gráviðjumóðu og allt þar til við kveðjum hann í hinsta sinn við Kumlhóla vitum við að hann er á skjön við öll viðtekin lögmál nóvellunnar og á frekar kyn til stílbragða barnaævintýra, eins og Hobbitinn. Þar þykir ekkert tiltökumál þótt persónur komi og fari eftir að hafa gengt einhliða hlutverki sínu, og að atburðir reki hver á annan úr öllu samhengi ef það aðeins þjónar þeim tilgangi að fóðra ímyndunarafl okkar.
Ég er ekki hlynntur því að flokka bókmenntaverk í æðri eða lægri list, ég tel að bækur hljóta að dæma sig sjálfar, á eigin forsendum hvort sem um goðsagnabálk eins og Silmerilinn eða saklaust barnaævintýri eins og Hobbitinn er að ræða, bæði eru þetta ómetanleg listaverk.
Tumi Bumbaldin stendur svo sannarlega undir hlutverki sínu í Föruneyti Hringsins, og alvöru aðdáendur kunna hann vel að meta.

En hver var Tumi Bumbaldin? Í sögunni sjálfri er lítið farið út í uppruna hans. Hann var þó sagður elstur. Eldri en allt. Hann hafi verið áður en allt. Að sama skapi virðist hann standa utan við allt, þeir atburðir sem skeki heiminn sem hann trallar í snerta hann lítið. Það þótt lífverurnar umhverfis hann stríði heldur ekki fyrir honum vöku, og jafnvel djöfulleg tól Myrkrardróttins virðast engin áhrif á hann hafa. Hann er yfir hið daglega amstur hafinn og nýtur þess að vera til. Hann virðist hafa vald yfir öllum sköpuðum hlutum en hafa lítinn áhuga á skipta sér eitthvað af. Afskiptaleysi hans er höfundinum mikilvægt til þess að trufla ekki atburðarásina.

Hann lifir með Gullbrá, hinni fögru mey sem hann hafði fundið endur fyrir löngu við ánna, og saman una þau sér vel, þótt ekkert gefi til kynna að þau lifi saman sem “hjón”. Gullbrá virðist gera grein fyrir mikilfengleik spúsa síns en ekki gera sér mikið veður út af því. Hver Gullbrá sjálf er, er líka ráðgáta.

Margar getgátur hafa verið um raunverulegt eðli Tuma en Tolkien vildi sem minnst um það segja sjálfur. Þessa ráðgátu tók hann með sér í gröfina og því mun aldrei finnast neitt viðunandi svar. Það sakar samt engan að spöglerra smá.
Vinsælt er að álykta að Tumi hljóti að vera einhverskonar Maji eða jafnvel Vali. Við megum ekki gleyma atriðinu í lok Hilmir snýr heim þegar Gandalfur fer og heimsækir Tuma. Gandalfur sjálfur var Maji, en þó miklu mannlegri Tumi, því hann veigraði sér við að takast á við hringinn eina og átti fullt í fangi með að hafa stjórn á atburðarrás Hringastríðsins. Sauron var líka maji. Einhvern vegin hefur maður það á tilfinningunni að Tumi sé þeim báðum æðri. Þá er spurning hvort hann hafi verið Vali. Þeir eru ekki nema sjö og allir nafngreindir og hafa föst persónueinkenni og þyrfti því frekar mikið hugmyndarflug til þess að tengja einhvern þeirra við Tuma.
Sjálfur segist hann hafa verið elstu og hafi verið undan öllum. Tolkien gaf okkur nægilegar upplýsingar um tilurð Ördu að við vitum að fyrst Tumi var til fyrir sköpun heimsins þá hefur hann líkast til alltaf verið til og er því annaðhvort Ænúi eða Eru hinn eini sjálfur.
Allt eru þetta skemmtilegar tilgátur en enga þeirra er hægt að staðfesta. Ef Tumi tilheyrði í raun þessum hópi og er annaðhvort guðleg yfirnáttúruleg vera eða jafnvel guð sjálfur þá passar það afar vel við hlutverk Tuma í sögunni sem guð úr vélinni, sérstaklega ef hann var í raun Guð úr vélinni (með stóru gé-i).

Ég er ekki parhrifinn af þeirri hugmynd. Það er einhvernvegin of frumstætt fyrir minn smekk að láta guð sjálfan koma og kippa hlutunum í lag. Ódýra trikkið hríðfellur þá í verði og verður því sem næst ókeypis.

Þess í stað kýs ég að rekja rætur Tuma djúpt ofan í sálarlíf Tolkiens sjálfs.
Einhvern tímann heyrði ég því hent að Tumi hafi verið raunverulega til og átt heima í hýbýlum Tolkiens sjálfs, nánar tiltekið barnaherbergjunum. Við vitum flest að sagan um Hobbitann byrjaði í fyrstu sem framhaldssaga sem Tolkien las fyrir börn sín rétt fyrir svefninn. Það voru þó ekki einu sögurnar sem Tolkien sagði börnum sínum við rúmstokkinn. Uppáhaldsleikfang eitthvers barna hans var brúða sem var kölluð Tumi Bumbaldi. Hef ég það fyrir satt að ósjaldan hafi hann spunnið fyrir börnum sínum sögur um ferðalög Tuma Bumbaldin og þau ævintýri sem hann lenti í. Eins og sögurnar um Hobbitann áttu eftir að verða sproti að hinni mikilfenglegu Hringadróttinssögu þá hafa söguruna um Tuma Bumbalda ekki verið allar þar sem þær voru séðar. Einhverra hluta vegna víxluðust þessi tvö sögusvið og úr varð senan í Fornaskógi.

Samt held ég ekki að þessi tveir alnafnar, einn úr barnasögum Tolkiens og hinn úr Föruneyti hringsins, séu endilega einn og hinn sami, þótt þeir séu óneitanlega af sama meiði. Nei, ég held nefnilega að Tolkien hafi notað þessa fyrri persónusköpun sína sem einhverskonar skel utan um þá persónu sem labbaði alsköpuð út úr ritstíflumóðu Tolkiens þegar hann var að glíma við það að koma hobbitunum heilum og höldnum út úr Fornaskógi. Hegðun, útlit og framkoma þess Tuma Bumbaldins sem birtist í Hringadróttinssögu er fengin að láni frá saklausri barnasögu, en í kjarnann býr eitthvað annað.

Er Tumi Bumbaldin kannski Tolkien sjálfur? Eða a.m.k. birtingarmynd hans í sögunni. Getur verið að einn taflmaðurinn í þessari skák eigi að standa fyrir þann sem teflir.
Við getum ekki horft fram hjá því að það er Tolkien sjálfur sem skapar þá atburðarás og þá togstreitu sem býr í Hringadróttinssögu. Í grunninn er það hann sjálfur sem orsakar allt gott sem og allt illt í þeim heimi. Þetta er hans vilji og hann hefur því engan áhuga á að breyta því. Hann var þarna fyrstu, hann var á undan veröldinni og hann var jafnvel á undan Eru hinum eina, Alfaðir sjálfum, því alfaðir er vitaskuld einungis hans sköpun. Þarna situr To(lkien)m Bombadil dýpst í miðjum Fornaskógi og nýtur þess að lifa í sínu eigin sköpunarverki, ásamt skáldagyðjunni Gullbrá.

En afhverju? Í fyrsta lagi vantaði honum Deus ex machina og vissulega var engin betur til þess fallinn en að hann einfaldlega fari sjálfur og bjargi deginum.
Auk þess held ég að það sé dýpri ástæða.
Mary Sue, eins og sumir kalla það, er fyrirbrigði sem er þekkt í bókmenntum. Rithöfundar skrifa sjálfa sig inn í söguna vegna þess einfaldlega að þeim langar til að vera hluti af sögunni. Hver myndi ekki vilja fá að vera hluti af Hringadróttinssögu? Ég held að það geti meira en vel verið að Tumi Bumbaldin sé svona Mary Sue. Að hann sé í raun birtingarmynd djúpstæðrar löngunar Tolkiens sjálfs til þess að vera hluti af sköpunarverki sínu.
Algengast er að amatörrithöfundar falli í þessa gryfju ómeðvitað vegna barnalegrar löngunnar til þess að fá sjálf að vera hetja, eitthvað sem venjulegt fólk fær sjaldnast að reyna í hversdagsleikanum, en jafnframt eru þess dæmi að framúrskarandi rithöfundar noti þetta einfaldlega sem kröftugt stílbragð. Ég held að það fari ekkert á milli mála hvort þessa Tumi Bumbaldin myndi flokkast til.

Það sem einkennir Mary Sue karaktera er m.a. að þeir eru oftast á svipuðum aldri og höfundurinn og eiga furðulega margt sameiginlegt með honum, þeir eru fljótir að mynda náið vináttu samband við aðalpersónurnar, hafa oftar en ekki eitthvað framandi og eftirtektarvert nafn, þeir eru oft góðir í öllum sköpuðum hlutum og hræðast ekki neitt, útlit þeirra er oft eftirtektarvert og óraunverulegt, þeir eru ósjaldan með einhverja ofurkrafta sem uppgötvast í risi sögunar og eru oftast af einhverju undarlegu, jafnvel ekki mennsku, ætterni.
(sjá grein um Mary Sue eftir Lioness http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=16351182)

Það er undarlegt hversu vel þessi lýsing rímar við Tuma Bumbaldin. Tumi lítur út fyrir að vera á svipuðum aldri og Tolkien var þegar hann skrifaði Hringadróttinssögu og er jafnframt ekki ólíkur honum í sjálfu sér. Það tók ekki nema nokkrar mínútur fyrir Tuma að ávinna sér traust hobbitanna og eftir aðeins tvo daga eru þeir orðnir bestu vinir. Tumi Bumbaldi er vissulega framandi og eftirtektarvert nafn sem vekur athygli hobbitanna. Tumi virðist líka vera því sem næst fullkominn, hann er yfir allt hafinn og hræðist ekki að setja upp hringinn. Útlit Tuma er líka eftirtektarvert og afkáralegt og frekar óraunverulegt. Meirað segja ofurkraftarnir sem uppgötvast stundum í risi sögunnar eru til staðar, því hvað annað er hægt að kalla það en ofurkrafta þegar hann setur upp hringinn án þess að blikka auga. Það er líka alveg á hreinu að Tumi er af óvenjulegu ætterni. Það er óhætt að álykta að hann tilheyri ekki neinum kynþáttanna á Miðgarði og óvíst meira að segja hvort hanni eigi að eiga nokkra foreldra yfir höfuð.

Því þykir mér það ekki verri tilgáta en hver önnur að Tumi blessaður sé Tolkien sjálfur. Þó fáum við aldrei út því skorið endalega því höfundurinn er látinn.
J.R.R. Tolkien er látinn.
Þó getum við alltaf heimsótt hann með því að opna bækurnar hans og vera mótækileg fyrir hughrifunum sem streyma upp af blaðsíðunum. Og hver veit nema hægt sé að greina hann sjálfan, í gulum stígvélum og með barðstórann hatt snemma í fyrstu bókinni.

Nú ætla ég að fara að láta staðar numið í bili og vona innilega að það verði vel metið, þetta framlag mitt til greinasamkeppninnar á Huga