-'In a hole in the ground there lived a hobbit…'

Tolkien, fyrir 66 árum síðan, skóp heim með þessari setningu. Heim fullan af öllu því sem skortir í þann sem við lifum í, heimur þar sem von, gleði, fegurð og dýrð ræður ríkjum, og í baráttu þessa gagnvart Skugganum eru möguleikar á hetjudýrðum og dáðum fyrir þá sem þrá slíkan frama.

Þessi heimur er stærri en nokkuð sem nútímamenn geta ímyndað sér, fullur af hættum og myrkri, en þó í dýpstu hellum ills er alltaf vonarglæta…

Því stærstu hjörtun liggja í minnstu verum.

-'What can Men do against such reckless hate?'

Við lestur bókanna lifna orð við, skapa ímyndir sem munu aldrei geymast, kraftur skrifaða orðsins í sínu fegursta formi.

Við áhorf kvikmyndanna lifna myndirnar við. Hversu vel það tekst fer ekki eftir því hvort þær séu eins og maður ímyndaði sér orðin, heldur hvernig þær skila sér einar og sér.

En hvernig getur slíkt gerst þegar bókin hefur þegar fært slíka orku? Hvernig geta kvikmyndirnar hugsanlega skilað því betur?

Undir leiðsögn Peters Jackson.

-'I can manage it. I must.'

Hvað gerum við fyrir hlutina sem við elskum?

Við getum barist fyrir þá. Við getum fórnað okkur fyrir þá. Við getum myrt fyrir þá. Og hvað elskum við? Við elskum það sem færir okkur hamingju.

The Return of the King færði mér mikla hamingju.

Nefnið allt sem fyrri myndir færðu ykkur, og margfaldið það með einhverju háu. Kvikmyndataka, tæknibrellur, Gollum, leikur, handrit, tónlist, fegurð, listræn stjórnun…

Það er allt betra. Það er allt komið á stig sem ég fullyrði að hefur aldrei sést áður. Ég get nefnt ótalmörg móment þar sem einfaldlega tilfinningin og fegurðin flæddi yfir, og tárin runnu.

Kannski er ég svona rosalega tilfinninganæm manneskja, kannski er ég undantekning. En eitt skal ég fullyrða, og þetta dreg ég ekki til baka:

Ef þú finnur ekki hárin rísa a.m.k. 10 sinnum í myndinni, þá ertu ekki manneskja lengur, þá er lífsvilji þinn of lágur til að þú getir verið sú tilfinningavera sem menn eru sem betur fer ennþá.

Leikurinn er ekki bara á toppi trilógíunnar, hann er á toppi kvikmyndasögunnar. Þeir sem hafa lesið bækurnar, vitið þetta: Allt sem þið hafið ímyndað ykkur vaknar ljóslifandi og vekur meiri tilfinningar en allt sem áður var með ótrúlegri meðferð leikaranna.

Það er sérstaklega eitt atriði í myndinnni sem segir einfaldlega, hátt og skýrt: Peter Jackson er besti leikstjóri sem er á lífi í dag.

Handritið: Frábært. Enn betra en áður. Sagan er mjög, mjög lík bókunum, lítið brugðið frá, aðallega hlutir klipptir út, sem munu birtast aftur í Extended Edition. Ótrúlega mikið af línum beint úr bókinni, sem virkar alltaf frábærlega.

Kvikmyndatakan var, eins og áður, eitthvað of fullkomið til að hafa verið gert af mannahöndum. Þeir hljóta að hafa einhverskonar yfirnáttúrulegar verur í Nýja-Sjálandi til að græja þetta.

Tæknibrellur: Gollum er margfalt betri en áður, bardagarnir eru ótrúlega útlítandi, og hér, eins og áður, hefur náðst alveg ótrúleg fegurð í brellunum.

Og talandi um bardagana. Það verður ekki sagt að þeir séu jafn ‘flottir’ og bardaginn um Helm's Deep. ‘Flott’ er ekki það sem skiptir máli hér… það sem skiptir máli er hið ofboðslega tilfinningalega gildi sem bardaginn býður uppá.

Það getur ekki verið til ljós án myrkurs.

Það getur ekki verið til sigur, án taps.

Það getur ekki verið til fegurð, án ljótleika.

Það er til jafnvægi, og það er það sem þessi kvikmynd, nei, meistaraverk, listaverk, fullkomnun, býður uppá.

Ég hef raunar ekki yfir neinu að kvarta. Ég get það ekki. Ég veit að Extended Edition verður enn betri en þetta, og ég veit að gríðarlega mikið af frábærum hlutum hefur verið klippt. En ég veit líka eitt.

Þetta hefði alls ekki getað gerst á fullkomnari hátt.

Eins og félagi minn sagði við mig hér áðan: ‘Jackson tókst það!’ The Lord of the Rings trilógían er besta kvikmyndatrilógía allra tíma, það er einfaldlega tryggt með þessu stórkostlega meistaraverki mannkynsins.

-'At last I understand why we have waited! This is the ending. Now not day only shall be beloved, but night too shall be beautiful and blessed and all its fears pass away!'
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane