Hringvomar Þetta er önnur grein mín í þessari samkeppni - fyrri greinin fór í rugl og ætla ég að vanda mig enn betur við gerð þessarar greinar.

Í sögum Tolkiens voru Hringvomarnir, eða Nazgúlarnir eins og þeir voru kallaðir á máli Mordor, illir þjónar Saurons - þjónar sem þráðu hringinn og leituðu stöðugt að honum. Hringvomarnir komu mikið fyrir í sögum Tolkiens og voru, að mínu mati, með skemmtilegri persónum bókanna. Svörtu riddararnir níu, eins og þeir voru einnig nefndir, hafa ekki alltaf verið ‘illir’ sendiboðar, ónei - þeir voru eitt sinn valdamiklir menn, konungar, sem báru níu hringi Saurons. Sauron notaði þessa hringi til þess að leggja konungana í þrældóm - s.s. réð yfir þeim. Tolkien greindi ekki frá öllum níu nöfnunum, og er það stór spurning hvort hann hafi nefnt þá alla - en það er vitað fyrir víst að foringinn, og fremsti Hringvominn, var Nornakonungurinn frá Angmar - Mínas Morgúl var bæli hans - og næsti í röðinni hét Khamûl og var hann konungur Austlingana, og sá eini sem var þekktur undir einhverju nafni. Það ættu lang flestir, sem einhvern áhuga á LOTR hafa, að þekkja Nornakonunginn. Hann var tignarlegastur af öllum og mestur, og sést það vel í kvikmyndinni ‘Hilmir Snýr Heim’ - í myndinni kemur Khamûl ekkert sérstaklega fram, eða er kynntur, hann er sýndur jafn hinum Hringvomunum.

Khamûl og Nornakonungurinn voru líklega þeir einu sem voru nefndir eitthvað, en það má vel vera að Gothmog, lútenant í Barad-Dûr, hafi verið Hringvomi. Til að fara aðeins dýpra inn í sögu Gothmog, þá var hann mjög náinn Morgoth - og má segja að hann hafi verið næsti maður við næsta mann, en næsti maður við Morgoth var enginn annar en Sauron. Gothmog varð frægastur fyrir að drepa Feanor (ekki stjórnandann…ho..ho..ho) en sá bardagi átti sér stað við Dor Daedeloth. Hann sigraði marga heri og leiðtoga, og þar á meðal Fingon - en hann lést síðan í bardaga við Ecthelion. Ecthelion drapst einnig.

Hringvomarnir lögðu af stað frá Mordor með tvö nöfn ‘Baggi’ og ‘Hérað’ (Baggins - Shire) - og heppnaðist för þeirra ekki alveg sem skildi. Þeir áttu að ná hringnum, og jafnvel hringberanum, en þeir voru alltaf með tærnar þar sem Fróði hafði hælana - eða einu skrefi á eftir, eins og sumir vilja kannski orða það. Þeir eltu Fróða(Frodo), Sóma(Sam), Pípinn(Pippin) og Kát(Merry) frá Héraði og alveg að Dómsdyngju(Mount Doom) - en án árangurs.

Hringvomarnir voru ógurlegir - svartir og draugalegir. Þeir klæðast svartri skykkju sem hylur andlit og búk þeirra algjörlega. Þeir ríða um á svörtum hestum (sjá mynd). Í Harry Potter bók númer þrjú, “Harry Potter og fanginn frá Azkaban”, eru fyrirbæri á stjá sem kallast ‘Vitsugur’ (Dementors). Vitsugurnar líta mjög svipaðar út og Hringvomarnir, og getur það vart kallast tilviljun hvað þær eru líkar að líkama og tilgangi. Þær eru vægast sagt eins útlítandi, og svo er tilgangur þeirra ekkert ósvipaður; Vitsugur soga að sér tilfinningar, svosem gleði, sorg o.fl. en þá aðallega gleði - en Hringvomarnir hafa svipaðan eiginleika, þegar þeir réðust á Fróða á Vindbrjóti - þá tóku þeir allan styrk úr Fróða. Ég ætla ekki að fara of mikið ofan í Harry Potter hér, en mér finnst þetta of líkt - en það er bara persónulegt mat mitt.

-
Heimildir;

1) Bækurnar þrjár Föruneyti Hringsins, Tveggja Turna Tal og Hilmir Snýr Heim.

2) Heimasíðan www.hugi.is/tolkien (þó enginn ritstuldur) & bók sem bróðir minn á sem er tileinkuð Hringvomunum, hún heitir ‘Ringwraiths’
-

Ég vil biðjast afsökunnar á ensku nöfnunum. Þessi bók sem ég gluggaði í var á ensku og vissi ég ekki íslensku nöfnin - vonandi er það í lagi. Ég vil einnig ítreka að ekkert af þessu er stolið, ég gerði þetta í mínum eigin orðum.

Takk fyrir,
Hrannar Már.